30.01.1986
Sameinað þing: 39. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2249 í B-deild Alþingistíðinda. (1903)

Lánasjóður íslenskra námsmanna

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það eru tvö meginatriði sem mig langar að fjalla um í þessari umræðu, sem mér finnst skipta máli í umræðunni og hefur ekki verið fjallað mikið um það sem af er dags, í fyrsta lagi heildarupphæð þess fjár sem fer til Lánasjóðs ísl. námsmanna og í öðru lagi hlutfall miðað við laun í landinu, þ.e. hlutfall námslána. Mér finnst rétt að þetta komi fram til skýringar þegar menn meta alla þætti málsins.

Fjárlög landsins á þessu ári nema 33 þús. millj. kr., 33 milljörðum. Beiðni Lánasjóðs ísl. námsmanna í haust, fyrsta beiðni sem lögð var fyrir fjvn., hljóðaði upp á liðlega 1800 millj. kr. Hún lækkaði fljótlega um 200 millj. eða þar um bil og munaði um, en hafði þó hækkað verulega frá síðasta ári og kem ég að því eilítið síðar. Útlán Lánasjóðs ísl. námsmanna árið 1985 voru 1230 millj. kr. með aukafjárveitingum. Endurgreiðsla til sjóðsins var 70 millj. Miðað við líkanið umrædda sem skila á 88% eða þar um bil í endurgreiðslu er einnig hægt að vitna í upplýsingar manna sem gleggst þekkja um að það líkan sé eingöngu líkan og alls óvíst hverju það skilar til baka af fjármagni. Menn fara allt niður í 45% af skilum, þeir sem gerst þekkja að mínu mati í dag. (Gripið fram í: Hverjir eru það?)

Það er þannig í þessu tilviki og þessu sambandi í fyrsta lagi ástæða til að vekja athygli á því að það fjármagn sem fer í gegnum lánasjóðinn, þann milljarðasjóð sem hæstv. menntmrh. er tíðrætt um, er verulegur hluti af fjárlögum íslenska ríkisins, þjóðarbúsins í heild. Á það verður að horfa. Á fjárlögum 1985 voru 668 millj. kr. til lánasjóðsins. Ég hef sagt að útlánin voru 1230 millj. kr. Sem sagt: útlán sjóðsins eru nær 100% hærri en fjárlagatillagan 1985 gerir ráð fyrir. Á sama tíma eru allar verðlagshækkanir við gerð fjárlaga miðaðar við 28% hækkun þannig að við erum að tala um dæmi sem þýtur með ólíkindum fram úr öðrum þáttum þjóðfélagsins.

Nú er ég ekki að tala um að það eigi að skera við nögl til námsmanna. Mitt grundvallarsjónarmið er sterkur Lánasjóður ísl. námsmanna. En þetta eru hlutir sem verður að taka tillit til og meta þegar rætt er um fjárlög íslenska ríkisins. Þetta mál er ekki bara tilfinningamál eða pólitískt mál. Þetta er mál sem varðar alla og allir eru sammála um í grunnatriðum nema þeir sem vilja nýta vanda sem kemur upp í málinu til þess að geta gert úr því pólitískt moldviðri.

Þegar rætt er um þessar heildartölur er líka rétt að horfa til þess að lánþegar sjóðsins á síðasta ári voru um 7000 talsins, en á framfæri lánasjóðsins má hins vegar segja að séu um 15 þús. einstaklingar með börnum og mökum námsmanna. Það er há tala líka þegar um er að ræða námslán sem að hluta eru styrkir.

Það eru 33 þús. millj. kr. fjárlög. 1300 millj. kr. eru ætlaðar á fjárlögum þessa árs með erlendu lánunum, sem er náttúrlega langsamlega verstur hluti þessa dæmis, dýrasti hlutinn. En hvað er veitt á fjárlögum í alla framkvæmdaliði íslenska þjóðarbúsins, í alla grunnskóla landsins, í allar hafnir landsins, í öll sjúkrahús landsins, alla flugvelli, allar dagvistunarstofnanir, allar nýbyggingar í þessum þáttum? Það eru 350 millj. kr. á sama tíma og þörfin, miðað við gerða samninga og gerðar áætlanir sem unnið er að, er 1200-1400 millj. Þetta verðum við einnig að horfa á þegar rætt er um hvað hægt er að leggja mikið til menntunar í landinu og allra annarra þátta.

Það hefur hér verið vikið að brottrekstri eins manns. Ég tek undir að það hlýtur alltaf að vera sárt að þurfa að sinna slíkum verkum. Það hlýtur alltaf að vera sárt og er að mínu mati aldrei gert af illindum einum. En menn verða að taka af skarið. Það má hins vegar spyrja hvort það sé eðlilegt hlutfall í slíkri umræðu. Það er tiltölulega lítið mál gert úr því þótt 160 verkamönnum úti á Granda hafi verið sagt upp störfum. Það er aldrei í fréttum þegar verið er að segja skipstjórum skuttogaraflotans upp störfum vegna þess að þeir, að mati þeirra sem reka fyrirtækin, þykja ekki skila nógu miklum afla á land þó þeir sannarlega skili mjög miklum afla en kannske ekki nógu miklum miðað við það sem kostar að reka skipin. Það er ekki heldur í fréttum þegar mönnum er sagt upp störfum sem gegna mikilvægum störfum í landinu víðs vegar. Þannig hefur verið reynt að gera þetta, að mínu mati án þess að ég sé að fjalla sérstaklega um þann mann sem hér um ræðir, að tilfinningamáli og píslarvættismáli. Það finnst mér ekki til hagsbóta fyrir stöðu íslenskra námsmanna og stöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna.

Hv. málshefjandi sagði að þetta mál væri eitt af þeim flogum sem sjálfstæðismenn fengju. Hann má kalla það því nafni sem honum sýnist. Þetta er fyrst og fremst mál sem er ástæða til að skoða ofan í kjölinn og rétta af þar sem á hallar. Þetta er svo stór sjóður, þetta er svo mikilvægur sjóður, ekki bara vegna þess hve hann er stór þáttur í útgjöldum ríkisins, heldur vegna þess að þarna er um að ræða framtíðarmenntun landsmanna og á þeim grunni er réttlætanlegt að taka fast á í þessu máli. Flog sjálfstæðismanna, sagði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Samt er það svo að núverandi ríkisstj. hefur látið námsmenn hafa sérstök forréttindi undanfarin ár í þróun lánasjóðsins, slík forréttindi að ekki eru til dæmi um annað eins.

Ég vakti á því athygli á Alþingi haustið 1983 að þá væri að eiga sér stað þróun í Lánasjóði ísl. námsmanna sem ástæða væri til að skoða. Það var ekki sagt vegna þess að það væri verið að tala gegn námslánum eða námsmönnum, en það var bent á ákveðna þróun sem ætti sér stað. Nú skal ég benda á einfaldar staðreyndir sem sýna fram á það svart á hvítu að þessi ríkisstj. hefur betur en aðrar ríkisstjórnir stutt við bakið á námsmönnum.

Það er þá kannske rétt að það komi í hennar hlut að taka þar á er farið hefur úr böndunum. Veturinn 1983 voru námslán 8300 kr. á mánuði. Laun fólks í fiskvinnslu voru 8900 kr. Þessi viðmiðun hafði átt sér stað um árabil, að námslán nálguðust eða fylgdu í kjölfarið á vinnulaunum fólks í fiskvinnslu. Þegar vísitöluhækkun launa var afnumin var vísitöluhækkun námslána ekki afnumin. Það hefði verið einfalt atriði ef ástæða hefði þótt til að gera það með reglugerðarbreytingu. Það hefði ugglaust verið eðlilegt ef menn hefðu tekið þann þátt upp. (SJS: Gleymdist það?) Þetta kemur ekki saman við gerð laganna sem vitnað hefur verið í og smíði þeirra. Það má kalla það hvaða nafni sem er, hvort það hefur gleymst eða ekki. Ég hygg að menn gleymi ekki slíku. Það hefur upplaust verið matsatriði. En þetta eru engu að síður staðreyndir málsins.

Það er þarna sem hlutfallið raskast í viðmiðun á ráðstöfunarfé heimila og einstaklinga í landinu. Það er bláköld staðreynd. Og þessi breyting þýðir að í dag hafa námsmenn á námslánum farið 25% fram úr grunnlaunum í fiskvinnslu. Í dag eru grunnlaun í fiskvinnslu milli 15 og 16 þús. kr., en námslán til einstaklings eins og öllum er kunnugt liðlega 20 þús. kr., milli 20 og 21 þús. Þegar námsmenn horfa á þessa staðreynd, og það hef ég sannreynt í viðtölum við marga stúdenta og námsmenn á undanförnum vikum og mánuðum, horfa þeir öðruvísi á þetta mál, þá horfa þeir á það með sanngirni og skynsemi, engum tilfinningablæstri heldur blákalt, að menn í þessu þjóðfélagi vilja almennt ekki standa fetinu framar eða ganga á rétt annarra.

Það hefur verið rætt hér um hugmynd að sérstökum styrkjum til námsmanna, hugsanlega þá til námsmanna sem nema í ákveðnum greinum sem væntanlega mundu þá fyrst og fremst vera greinar sem mundu stuðla að aukinni framleiðslu, auknum verðmætum í þjóðarbúinu. Þarna verður að gera nokkurn greinarmun á andlegum verðmætum og veraldlegum sem eru þau verðmæti sem við getum fengið peninga fyrir og sinnt okkar menningarlífi fyrir andvirðið. Þá á ég við fiskvinnslu og annað.

Hvers vegna er ástæða til þess að standa við bakið á slíkum hugmyndum? Ég skal nefna örfá atriði sem styrkja þann grunn. Í Háskóla Íslands eru núna u.þ.b. 4000 stúdentar. Af þessum 4000 stúdentum eru u.þ.b. 1200 í lögfræði og viðskiptafræði. Önnur 1200 eru í heimspeki- og félagsvísindadeild. Sem sagt: 60% af stúdentum Háskóla Íslands stunda nám í fjórum deildum sem allar eiga að skila fólki fyrst og fremst inn í þjónustukerfi landsins, ekki í hið almenna, eins og við tölum um, framleiðslukerfi landsins. Við viljum taka stór skref í lífefnaiðnaði og öðru sem skapar möguleika á framleiðslu í framtíðinni, en það kostar slíka fjármuni að það er nær tómt mál að tala um slíkt enn sem komið er. En í ljósi þessa dæmis, án þess að hallað sé á þá sem stunda nám í þessum greinum því allt þetta nám nýtist á margan hátt, er ástæða til að styðja og hvetja til náms í fögum sem geta skilað okkur inn í framtíðina með meiri nýtingu og framleiðslu.

Þegar maður segir að það borgi sig ekki í dag að hætta námi eru rök fyrir slíku. Fólk sem hefur lokið námi í Háskóla Íslands á undanförnum tveimur árum hefur í mörgum tilvikum lækkað í framfærslueyri með því að fara út á hinn almenna vinnumarkað, svo sem eins og að fara úr heimspekideild í kennslu. Slíkt hlýtur að vera öfugþróun þegar á heildina er litið þótt enginn sé ofsæll hvorki af grunnlaunum í fiskvinnslu eða þeim námslánum sem upp á er boðið í dag.

Mér barst í dag bréf frá samstarfsnefnd stúdentaráðs Háskóla Íslands, Bandalags ísl. námsmanna, SÍNE og Iðnnemasambands Íslands. Þar eru skoðanir sem sjálfsagt er að hlusta á og taka tillit til, en það er ein setning sem mér finnst sérstaklega slæmt að skuli standa í því bréfi og ég ætla að lesa hana, með leyfi hæstv. forseta. Þar stendur:

„Við bendum á að ráðstöfunarfé lánþega í námi og eftir það er svo við nögl skorið að ekki er á útgjöld bætandi.“

Mér finnst óforskammað, ef menn horfa á dæmið í heild, ef menn horfa á þau laun og þá stöðu og þann samdrátt í hinum almennu framkvæmdum ríkis og sveitarfélaga sem hefur átt sér stað, að benda á í slíku bréfi að ráðstöfunarfé lánþega í námi sé svo við nögl skorið að það sé til skammar. Það mætti miklu fremur segja í þessari stöðu og með þeim tilvitnunum sem ég hef nefnt um laun kennara miðað við námsmanna að standa ætti í setningunni að eftir það, að loknu námi, sé svo við nögl skorið að ekki sé á bætandi. Hitt finnst mér bera vott um vanþakklæti sem ég er sannfærður um að þorri námsmanna stendur ekki að og hefur ekki þá skoðun á málinu þótt einhver samstarfsnefnd, þröngur hópur, setji svona mistök á blað.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði að það verk sem hæstv. menntmrh. er að vinna í þessu máli væri auglýsingamennska manns. Það fannst mér marhnútleg yfirlýsing. Var stjórnleysi? spurði hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson. Það er ljóst þegar málið er skoðað ofan í kjölinn, og hefur t.d. komið sérstaklega til umfjöllunar í fjvn. Alþingis s.l. tvö ár og með meiri þunga á s.l. hausti eins og gefur að skilja, að málið hefur vaxið, sjóðurinn og framkvæmd hans hefur vaxið úr stakk sínum á síðustu mánuðum sérstaklega og hefur vandinn orðið mestur á síðustu mánuðum þannig að mér finnst hálfloðmullulegt að vera að hræra þessu máli yfir á aðra fyrrv. menntmrh. Það er einfaldlega að vandinn blasir við með sérstökum þunga og þá reynir á hvort menn hafa þrek og þor til þess að taka á vandanum í stað þess að ýta honum á undan sér og leggja ekki út á djúpið eins og marhnútum er ekki eiginlegt.

Grundvallaratriðið í þessu máli, herra forseti, ég mun stytta mál mitt með tilliti til tímalengdar, er einmitt það atriði, sem hæstv. menntmrh. hefur lagt áherslu á, að Lánasjóður ísl. námsmanna á að vera sterkur sjóður og standa við bakið á námsmönnum sem á þurfa að halda. Ég hygg að þorri námsmanna sé sáttur við að sjóðurinn hafi sterkan hrygg, fólk almennt hafi skilning á því að eðlilega sé búið að íslenskum námsmönnum. En auðvitað verður að ætlast til þess að námsmenn sýni gagnkvæman skilning þegar tekið er tillit til þjóðarheildarinnar og ég ber svo mikið traust til námsmanna að ég er sannfærður um að þorri þeirra vill koma þessu máli á hreint. Það er ekki úttalað enn eða uppgert, en þegar námsmenn og aðrir í þessu landi kynna sér alla þætti mála er sýnt að það var full ástæða til að spúla dekkið.