03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2275 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

163. mál, fóstureyðingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Aðeins eitt orð í tilefni af því sem hv. 11. þm. Reykv. sagði.

Þm. sagði að hann hefði ekki sagt að fóstureyðingar hefðu ekki aukist. Ég skrifaði þetta orðrétt niður. En ég tek gilt og það kom fram í minni ræðu að hv. 11. þm. Reykv. átti við að þarna þyrfti að hafa í huga ólöglegar fóstureyðingar og svo fóstureyðingar sem færu fram erlendis.

Í minni ræðu kom ég með eitt dæmi um hvaða þýðingu það hefði að reikna með því sem gerst hefði með því að íslenskar konur hefðu látið framkvæma fóstureyðingar erlendis. Það er mín skoðun að það dæmi gefi sanna vísbendingu um að ólöglegar fóstureyðingar og fóstureyðingar erlendis skekki ekki stórkostlega þá mynd sem skýrslur draga upp af tíðni fóstureyðinga. Þess vegna séu það áreiðanlegar upplýsingar í sjálfu sér sem við flm. höfum byggt á og þær einu upplýsingar sem hægt er að byggja á.