28.10.1985
Neðri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 242 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Frv. þetta til sveitarstjórnarlaga horfir til nokkurra bóta á ýmsa lund frá gildandi lögum. Hins vegar er það mitt mat að það sé hvergi nærri nógu róttækt. Þau skref sem stigin eru eru of fá og smá, en þó í rétta átt slík sem þau eru. M.ö.o.: frv. er helst til framsóknarlegt fyrir minn smekk.

Þetta var upphaflega samið af nefnd undir formennsku Steingríms Gauts Kristjánssonar borgardómara. Þm. fengu tillögur milliþinganefndarinnar í hendur haustið 1984 og hafa þess vegna út af fyrir sig haft góðan tíma til að mynda sér skoðun á því og taka afstöðu til þess. Að því leyti er ekki undan að kvarta málsmeðferðinni.

Í frv. virðist að mestu fylgt tillögum nefndarinnar. Þó hefur ráðherra gert þar á nokkrar breytingar sem mér þykja ekki til bóta. Ég er t.d. algerlega andvígur því að lágmarksíbúatala sveitarfélaga skv. 5. gr. sé lækkuð úr 100 íbúum í 50. Lágmarkið hefði átt að vera mun hærra, undir engum kringumstæðum lægra en 200, og jafnframt ætti að lögbjóða hækkun lágmarkstölunnar mun fyrr. Sveitarfélag með færri íbúa en 200 getur ekki mannað þau störf sem nútíminn krefst af sveitarfélögum og fámenni sveitarfélaga kemur byggðinni í vítahring. Vegna fámennis getur sveitarfélag ekki veitt þá þjónustu og samfélagslegan styrk sem íbúarnir gera kröfu til og vænta. Þeir flytja því brott og vangeta sveitarfélagsins verður við það enn þá meiri. Það verður að styrkja sveitarfélögin með sameiningu í stærri og styrkari heildir. Lágmarksíbúatala sveitarfélaga í fyrsta áfanga ætti undir engum kringumstæðum að vera lægri en 200. Ráðherra hefur við framlagningu frv. látið undan sjónarmiðum sem því miður er ekki hægt að viðurkenna lengur og styðjast ekki við gild rök. Í raun og veru ætti að stíga þarna stærri skref, stækka sveitarfélögin meir og hraða því að þær breytingar eigi sér stað í áföngum ef ekki getur orðið samkomulag um að stíga stærri skref í einu.

Varðandi 19. gr. vil ég fella út 2. mgr., enda tel ég óeðlilegt að menn geti átt kosningarrétt á tveimur stöðum samtímis og gildir þar einu hvort menn flytja á milli Grundarfjarðar og Grindavíkur eða á milli Grundarfjarðar og Gautaborgar. Ég er þeirrar skoðunar að fólk sem getur átt kosningarrétt í Gautaborg eigi ekki jafnframt að eiga kosningarrétt í sveitarstjórnarkosningum í Grundarfirði.

Lækkun kosningaraldurs í 18 ár hefur lengi verið baráttumál míns flokks og ber að fagna því að nú er samstaða fengin um það mál að því er virðist.

Ráðherra hefur gert talsverðar breytingar á héraðaskipan frá tillögum endurskoðunarnefndar. Öflug héraðastjórn er nauðsynlegur hlekkur í þeim endurbótum á stjórnkerfi okkar sem gera verður meðan sveitarfélögin eru svo fámenn sem raun ber vitni. Aukið vald og verkefni til héraðanna getur m.a. orðið til þess að menn sætti sig betur við jöfnuð í kosningarrétti til Alþingis þótt frv. geri í sjálfu sér ekki ráð fyrir að héruðin hafi mörg verkefni. Þó á það vafalaust eftir að breytast og það fyrr en menn varir. Bæði er þar um að ræða ný verkefni, sem samfélagið tekur við, og eins verkefni sem flytja þarf frá stjórnsýslu ríkisins og til héraðanna. Þess vegna verða héruðin að hafa stjórnarfarslegan styrk til þess að standa undir nýjum verkefnum. Það kallar aftur á móti á endurskoðun á gildandi lögum um tekjuöflun ríkissjóðs og verkaskiptingu þessara aðila.

Það má endalaust um það deila hvað sé eðlileg héraðaskipan, en tillögur endurskoðunarnefndarinnar miðuðust við sameiningu sýslufélaga og lögsagnarumdæma kaupstaðanna og jafnframt við mörk kjördæmanna nema hér á höfuðborgarsvæðinu. Í þessu frv, er enn byggt á þessu, en héruðunum hins vegar fjölgað í 18. Með því móti verða sum héraðanna of fámenn. Því tel ég rétt að þeim verði fækkað í a.m.k. tólf þannig að íbúafjöldi þeirra gefi þeim nægan styrk til átaka. Þessu má ná t.d. með því að sameina Snæfellsness- og Dalahéruð eins og þau eru skilgreind í frv. í Breiðafjarðarhérað. Barðastrandar-, Vestfjarða- og Strandahéruð verði sameinuð í Vestjarðahérað, Norður- og Suður-Múlahéruð verði sameinuð í Múla- eða Austfjarðahérað, Austur- og Vestur-Skaftafellshéruð verði sameinuð í eitt og Rangárvalla- og Árneshéruð verði sameinuð í Suðurlandshérað. Þá felli ég mig betur við viðskeytið -þing eins og endurskoðunarnefndin lagði til en viðskeytið -hérað.

Við 99. og 100. gr. mun ég gera þá brtt. að fulltrúafjöldi í héraðsnefnd eða á héraðsþingi verði á bilinu 9-27 eftir íbúafjölda og, og það er meginatriðið, að kosið verði beinni kosningu til héraðaþinga í september það ár sem kosið er til sveitarstjórna.

Tillaga 99. gr. frv. um að sveitarstjórnir kjósi til héraðanefnda er andstæð öllu lýðræði og gengur ekki í framkvæmd. Íbúar Sauðárkróks, svo að ég nefni þá sem dæmi, ættu skv. þessu að hafa einn fulltrúa í héraðsnefnd og íbúar fámennasta hrepps í Skagafirði að hafa sama rétt. Þá yrði hin óbeina kosning til héraðsnefndanna til þess að þeim réði meiri hluti meiri hlutanna í héraðinu, en minni hlutar fulltrúa í sveitarstjórnum yrðu útilokaðir frá áhrifum. Það er augljóst mál að þessi annmarki, sem m.a. hefur komið fram í kosningum til fjórðungsþinga, er svo alvarlegur að við hann verður ekki unað. Hann gengur algerlega í berhögg við grundvallarsjónarmið lýðræðis í landinu.

Þá gengur regla frv. ekki upp hér á höfuðborgarsvæðinu þar eð borgarstjórn Reykjavíkur mun ekki hafa nægum fulltrúum á að skipa á næsta kjörtímabili til að manna sæti sín í héraðsnefnd eins og þar er gert ráð fyrir.

Það er að vísu nokkur ókostur við beina kosningu til héraðsnefnda eða þinga að hætt er við að samband einstakra sveitarstjórna og héraðsstjórnar verði hugsanlega minna, en væntanlega mundu í mörgum tilvikum sömu menn vera í kjöri til héraðsstjórna og sveitarstjórna einfaldlega vegna fámennis. Bein kosning til héraðsnefnda kallar á breytingu á III. kafla frv.

Að vísu má kannske sætta sig við að hafa 103. gr. eins og þarna er ráð fyrir gert um skamman tíma, en framtíðarskipunin hlýtur að vera sú að héraðsnefndirnar fái sérstaka tekjustofna um leið og það hefur nánar verið skilgreint og menn hafa komið sér saman um stefnu um tilfærslu verkefna frá miðstjórnarvaldi ríkisins til héraðanna og nýja skiptingu tekjustofna, skattstofna, af því tilefni og í samræmi við það.

Nokkra minni háttar hnökra má finna á frv. sem ekki er ástæða til þess að tíunda hér við 1. umr. en fá væntanlega betri umfjöllun í meðferð þingnefndar.

Þrátt fyrir veigamikla galla er engu að síður margt í þessu frv. til bóta og þess vegna hvet ég til þess að það hljóti afgreiðslu í tæka tíð svo að ný sveitarstjórnarlög geti komið til framkvæmda við upphaf næsta kjörtímabils sveitarstjórna á næsta ári. Á hitt ber að leggja áherslu að þegar ný sveitarstjórnarlög hafa verið sett þarf að stokka upp stjórnsýslu ríkisins þannig að héraðaskipting hennar og verksvið umboðsmanna ríkisvaldsins verði tekin til endurskoðunar. Þar þarf að aðskilja umboðsstörf og dómarastörf og jafnframt þarf að flytja talsvert af úrskurðarvaldi ráðuneyta og meira af löggjafarframkvæmd ríkisins út í héruðin.