03.02.1986
Neðri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1928)

196. mál, Stjórnarráð Íslands

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Hv. stjórnarandstæðingar sem hér hafa talað hafa gert lítið úr þeim breytingum sem felast í þessu frv. Ég get út af fyrir sig tekið undir að þær eru minni en ég stefndi að þegar þetta starf hófst. Hins vegar held ég að þeir geri of lítið úr þeim breytingum sem þarna eru, bæði um æviráðningu og ráðherraritara og sömuleiðis um aukið sjálfstæði ráðuneyta í fjárhagsmálum sem þarna er tekið af skarið með.

Rætt hefur verið nokkuð um ráðherraritarana og þykir mönnum sú grein ekki nægilega skýr. Eins og kemur fram í þeirri grein þarf ákvörðun ráðherra til að ráðherraritari fari með daglega stjórn ráðuneytis, en það kemur fram í þeirri grein að ráðherra getur ákveðið þann hátt. Ég held að hinu verði alls ekki á móti mælt að staða aðstoðarmanna ráðherra í dag er ákaflega óljós og hefur hvað eftir annað reyndar verið vefengd af ýmsum mönnum í ráðuneytinu. T.d. er ekki á það fallist af ýmsum að aðstoðarmaður ráðherra skrifi undir bréf með starfsmanni í ráðuneytunum. Þetta hefur nánast verið samkomulagsatriði innan ráðuneytis. Ég vil taka það fram að í mínu ráðuneyti er það samkomulag. Minn aðstoðarmaður gerir þetta ásamt öðrum starfsmönnum í ráðuneytinu og er það ekki vefengt. En það er hvergi til lagabókstafur um það. Ég held því að menn ættu að skoða þetta í því ljósi hvernig ástatt er núna.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson fann að því að ekki er sérstakt umhverfismálaráðuneyti eða því a.m.k. skipaður staður í öðru ráðuneyti. Í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar var ákveðið að umhverfismál yrðu innan félmrn. og þeirri ákvörðun hefur ekki verið breytt. Ég get vel fallist á að ráðuneytið nefnist félagsog umhverfismálaráðuneyti. Ég hef gert ráð fyrir því að í þeirri reglugerð sem fylgir setningu þessara laga verði tekið af skarið með það hvað teljist til umhverfismála. En því er ekki að neita að hvorki í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar né í þeim ríkisstjórnum sem síðast hafa setið, m.a. ekki í þeirri ríkisstjórn sem við 5. þm. Austurl. sátum saman í, tókst, því miður, að skipa saman þeim málum sem eiga að falla undir umhverfismál. Við vitum allir að í núv. ríkisstj. er búið að gera til þess töluverðar tilraunir og er enn verið að vinna að frv. þar sem ætlunin er að taka af skarið og ákveða hvað á að fara með umhverfismálum undir félmrn. og hvað ekki. Í þessu hafa setið ýmsar nefndir hinna færustu manna, en því miður ekki náðst samstaða.

Hv. þm. finna að því að ekki skuli vera ákveðin endurskipulagning ráðuneyta. Ég lýsti áðan hugmynd sem ég hef verið hlynntastur í því sambandi og reyndar finnst mér hún að ýmsu leyti vera svipuð og það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og ég held einnig sá sem á eftir honum talaði, hv. þm. Jón Baldvin Hannibalsson, lýstu hér.

Spurt var að því hvaða aðrar tillögur hefðu komið fram. Það komu ekki fram aðrar tillögur frá ráðherrum í ríkisstj. um þessa breytingu. Nefndin hreyfði hins vegar ýmsum hugmyndum sem ég hygg að hv. þm. hafi einhverjar séð.

Í þessu sambandi tel ég einna mikilvægast að sameina utanríkisviðskiptin og utanrrn. Ég fagna því sem síðasti hv. ræðumaður sagði um það. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu og tel eðlilegt að allshn. taki slíka hugmynd og skoði hana og athugi hvort hún gæti orðið að lögum.

Mín niðurstaða er sú að skipan ráðuneyta verði að takast upp í stjórnarsáttmála þegar ríkisstjórn er mynduð. Þá eru hægust heimatökin að ákveða breytta skipun ráðuneyta. Vitanlega mætti gera það með því fororði að ekki komi til framkvæmda fyrr en ný ríkisstjórn er mynduð. Þeirri hugmynd hefur stundum verið hreyft.

Ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að einlæg von mín er að hv. þm. í allshn. taki þetta mál til málefnalegrar skoðunar. Að sjálfsögðu verður þar, eins og ég heyri, hreyft ýmsum fleiri breytingum. Vel má vera að þær hljóti meirihlutafylgi.