03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2269 í B-deild Alþingistíðinda. (1910)

163. mál, fóstureyðingar

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég tel ástæðulaust að tala lengi um þetta, en vildi þó aðeins leggja orð í belg kannske fyrst og fremst til að lýsa andstöðu minni við þetta frv. Ég treysti mér ekki til að greiða því atkvæði og mun greiða atkvæði gegn því þegar það kemur hér til atkvæða.

Ég geri það vegna þess að ég tel að eins og þessum málum er nú háttað hér í þjóðfélaginu séu þessi mál með tiltölulega skaplegum hætti og það sé ekki ástæða til að gera þær breytingar sem hér er gert ráð fyrir. Ég held raunar að það væri verulegt skref aftur á bak ef það væri gert, en dreg ekki í efa góðan hug flm. að baki þessu máli. Ég held hins vegar að hann sé kannske svolítil tímaskekkja og á misskilningi byggður án þess að sé farið nánar út í siðfræðilegar umræður um þau efni. En ég mun sem sagt greiða atkvæði gegn þessu frv.

Hv. síðasti ræðumaður, 11. þm. Reykv., kom nú býsna víða við í sinni ræðu og talaði um hversu illa þenkjandi menn sætu á hinu háa Alþingi sem fengjust ekki til að samþykkja öll hin góðu frv. Kvennalistans, bæði varðandi fæðingarorlof og ýmislegt annað. Ég hef áður sagt það og segi það enn að vandalaust er að setja saman góð og falleg frv. sem kostar verulegt fé að framkvæma. Það er enginn vandi. Ég minnist þess ekki að í frv. sem hér var gert að umtalsefni áðan, um fæðingarorlof, sé gerð grein fyrir því hvernig eigi að fjármagna þann aukakostnað sem af því hlýst. (Gripið fram í.) Það er ekki í því frv. sem hér var gert að umræðuefni. Það eru engin ákvæði um það. Það er bara eins og vinnubrögð þingmanna Kvennalistans hafa verið að flytja frv. til útgjalda án þess að gera nokkra grein fyrir því hvernig skuli þeim mæta. Síðan eru aðrir þm. sakaðir um allt að því illmennsku þegar þeir ekki fást til að greiða þessum frv. atkvæði. Þetta er heldur ódýr aðferð til að slá sér upp. Það verður að segjast alveg hreint eins og er. Og þetta eru afskaplega ómerkileg vinnubrögð. (Gripið fram í.) Ég var ekki að tala við hæstv. iðnrh. að þessu sinni. Ég var að víkja að þeim málatilbúnaði þm. Kvennalistans að flytja jafnan tillögur um útgjöld og það mikil útgjöld á sviðum þar sem allir eru sammála um að gera þarf betur, en gera þetta með svo ábyrgðarlausum hætti sem raun hefur borið vitni. Þetta þykja mér ekki merkileg vinnubrögð. Ég veit að það eru líka uppi mjög skiptar skoðanir um það frv. um fæðingarorlof sem hv. þm. gerði að meginumræðuefni áðan, þ.e. að fiskvinnslukonan skuli fá kannske 17 000 kr. á mánuði, en konan sem er alþm. skuli fá sextíu og eitthvað þús. kr. á mánuði eða þar um bil í laun í fæðingarorlofi. Ég veit að það eru mjög skiptar skoðanir um þetta. En það eru þm. Kvennalistans sem flytja þetta frv.

Mér þótti líka svolítið einkennilega til orða tekið hér þegar ævinlega var talað um rétt íslenskra kvenna og rétt kvenna í sambandi við það að eiga börn. Börn eru ekki eingetin. Það eru foreldrar sem eiga þarna hlut að máli. Hvort sem Kvennalistinn kýs að viðurkenna það eða ekki er það staðreynd sem ég hygg að þær eigi mjög erfitt með að breyta. Það eiga báðir foreldrar þarna rétt og þýðir ekkert að tala ævinlega eins og börn séu eingetin, eins og gert var áðan. Það er merkilegt að þurfa að hlusta á það aftur og aftur.

Varðandi fræðsluna sem um var talað er sjálfsagt rétt að þar má ýmislegt bæta og margt sem þarf nánari athugunar við. Ég get alveg tekið undir það. Hins vegar finnst mér það ekki rétt þegar ellefu ára börnum í skólakerfi þessa lands eru fengnar í hendur kennslubækur um æxlun og um kynferðismál þar sem til þess er ætlast að þau taki afstöðu til þess hvenær þau telji eðlilegt að fara að lifa kynlífi. Þetta held ég að sé fræðsla á villigötum. Þess vegna tek ég undir að það þarf mjög margt að athuga í þessu sambandi og endurskoða. Ég er ekkert viss um að tillögur Kvennalistans í þeim efnum séu endilega það eina rétta. Ég held hins vegar að þm. þess ágæta stjórnmálaflokks séu stundum á villigötum alveg eins og hendir sjálfsagt okkur öll á stundum.

En virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Ég mun greiða atkvæði gegn þessu frv. þegar það kemur hér til afgreiðslu og atkvæðagreiðslu.