30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (1901)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Það er nú búið að ræða þetta mál allrækilega hér í dag og flest rök með og á móti aðgerðum hæstv. menntmrh. hafa komið fram. Hann hefur sjálfur svarað fjölmörgu af því sem á hann hefur verið borið og um hann hefur verið sagt og vil ég ekki nema að litlu leyti ræða það efni.

Ég vil þó lýsa því strax yfir að ég held því fram að aðferðir hans við að taka þetta mál á dagskrá séu með þeim hætti að gagnrýnisvert sé. Það eru stór orð að segja um stjórn ríkisstofnunar að þar ríki sukk og svínarí. Það hlýtur að vekja ákaflega margvíslegar hugrenningar hjá þeim sem hlusta á.

Það fyrsta, sem mönnum dettur í hug, er að sjálfsögðu að hér sé um saknæmt atriði að ræða. Því hefur hæstv. ráðh. algerlega vísað á bug en í staðinn tekið upp sönginn um vanrækslu í starfi. En einnig það atriði er ekki mjög sannfærandi.

Ég held að því miður hafi verið farið offari í þessu máli, það hafi verið tekist á við það á þann hátt sem ekki var til þess að gera umræðu um þetta svo málefnalega sem nauðsynlegt er til að vandamál bæði námsmanna og ríkisins í þessu efni verði leyst með víðtæku samkomulagi. Ég vil eindregið taka undir þau ummæli hv. síðasta ræðumanns að víðtæk pólitísk samstaða náist um þetta mál.

Í öðru lagi vil ég taka fram að ég tel það forsendu þess að unnt sé að fara að ræða þetta mál að lausn verði fundin á því hver fulltrúi stúdentaráðs í stjórn lánasjóðsins er. Það er mál sem hlýtur að snerta mjög framgang væntanlegra tillagna og væntanlegrar umræðu um fyrirkomulag og skipulag sjóðsins núna á næstu vikum. Ég tel að stúdentaráð hafi lýst svo eindregnum vilja sínum að koma sínum raunverulega fulltrúa að að bæði sá fulltrúi og hæstv. menntmrh. ættu að taka það til mjög rækilegrar íhugunar hvort ekki eigi að fara að óskum stúdentaráðs í því efni.

Ég hafði vænst þess að hæstv. menntmrh. kynnti hér þær hugmyndir og hugsanlegar tillögur sem hafa verið viðraðar í fjölmiðlum núna undanfarna daga. Því miður var það ekki - eða eigum við kannske að segja sem betur fer, því að sannast sagna hafa þær tillögur verið með þeim hætti að ég - ég get nú ekki talað nema fyrir sjálfan mig - gæti ekki samþykkt þær eins og þær hafa komið fram. En hæstv. menntmrh. kvaðst enn ekki hafa gert upp hug sinn, hann kvað ekki frv. vera tilbúið, hér væri einungis um fjölmiðlafár að ræða. (Menntmrh.: Og frumhugmyndir.) Frumhugmyndir. Það er gott að vita það. En það væri þá ánægjulegt ef hæstv. ráðh. vildi skýra nokkuð nánar þessar frumhugmyndir.

Það er að mínu mati ekki frumhugmynd að segja t.d.: Við viljum efla sjóðinn, við viljum bæta skipulagið o.s.frv. Það sem máli skiptir eru einmitt ákveðnar afmarkaðar tillögur um það hvernig málum skuli háttað.

Ég hef einnig nokkrar frumhugmyndir um það hvernig ég tel að skipa mætti málum. En þær eru allar innan þeirra marka sem lögin setja. Í ágætri ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. var mjög rækilega skýrt hvernig núgildandi lög eru nægilegur grundvöllur fyrir þeim breytingum sem hugsanlega væru nauðsynlegar og heppilegar á skipulagi sjóðsins.

Það var annað í ræðu hæstv. menntmrh. sem mér þótti mjög ánægjulegt. Ég vil þakka honum fyrir að hafa nú hér á hinu háa Alþingi komið fram og lýst svo eindregið yfir sem hann gerði að hann væri fús til víðtæks samkomulags um þessi efni. Hann er þá væntanlega horfinn frá einhverjum af þeim frumhugmyndum sem hafa flogið fyrir í fjölmiðlum núna undanfarna daga. Ég held að þessi ummæli hans geti verið grundvöllur að víðtæku pólitísku samkomulagi um þetta efni. Ég held nefnilega að mjög áhrifamiklir menn í samstarfsflokki okkar hafi áttað sig á því að hér er um mjög heitt pólitískt mál að ræða þar sem farið hefur verið að svo að hugsanlega gæti skaðað hagsmuni þess flokks. Og þó að nauðsyn sé á aga í þjóðfélaginu og hæstv. menntmrh. telji að þar þurfi margt að gera komumst við ekki hjá því að verða að taka nokkurt tillit til fjölmennra hópa þegar nálgast kosningar.

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur pólitískt nef í betra lagi og hann hefur áttað sig á því að hér var ekki um að ræða mál sem væri til þess fallið að styrkja hann eða hans flokk ef það væri gert að ströngu flokksmáli.

Það eru því allar líkur á því, sem betur fer, að hæstv. menntmrh., sem er fjölmargt vel gefið, átti sig nú og fari að kynna okkur samstarfsflokki sínum t.d. eitthvað nánar frumhugmyndir um þetta efni, þannig að við getum komið til móts við hann í hans skörungsskap og gáska - við skulum ekkert vera að draga úr því. Það var að vísu einn af merkari stjórnmálamönnum íslenskum á þessari öld sem lét einhvern tíma svo ummælt: Hvað hafa Íslendingar við skörung að gera? En við skulum samt ekki gera of lítið úr því. Við skulum mætast án stóryrða, án bægslagangs, án þess að láta höggið ríða þar sem heppilegt er að koma því á, og fjalla um þetta mál þannig að Alþingi og ríkisstj. verði sammála um skynsamlega niðurstöðu sem verði til heilla og hagsældar fyrir menntun og menningu í þessu landi.