03.02.1986
Efri deild: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2279 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

164. mál, almannatryggingar

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Hæstv. forseti. Það var spurt um hver væru tengsl þessa frv. og frv. um fóstureyðingar sem við sömu flm. flytjum og rætt hefur verið hér í dag. Og það var spurt um það: Þarf að samþykkja þau bæði eða fella þau bæði?

Frv. eru nátengd í hugum okkar flm. Og við höfum litið svo á að það væri ein af forsendunum - og misjafnlega sterkar forsendur eftir því hvaða þm. á í hlut - fyrir því að samþykkja frv. um breytingar á fóstureyðingarlögunum að hitt frv. sé samþykkt líka. Ég á raunar ekki von á að frv. um breytingar á lögunum um fóstureyðingar verði samþykkt nema þetta frv. verði samþykkt líka eða jafngildi þess eða eitthvað í þá átt.

Hvað á að gera ef frv. um fóstureyðingar er fellt? Er þá sjálfgefið að fella það frv. sem við hér ræðum? Mín skoðun er sú að það frv. sem við hér ræðum hafi sjálfstæða þýðingu og það sé þess vert og eðlilegt að samþykkja það jafnvel þó að hitt frv. sé fellt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða þetta frekar. En mér finnst ástæðulaust að gera lítið úr því frv. sem hér um ræðir, ástæðulaust að vera að tala um þær fáu krónur o.s.frv. Þetta frv. er veruleg réttarbót. T.d. hækka mæðralaun um 50%. Í sambandi við mæðralaunin skulum við hafa í huga að þau hafa verið að hækka á undanförnum árum. Frá árinu 1982 hafa þau hækkað, mæðralaunin með einu barni, um 1074%. Fleiri hliðstæður, þó það séu nú ekki skerandi tölur, væri hægt að nefna. Ég bið hv. þm. að gera ekki lítið úr þessari réttarbót og þessum stuðningi við einstæðar mæður og líka mæður í hjúskap og í sambúð sem hér er gert ráð fyrir að geti notið góðs samkvæmt þessu frv. Það undirstrikar það, sem ég sagði raunar áður, að frv. þetta er þess eðlis að það hefur sjálfstæða þýðingu og kemur að gagni þó hitt frv. sé ekki samþykkt.

En í mínum huga er það aðalatriðið að samþykkja frv. sem kveður svo á að ekki séu heimilaðar fóstureyðingar af félagslegum ástæðum og þjóðfélagið hætti að víkja sér undan félagslegum vanda með því að fórna mannslífum, hætti að víkja sér undan vandanum, breyti lögunum um fóstureyðingar og það megi verða hvatning til enn þá meiri aðgerða í félagslegum efnum í framtíðinni en frv. sem við nú ræðum gerir ráð fyrir.