03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1909)

163. mál, fóstureyðingar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hér er nú komið fram frv. til laga um breytingu á lögum nr. 25 frá 1975 um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, frv. þess efnis að nema brott lagaheimild til fóstureyðinga af félagslegum ástæðum.

Nú er það svo að um langt árabil hefur það verið eitt af baráttumálum allra kvennahreyfinga að tryggja konum þau grundvallarréttindi sem nauðsynleg eru til þess að þær geti sjálfar borið ábyrgð á lífi sínu og gjörðum og átt nokkurt val þar um sem ábyrgir, sjálfstæðir og fullveðja einstaklingar. Þetta er sú hugsun sem liggur að baki lögunum frá 1975 en þau voru á sínum tíma stórt skref fram á við í réttindabaráttu kvenna. Lögin frá 1975 gera ráð fyrir stóraukinni almennri fræðslu um kynlíf og barneignir og þau gera ráð fyrir ódýrum og aðgengilegum getnaðarvörnum fyrir alla. Þetta eru þættir sem enn hafa ekki verið framkvæmdir og ég kem að á eftir. Þannig var lögunum ætlað að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir. Væri hins vegar um ótímabærar þunganir að ræða var það lagt í hendur kvenna sjálfra að ákveða, ef aðstæður voru á þann veg, hvert framhald þungunarinnar yrði. Með því móti voru konum fengin þau réttindi og jafnframt sú skylda að bera sjálfar ábyrgð í þessum efnum, bæði fyrir sjálfum sér, samfélagi sínu og skapara sínum. M.ö.o.: íslenskum konum var og er treyst til að bera ábyrgð sjálfar á líkama sínum og lífi og þar með einnig því lífi sem þær geta fætt af sér, enda eðlilegt og réttmætt þar sem konur eru fullveðja, ábyrgir og sjálfstæðir einstaklingar.

Sú hugsun sem lögð var til grundvallar lögunum frá 1975 er því enn í fullu gildi og speglast e.t.v. skýrast í orðum þess hv. þm. sem sagði mér að hann hefði ekki þegið boð um að gerast meðflm. að því frv. sem hér er til umræðu vegna þess að hann teldi sig ekki vera þess umkominn að taka ákvörðun sem þessa fyrir aðra. Þannig virðast hins vegar flm. þessa frv. ekki hugsa. Frv. byggir á því að það sé Alþingis að taka þessa ákvörðun fyrir allar íslenskar konur og þar sem svo er eru þeir ekki líklegir til að Ijá eyru þeim viðhorfum til kvenna sem ábyrgra einstaklinga sem lögin frá 1975 eru byggð á. Læt ég því ekki fleiri orð falla um það í bili, en ítreka aðeins að þau viðhorf standa vitaskuld óhögguð í dag.

Nú er það svo að ég er ekki frekar en flm. þessa frv. meðmælt fóstureyðingum í sjálfu sér. Ein sú ósk sem við Kvennalistakonur bárum í brjósti er við tókum til starfa hér í þingsölum var að breyta þessu þjóðfélagi á þann veg að konur þyrftu ekki að grípa til þess neyðarúrræðis að láta eyða fóstri. Hér á Alþingi höfum við flutt hvert málið á fætur öðru sem miðar að því að bæta hag barna og foreldra þeirra og gera þetta þjóðfélag vinsamlegra litlum börnum og foreldrum þeirra, að þjóðfélagi sem tekur opnum örmum á móti sérhverju barni og þar sem réttur kvenna til að eiga börn er ótvíræður. Ég endurtek þetta síðasta, þar sem réttur kvenna til að eiga börn er ótvíræður, því um það snýst málið að mínu viti. En við höfum hingað til talað fyrir daufum eyrum. Við höfum talað fyrir daufum eyrum og ekki komið nokkru slíku máli fram hjá þeim stjórnarmeirihluta sem flm. þessa frv. eru aðilar að. Það er þeim mun kynlegra þar sem í grg. með þessu frv. er margsinnis tiltekið sem ein meginröksemd fyrir frv. að félagslegan vanda eigi að leysa með félagslegum ráðstöfunum, eins og þar segir, en ekki með fóstureyðingum.

Mér er því spurn: Hvar voru flm. þessa frv. þegar ég á síðasta þingi og þinginu þar á undan einnig flutti hér í hv. deild frv. til laga um lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex mánuði og óskert kjör foreldra meðan á fæðingarorlofinu stendur, það frv. sem nú liggur á borði hv. þm. í þriðja sinn og hefur málanúmerið 180? Hvar var t.d. 1. flm. þess frv., sem hér er til umræðu, þá? Alla vega ekki í þessum ræðustól að lýsa stuðningi við fæðingarorlofsfrv. sem raunverulega bætir hag foreldra og ungra barna og gæti því dregið úr fóstureyðingum yrði það að veruleika. Ekki var hann hér þá til að benda á mikilvægi þess að búa betur að börnum þessa lands. Og hver hafa verið örlög þessa frv. um lengingu fæðingarorlofs á tveimur síðustu þingum? Um það geta hv. þingdeildarmenn lesið á bls. 4 í frv., en þar kemur fram að í tvö skipti hefur frv. verið frá fjórum upp í sex mánuði í heilbr.- og trn. þessarar deildar og ekki átt afturkvæmt aftur inn í deildina til atkvæðagreiðslu fyrir þinglausnir.

Það dugði ekki til á síðasta þingi til að hreyfa því málinu úr nefndinni að heilbr.- og trn. voru á vordögum afhentar 4200 undirskriftir því frv. til stuðnings og áskorun um að afgreiða það hið snarasta úr nefndinni. Allt kom fyrir ekki. Þetta frv. um lengingu fæðingarorlofs naut ekki stuðnings flm. þess frv. sem hér er til umræðu eða annarra meirihlutamanna, ella hefði það væntanlega átt afturkvæmt úr heilbr.- og trn. og væri e.t.v. orðið að lögum núna mæðrum og nýfæddum börnum til hagsbóta.

Eða eigum við að taka dagvistarmálin? Dagvistarmálin eru nauðsynjamál fyrir börn og foreldra, ekki síst í þjóðfélagi þar sem nánast allir foreldrar ungra barna verða að vinna úti allan daginn til að eiga fyrir nauðsynjum og skuldum.

Við skulum taka dagvistarmálin. Á síðasta þingi flutti ég frv. til laga um sérstakt átak í dagvistarmálum barna. Í frv. var gert ráð fyrir að lögbundin yrði ákveðin prósentutala af fjárlögum ríkisins á ári hverju til þessa málaflokks. Í fjh.- og viðskn. þessarar hv. deildar, þar sem þetta frv. var tekið fyrir, var ekki um það deilt að átaks væri þörf í dagvistarmálum barna. Samt sem áður treystu meirihlutamenn í hv. fjh.- og viðskn. sér ekki til þess að mæla með að frv. væri samþykkt hér við 2. umr. heldur var því vísað til ríkisstj. með því fororði að bæta nú um betur. Efndir ríkisstj. í þessu máli voru hins vegar þær að á meðan frv. hefði veitt á bilinu 120-190 millj. til dagvistarmála á fjárlögum ársins í ár var á fjárlögum veitt 40 millj. til þessara mála. Sú upphæð sem ég nefndi og sem frv. gerir ráð fyrir byggir á samningi sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér árið 1980, en þar lofuðu íslensk stjórnvöld að koma til móts við óskir verkalýðsfélaganna um átak í dagvistarmálum barna. Orð og fögur fyrirheit en engar efndir.

Eða launamálin? Eigum við að taka launamálin því eins og hv. flm. vita væntanlega þá lifa konur og börn á launum eins og aðrir? Þá vaknar spurningin: Hvernig stendur á því að flm. þessa frv., sem ítreka í grg. með frv. að félagslegan vanda eigi að leysa með félagslegum ráðstöfunum en ekki fóstureyðingum, geta þá, eins og þeir hafa gert, stutt þá launastefnu sem ríkisstjórn Íslands stendur nú fyrir og sem skapað hefur gríðarlegan vanda fyrir fjölmargar mæður og feður í landinu og sem hefur bitnað harðast á konum sem lægst hafa launin og eiga því erfiðast með að lifa af þeim? Hvernig geta þeir stutt slíka stefnu? Mér þætti fróðlegt að fá að heyra það hér á eftir. Ef þeir segja að fyrir þessum vanda sé séð með fylgifrv. á þskj. 183, þar sem gert er ráð fyrir hækkun svonefndra mæðralauna, er það auðvitað fráleitt því að þær lágu upphæðir sem þar eru á ferðinni leysa engan veginn fjárhagslegan og félagslegan vanda einstæðra mæðra. Þessar upphæðir kaupa t.d. einstæðum mæðrum ekki húsnæði, en samkvæmt skýrslu félmrh. um könnun á vanda einstæðra foreldra frá haustinu 1984 var skortur á eigin húsnæði efst á blaði. Þetta fylgifrv. getur engan vanda leyst, því miður, og raunar með ólíkindum að menn skuli leyfa sér að bera það fram sem slíkt. Mér er nær að halda að annaðhvort geri flm. þessa frv. sér ekki grein fyrir þeim vanda sem blasað getur við mæðrum og börnum í þessu þjóðfélagi eða þá að allt þeirra tal um félagslegar úrbætur þeim til handa er skrum eitt.

Virðulegi forseti. Til þess að draga úr fóstureyðingum hér á landi er aðeins eitt nokkurn veginn öruggt ráð og það er að stuðla að raunverulega bættum hag foreldra og barna í íslensku þjóðfélagi. Að auki mundi stóraukin fræðsla um kynlíf og barneignir auk ódýrari getnaðarvarna vera til mikils gagns. En lagabreyting af því tagi sem hér er lögð til og hér er til umræðu getur ekki komið í veg fyrir áframhaldandi fóstureyðingar af félagslegum ástæðum og skal ég nú útskýra hvernig á því stendur.

Hin meginrökin sem tiltekin eru í grg. með frv. sem rök fyrir flutningi þess eru að með lögunum frá 1975 hafi fóstureyðingum fjölgað mjög hér á landi. Þessu hlýt ég að mótmæla því við vitum að fyrir árið 1975 var töluvert um ólöglegar fóstureyðingar hérlendis og einnig vitum við að íslenskar konur sóttu til annarra landa í þessu skyni fyrir árið 1975. Við vitum ekki hversu margar þessar fóstureyðingar voru og því vitum við ekki hvort þeim fjölgaði með tilkomu laganna árið 1975. Þær ályktanir sem dregnar eru af tölum um fjölda fóstureyðinga í grg. með frv. eru því sannanlega ekki réttar. Það sem þessi reynsla af fóstureyðingum í trássi við lög ætti hins vegar að kenna okkur er að lög um bann við fóstureyðingum af félagslegum ástæðum duga ekki til að koma í veg fyrir slíkar fóstureyðingar. Þótt það frv. sem hér er til umræðu yrði að lögum mundu fóstureyðingar af félagslegum ástæðum að öllum líkindum áfram verða framkvæmdar hér á landi ólöglega eins og var fyrir gildistöku laganna árið 1975 og einnig munu þær konur sem það geta þá sem fyrr væntanlega leita til nágrannalandanna þar sem fóstureyðingarlöggjöfin væri þá rýmri en hún væri orðin hér.

Stjórnsemi með líf annarra, eins og birtist í þessu frv., mun ekki duga til að koma í veg fyrir fóstureyðingar. Ef við viljum í raun sporna við fóstureyðingum, og það vil ég, gerum við það, eins og ég sagði áðan, aðeins með því að bæta raunverulega hag og alla aðstöðu barna og foreldra í íslensku þjóðfélagi. Fyrsta skrefið í þá átt gæti t.d. verið að samþykkja það frv. til laga um fæðingarorlof sem nú liggur á borðum hv. þingdeildarmanna. Það er aðeins fyrsta skrefið því þau yrðu að vera miklu fleiri, en með því að fara þá leið gætum við sannanlega á endanum tryggt rétt íslenskra kvenna til þess að eiga börn.

Virðulegi forseti. Síðasta atriðið sem ég vil nefna hér og sem vantar nú reyndar að minnst sé á í grg. með frv. er einn megintilgangur laganna frá 1975, en hann var sá að tryggja ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir í þeim tilgangi að koma í veg fyrir ótímabæra þungun.

Í svörum hæstv. heilbr.- og trmrh. og hæstv. menntmrh. við fsp. frá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, bæði á 106. löggjafarþingi og einnig á því þingi sem nú situr, hefur komið fram að fræðslu um þessa hluti er enn í dag, tíu árum eftir setningu laganna, stórlega ábótavant. Einnig kom fram í þessum svörum að sjúkrasamlög taka ekki þátt í kostnaði vegna getnaðarvarna þótt slíkur vilji komi afdráttarlaust fram í 5. gr. laganna. Það má því ljóst vera að aðeins hluta laganna frá 1975 er framfylgt og er það mjög miður þar sem fullnægjandi fræðsla og ódýrar getnaðarvarnir eru án nokkurs vafa hvort tveggja mikilvæg úrræði til að koma í veg fyrir ótímabæra þungun og þar með fóstureyðingar.

Ég veit ekki hvort hv. flm. þessa frv. hafa hugsað út í þetta atriði eða hlustað á hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur og hæstv. ráðh. þegar þessi mál hafa verið til umræðu í sameinuðu þingi, en ég bendi þeim á að bæði hæstv. heilbr.- og trmrh. og hæstv. menntmrh. eru í sama þingflokki og þeir sjálfir og ég skora á þá að beina því til þessara ráðherra sinna að sjá til þess að þessum hluta laganna frá 1975 verði nú framfylgt. Eins skora ég á þá og aðra hv. þingdeildarmenn að leggjast nú á eitt með okkur Kvennalistakonum við að breyta þessu þjóðfélagi á þann veg að það verði lífvænlegra en það er nú fyrir börn. Þannig og aðeins þannig verður þetta mál unnið.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði í upphafi máls míns skerðir þetta frv. þann rétt sem íslenskar konur hafa í dag til að bera sjálfar ábyrgð á líkama sínum og lífi bæði gagnvart sjálfum sér, samfélagi sínu og skapara sínum. Á þann veg lýsir þetta frv. vantrausti á konur sem ábyrga og fullveðja einstaklinga. Þótt hv. flm. frv. virðist ekki gera sér fulla grein fyrir því eru þetta viðhorf til kvenna sem íslenskar konur taka almennt ekki gild. Er ekki kominn tími til að menn láti af bábilju sem þessari og snúi sér þess í stað að því verkefni að tryggja þann sjálfsagða rétt eða eigum við að segja frelsi kvenna til að eiga börn, frelsi þeirra til að bera ábyrgð á sínu eigin lífi og frelsi þeirra til að búa börnum sínum mannsæmandi líf? Hér er stórt verkefni á ferðinni og það er verkefni sem þolir enga bið.