03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2270 í B-deild Alþingistíðinda. (1911)

163. mál, fóstureyðingar

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég kem aðallega í ræðustól til að lýsa andstöðu minni við þetta frv. Ég tel það stórt skref aftur á bak ef við ætlum að afnema þann lagalega rétt að framkvæma megi fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Við eigum að beina kröftum okkar í þá átt að bæta félagslegar aðstæður hér á landi og koma á þann hátt í veg fyrir eins og hægt er að það þurfi að framkvæma fóstureyðingar. Fóstureyðingar eru mjög viðkvæmt mál og ekki síður fyrir konur en þá karlmenn sem flytja þetta frv. eða þær konur sem kemur fram í grg. að styðja þetta frv. Ég tel fóstureyðingar afskaplega viðkvæmar og erfitt að ræða um þær, en það kemur enginn í veg fyrir á stundum að það þurfi að framkvæma fóstureyðingar.

Mér finnst það óþarfa skítkast, ef svo má segja, af ræðumanni sem talaði á undan mér í garð Kvennalistans að tala um að þær geri ekki tillögur um að mæta þeim kostnaði sem frv. þeirra fela í sér. Þær hafa, eftir því sem ég man best, flutt fylgifrv. jafnframt, eins og hér er gert, um að mæta þeim kostnaði sem þær hafa lagt til. Það fer ansi margt í súginn í þessu þjóðfélagi sem skilar sér hvergi, en ég held að því fjármagni sem færi til að bæta félagslegar aðstæður kvenna og barna sé ekki kastað á glæ. Ég held að óþarfi sé að telja upp þær upphæðir sem hafa farið í ýmis ævintýri sem stjórnmálamenn hafa ákveðið að leggja í.

Ég tel að fyrst og fremst sé það fræðsla og félagslegar aðstæður sem við eigum að bæta hér á landi. Ég þakka hv. 11. þm. Reykv. fyrir góða ræðu áðan þar sem hún nefndi mörg þau mál sem betur mega fara í þjóðfélaginu. Ekki er þar síst að nefna launin sem skert hafa verið að undanförnu þannig að fólk hefur varla ofan í sig og á nema þá með óhæfilegum vinnutíma sem bitnar aftur á börnum. Ekki eru það síður þær ástæður sem gætu verið orsök þess að fleiri fóstureyðingar hafa verið framkvæmdar nú en áður. Það eru ýmsar orsakir sem geta legið þar að baki aðrar en sem hér eru látnar í veðri vaka.

Það fylgifrv. sem fylgir með þessu frv. get ég stutt þar sem það er til hækkunar á mæðralaunum og tel að taka mætti það frv. eitt og sér og samþykkja það án þess að það væri numið úr lögum að félagslegar ástæður heimili fóstureyðingar. Ég teldi það þó sýna í verki að þeir þm. sem vilja draga úr fóstureyðingum vildu gera tilraun til að athuga hvort hækkun á mæðralaunum vægi eitthvað upp á móti, mundi koma í veg fyrir að fjölgun fóstureyðinga ætti sér stað. En eins og hv. þm. Sigríður Dúna kom að áðan kemur þessi einfalda breyting ekki í veg fyrir fóstureyðingar af félagslegum ástæðum. Það verður einfaldlega farið til annarra landa eða framkvæmdar fóstureyðingar ólöglega. Við skulum horfast í augu við staðreyndir. Þessi bókstafur breytir ekki þörfinni. Það verða einfaldlega farnar aðrar leiðir.