03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

163. mál, fóstureyðingar

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir að gefa mér leyfi til að gera örstutta athugasemd. Ég vil aðeins leiðrétta það sem hv. síðasti ræðumaður kom að fyrst í sinni ræðu áðan. Hann taldi mig hafa sagt hér að ég teldi að fóstureyðingum hefði ekki fjölgað með tilkomu laganna árið 1975. Orð mín voru þau að við vissum ekki hvort þeim hefði fjölgað vegna þess að það eru ekki til neinar áreiðanlegar skýrslur um fjölda ólöglegra fóstureyðinga hérlendis né um fjölda þeirra fóstureyðinga sem framkvæmdar voru á íslenskum konum erlendis fyrir þann tíma. Þar af leiðandi, sagði ég, eru þær niðurstöður sem dregnar eru af opinberum skýrslum í grg. með frv. ekki með öllu marktækar.

Þar sem ég hef ekki leyfi til að gera hér meira en þessa einu örstuttu athugasemd er mér nauðugur sá kostur að vísa til þeirrar ræðu sem ég flutti áðan, en þar er að finna rök gegn öllum þeim ágreiningsatriðum sem eru á milli mín og hv. síðasta ræðumanns í þessu máli.