03.02.1986
Neðri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2295 í B-deild Alþingistíðinda. (1927)

196. mál, Stjórnarráð Íslands

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál um það frv. sem hér liggur fyrir til umræðu, frv. til laga um Stjórnarráð Íslands, en það er eitt atriði sem ég vildi fyrst og fremst ræða. Það er atriði sem ekki er í þessu frv. , en ég vil gera það að umtalsefni við 1. umr. til þess að hv. allshn. Nd., sem fær þetta mál til meðferðar, geti um það fjallað.

Í Il. kafla þessa frv., 4. gr., er upp talið hvernig Stjórnarráð Íslands greinist í ráðuneyti. Þar er í meginatriðum haldið þeirri ráðuneytaskiptingu sem verið hefur þrátt fyrir að miklar umræður hafi verið í þjóðfélaginu upp á síðkastið um nauðsyn þess að þarna verði gerðar breytingar á. Þar kem ég að því sem ég vildi fyrst og fremst vekja athygli á, en það eru þau mál sem tengjast viðskiptum við önnur lönd. Eins og málum er nú háttað í okkar stjórnkerfi eru þau mál í mörgum ráðuneytum.

Þar skal fyrst telja viðskrn. sem fer að sjálfsögðu með mjög mikilvæga þætti í okkar viðskiptum við útlönd, viðskiptasamninga svo eitthvað sé nefnt.

Utanrrn. fer með vissa þætti í gegnum starfsemi sinna sendiráða og mörgum hefur fundist að sá þáttur í starfsemi utanrrn. mætti vera meiri. Það er gleðiefni að núverandi hæstv. utanrrh. skuli hafa lýst því yfir að hann hafi það að sérstöku áhugamáli að efla viðskiptalega starfsemi sendiráðanna og utanrrn.

Sjútvrn. fer með mikilvæga þætti í þessum efnum, það sem lýtur að fiski og fisksölu, en hefur upp á síðkastið verið að auka sína starfsemi á þessu sviði m.a. með sérstöku starfi sem lýtur að því að flytja íslenska tækniþekkingu í sjávarútvegi út úr landinu og hafði sérstakan starfsmann í því til skamms tíma a.m.k.

Iðnrn. fer með mjög mikilvæga þætti mála sem snerta viðskipti við önnur lönd. Ég nefni t.d. að nýlega hefur undir forustu iðnrn. verið breytt lögum um Orkustofnun þar sem gert er ráð fyrir að sú tækniþekking sem Orkustofnun ræður yfir verði útflutningsvara hjá sérstöku fyrirtæki sem lýtur stjórn Orkustofnunar. Iðnrn. fer með samninga við erlend fyrirtæki varðandi stóriðju og varðandi fjárfestingar í íslenskum iðnaði. Skemmst er að minnast hugmynda sem fyrrv. hæstv. iðnrh. var með þess efnis að á vegum þess ráðuneytis yrðu starfandi sendifulltrúar sem ynnu að því að draga ný fyrirtæki, draga nýjar fjárfestingar í iðnaði til Íslands.

Landbrn. fer einnig með þætti sem snerta viðskipti við önnur lönd og það er ýmiss konar frumkvæði varðandi sölu á landbúnaðarafurðum sem ber þar hæst.

Í alla þessa starfsemi vantar samræmi að mínu mati. Norðmenn hafa nýlega breytt skipulagi hjá sér og ég vil beina því til hv. nefndar að hún kynni sér það sem Norðmenn hafa sérstaklega gert á þessu sviði. Þeir hafa nú, að því er mér hefur verið tjáð, ég hef ekki skrifleg gögn um það í höndum, ákveðið að stofna sérstakt utanríkisviðskiptaráðuneyti sem fari meira og minna með öll þau mál sem tengjast viðskiptum við önnur lönd. Flestar þjóðir halda uppi umfangsmikilli kynningarstarfsemi, bæði til að selja sína vöru og ekki síður til að kynna viðkomandi land sem vettvang fyrir fjárfestingar í nýjum atvinnugreinum eða kynna landið sem vettvang fyrir samvinnu að öðru leyti en að því er beinar fjárfestingar snertir, vettvang fyrir samvinnu um nýjar atvinnugreinar, en slík samvinna getur að sjálfsögðu verið í ýmsu formi, öðru formi en beinum fjárfestingum.

Menn geta deilt um hvort og í hve miklum mæli erlendar fjárfestingar eru æskilegar, en ég hygg að við hljótum þó að geta orðið sammála um að þær séu æskilegar og nauðsynlegar í einhverju magni eigum við að byggja upp tæknivætt atvinnulíf. En sú starfsemi sem að því lýtur er í molum hjá okkur. Það er enginn einn aðili í þjóðfélaginu sem hefur uppi kynningarstarfsemi af þessu tagi, en maður verður mjög var við að sumar þjóðir halda því ötullega á loft. Þar vil ég nefna t.d. Norðmenn sem eru mjög ötulir í því að taka þátt í sýningum þar sem þeir kynna ekki eingöngu sínar vörur heldur landið sem tæknivætt þjóðfélag sem sé góður vettvangur til samvinnu við erlend fyrirtæki eða önnur lönd um hvers konar nýja framleiðslu og nýjar atvinnugreinar. Ég tala nú ekki um Íra og Skota sem vinna mikið starf að þessu leyti.

Þetta er hvergi unnið hjá okkur í dag. Þess vegna held ég að það sé nauðsynlegt að við reynum að fella þessa starfsemi saman í eitt ráðuneyti. Hvort það á heima í utanrrn. og þá efldu utanríkisráðuneyti eða nýju utanríkisviðskiptaráðuneyti skal ég ekki um segja. Ég skal ekkert um það fjalla á þessu stigi. En ég tel að um þetta þurfi hv. þingnefnd að hugsa og afla sér gagna um það hvernig þessu er háttað hjá okkar næstu nágrönnum.