03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2272 í B-deild Alþingistíðinda. (1913)

163. mál, fóstureyðingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Það væri hægt að flytja langt mál um ýmislegt sem fram hefur komið sem andsvar við frv. sem hér er til umræðu. Ég mun ekki bregða á það ráð nú. Það hefur að ég hygg ekkert nýtt sem máli skiptir komið hér fram í sjónarmiði þeirra sem eru andstæðir þessu frv., ekkert nýtt frá því sem áður hefur komið fram í umræðum þegar þetta mál hefur áður verið á dagskrá.

Ég sagði: sem máli skiptir. Ég hygg að það hafi samt ekki komið fram fyrr í umræðum um þetta mál sú fullyrðing, sem hv. 11. þm. Reykv. lét sig hafa að koma með hér, að fóstureyðingum hefði ekki fjölgað raunverulega frá því að gildandi lög voru sett. Ég hef ekki heyrt þetta sjónarmið áður og auðvitað var þetta algerlega órökstutt. Það verður erfitt að koma þessu heim og saman við skýrslur um þessi efni þegar samkvæmt þeim liggur fyrir að fóstureyðingar hafa um það bil fjórfaldast frá því að lögin voru sett.

Í þessu sambandi er að vísu gripið til þess - það hef ég heyrt áður í umræðum um þetta mál - að áður en lögin komu til hafi verið mikið um ólöglegar fóstureyðingar og fóstureyðingar erlendis og það yrði að hafa það í huga. Ég hef leitast við að kynna mér þessa fullyrðingu eftir föngum. Og þessi fullyrðing er fyrir löngu komin fram. Ég held að hér sé stórlega ýkt og ofmælt.

Ég nefni aðeins sem dæmi að athugað var um þessi mál í Bretlandi. En það var talið að íslenskar konur hefðu fyrr á árum leitað frekast til Bretlands. En hvað kom í ljós þegar athugað var um hvað gerst hafði okkur viðkomandi þar? Samkvæmt heilbrigðisskýrslum heilbrigðisstjórnarinnar bresku fyrir árið 1974, árið áður en lögin hér taka gildi, kemur fram að 23 íslenskar konur létu eyða fóstri í Bretlandi það ár.

Ég held að þetta breyti ekki mikið heildarmyndinni og það sé ekki hægt að draga slíkar ályktanir af þessu sem hv. 11. þm. Reykv. gerði. Auðvitað hefur verið hægt að framkvæma þessar aðgerðir á íslenskum konum víðar en á Bretlandi. En eins og ég sagði áðan hygg ég að það hafi aðallega verið til Bretlands sem konur sóttu héðan frá Íslandi í þessu sambandi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta eða ýmsar fullyrðingar sem hv. 11. þm. Reykv. kom með og augljóslega falla um sjálfar sig. Hv. 11. þm. Reykv. sagði um okkur flm. þessa frv.: Annaðhvort gera þeir sér ekki grein fyrir málinu eða þeirra gerð er skrum eitt. Þessi orð voru notuð. Ég sé ekki ástæðu til að fara að svara þessu. Þessu verður ekki svarað efnislega. Þetta er ekki efnislegt innlegg í umræðurnar.

Hér hafa komið fram, eins og ég gat um áður, í meginatriðum sömu sjónarmið og áður hafa komið. Og það er í fyrsta lagi að það er lögð áhersla á rétt konunnar, að konan verði að hafa frelsi, það sé hennar mál eingöngu hvort fóstureyðing er leyfð eða ekki og það megi ekki hefta frelsi konunnar. Það er ágætt að tala um frelsið og ekki skal ég draga úr mikilvægi frelsisins. Það kann að vera að ég sé ekki eins mikill unnandi frelsins og hv. 11. þm. Reykv., en ég leyfi mér þó að efast um það því að hv. þm. og þeir sem halda sjónarmiði hv. þm. fram um frelsi til handa konunni gleyma frelsi til þess að mega lifa og mega fæðast í þennan heim. Og svo best verður hlúð að frelsi eins að það skerði ekki frelsi annars. Ég hygg að þetta verði að hafa í huga.

Það hljómar vel að tala um frelsi. Og hér hefur verið talað í þeim anda. En ég hef einhvern tíma áður í umræðum um þetta efni vikið að því að mér hefur komið til hugar í þessu sambandi land frelsisins, Bandaríki Norður-Ameríku. Og ég veit að þegar minnst er á frelsi verður mönnum líka hugsað til þessa lands frelsisins.

Fyrir einni öld og aldarfjórðungi betur fóru fram kappræður milli tveggja manna á mörgum fundum á sléttum Illinois-ríkis. Þar deildu menn hart um frelsið.

Annar kappræðumannanna var einn af áhrifamestu stjórnmálamönnum Bandaríkjanna á þeirri tíð, glæsilegur ræðumaður, öldungadeildarþingmaður frá Washington, Stephen Douglas. Hann hélt því fram í nafni frelsisins - það var í nafni frelsisins - að það ætti að vera á valdi hinna einstöku ríkja Bandaríkjanna að ákveða hvort þar skyldi verða lögleitt þrælahald eða ekki. Hinn kappræðumaðurinn var lítt þekktur málafærslumaður frá afskekktum stað sem þá var lítið sveitaþorp, Springfield, Illinois. Þessi maður var Abraham Lincoln. Hann hélt því fram að svo mjög sem bæri að virða frelsið ættu hin einstöku ríki Bandaríkjanna ekki að hafa frelsi til að kveða á um hvort þar skyldi vera lögleitt þrælahald eða ekki.

Lincoln byggði þessa skoðun sína á því að þrælahald væri rangt í sjálfu sér og samræmdist ekki þeim manngildishugsjónum sem hinir vísu landsfeður hefðu lagt til grundvallar þeirri stjórnarskrá sem Bandaríkjunum var í upphafi sett að loknu frelsisstríðinu gegn breska heimsveldinu. Lincoln hélt því fram að allir hefðu sams konar rétt til þess að ráða lífi sínu og það skipti þar engu hvort hörundslitur manna væri svartur eða hvítur.

Þessar frægu kappræður þeirra Stephens Douglas og Abrahams Lincoln vöktu storma og stríð, svo sem alkunnugt er og leiddu til atburðarásar sem að lokum færði þrælum í Bandaríkjunum frelsi. Enginn frýr nú Abraham Lincoln fjandskapar við frelsið þótt hann samþykkti ekki frelsi til að hneppa menn í fjötra.

Við skulum jafnan gjalda varhug við því þegar frelsishugsjóninni er hampað í þeim tilgangi að heimta frelsi til handa þeim sem vilja beita aðra órétti. Það er þetta sem við skulum hafa í huga þegar rætt er um fóstureyðingar. Frelsi ber ekki að veita til fóstureyðinga vegna þess að það brýtur þann grundvallarrétt sem hvert mannslíf í móðurkviði hefur, réttinn til þess að fæðast í þennan heim.

Annað atriði, sem hér hefur komið fram og hefur jafnan áður verið vikið að, er það sem flm. halda fram, að félagslegan vanda eigi að leysa með félagslegum aðgerðum en ekki með fóstureyðingum. Engir sem tala eru á móti félagslegum aðgerðum eða félagslegum framförum. Við erum öll sammála um það. Og ég hygg að það verði raunar naumast lögð meiri áhersla á þann þátt þessa máls en við flm. þessa frv. gerum. En svo er að skilja að þeir sem eru andvígir þessu frv. segi: Já, gott og vel. Við bætum félagslegar aðstæður, en við eigum samt sem áður að vera á móti því að banna fóstureyðingar. - Í þessari röksemdafærslu virðist mér felast að það megi ekki banna fóstureyðingar af félagslegum ástæðum fyrr en allur félagslegur vandi hefur verið leystur og raunar eigi ekki að banna þessar fóstureyðingar með lögum því að það sé ónauðsynlegt af því að um engar fóstureyðingar geti verið að ræða af félagslegum ástæðum þegar enginn félagslegur vandi verði fyrir hendi.

Hv. þm., sem eru andvígir þessu frv., tala, að því er mér virðist, í þessum anda. Ef þetta er ekki rétt spyr ég hvort andstæðingar þessa frv. geti gefið eitthvert hugboð um hvað þurfi að gera mikið eða hvað langt verði komið í félagslegum aðgerðum og framförum til þess að það sé réttlætanlegt að banna fóstureyðingar.

En þessi þankagangur er næsta undarlegur. Samkvæmt þessari kenningu færi það eftir mati hvers og eins hvenær engin félagsleg vandamál væru fyrir hendi hjá viðkomandi svo lífi fósturs væri þyrmt. Þessu mætti jafna við það að ekki mætti banna fátæklingi gertæki eða þjófnað fyrr en allur fjárhagslegur vandi hefði verið leystur og raunar aldrei að banna gertæki með lögum því að það sé ónauðsynlegt af því að um ekkert gertæki eða þjófnað geti verið að ræða af fjárhagslegum ástæðum þegar enginn fjárhagslegur vandi yrði fyrir hendi. Samkvæmt þessari kenningu færi það eftir mati hvers og eins hvenær engin fjárhagsleg vandamál væru fyrir hendi hjá viðkomandi svo að hann virti eignarrétt annarra.

Enginn er haldinn þessum þankagangi þegar um eignarréttinn er að ræða. Það er litið svo á að það sé í sjálfu sér siðferðislega rangt að skerða eignarréttinn. Þess vegna er eignarrétturinn verndaður. Þessi þankagangur er þeim mun furðulegri þegar um lífið er að tefla. Það er litið svo á að það sé í sjálfu sér siðferðilega rangt að tortíma mannlegu lífi. Þess vegna er rétturinn til lífsins verndaður.

Það verður ekki undir neinum kringumstæðum lagt minna upp úr friðhelgi mannlegs lífs en friðhelgi eignarréttarins. Þess vegna ber skilyrðislaust að banna fóstureyðingar hvað sem líður félagslegum ástæðum eins og eignarrétturinn er skilyrðislaust verndaður hvað sem líður fjárhagslegum ástæðum. En þetta breytir á hinn bóginn engu um nauðsyn þess að bæta félagslegar ástæður og leysa félagslegan vanda.

Ég hef hér vikið að þeim höfuðatriðum sem mér virðast liggja til grundvallar þeim sjónarmiðum sem koma fram hjá andmælendum þessa frv. Ég hef gert það í stuttu máli í þetta sinn og skal ekki orðlengja þetta.

Þetta er í fimmta sinn sem frv. er borið fram. Það kann að vera að einhverjum þyki ofgert í því efni. En okkur flm. finnst það ekki. Höfum við þá í huga hvernig ástandið hríðversnar frá ári til árs í þessu efni að því leyti að fóstureyðingum fjölgar svo geigvænlega sem skýrslur bera vott um. Og það þyrfti ekki að vera óhugsandi að þeir sem ekki sáu þennan voða fyrir nokkrum árum - voru að bíða eftir reynslunni af lögunum frá 1975 - teldu að þeir væru núna reynslunni ríkari og það gæti verið að þeir þyrftu að endurskoða afstöðu sína til þessa frv.

En auðvitað er þá ekki gengið út frá því sem hv. 5. landsk. þm. sagði í umræðunum áðan. Hann sagði að ástandið í þessum efnum væri gott. Það er fullyrðing sem ég tel að eigi enga stoð í veruleikanum. Ég vil leggja áherslu á þessi orð mín með því að fjölyrða ekki frekar um þessa fullyrðingu.

Hæstv. forseti. Ég sagði í framsöguræðu minni fyrir þessu frv. að ég vænti þess að frv. fengi í þetta sinn þinglega meðferð og kæmi úr nefnd. Ég verð að segja að í þessum orðum mínum fólst ekki ádeila á einn eða neinn fyrir að svo hefði ekki verið áður. Þetta mál er viðkvæmt. Það er margþætt og þarf góðrar athugunar við. En ég tel að í þau skipti sem hv. heilbr.- og trn. hefur fengið þetta mál til meðferðar hafi það verið ákaflega vel athugað - a.m.k. í sumum tilfellum - og fyrir liggi á þeim vettvangi margs konar upplýsingar sem eru handhægar nú. Það er því ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir því að hv. heilbr.- og trn. takist nú að afgreiða málið þannig að það komi til meðferðar í þessari hv. deild á ný.