04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2301 í B-deild Alþingistíðinda. (1932)

183. mál, eiginfjárstaða ríkisbankanna

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Á þskj. 215 er beint til mín fsp. í fjórum liðum um útlán og eiginfjárstöðu ríkisviðskiptabankanna. Ráðuneytið hefur aflað upplýsinga frá bankaeftirliti Seðlabankans vegna fsp. og er byggt á þeim upplýsingum þegar einstökum liðum er svarað.

Hjá bankaeftirliti Seðlabanka Íslands liggja ekki fyrir upplýsingar um heildarfyrirgreiðslu einstakra ríkisviðskiptabanka til stærstu lántakenda þeirra í árslok 1983 og 1984 né heldur upplýsingar um greiðslu tryggingar vegna þeirrar fyrirgreiðslu. Ekki er heldur unnt að upplýsa stöðu mála að þessu leyti hjá ríkisviðskiptabönkunum miðað við 1. des. 1985. Á hinn bóginn fór fram á árinu athugun á vegum bankaeftirlitsins á stærstu lánþegum Útvegsbanka Íslands miðað við stöðu lána 30. júní 1985 og jafnframt stendur yfir athugun á stærstu lánþegum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands miðað við stöðu lána 30. nóvember sama ár. Þessum lið fsp. er því unnt að svara miðað við þær dagsetningar sem að framan eru greindar. Jafnframt skal tekið fram að miðað er við bókfært eigið fé 31. des. 1984, framreiknað til verðlags 30. júní 1985 hjá Útvegsbanka og til verðlags 30. nóv. 1985 hjá Landsbanka og Búnaðarbanka. Eigið fé Landsbanka hefur þó verið leiðrétt til samræmis við sambærilegan uppgjörsmáta á fasteignum eins og tíðkað er hjá öðrum bönkum.

Miðað við þessar forsendur er hlutfall heildarfyrirgreiðslu af eigin fé ríkisviðskiptabankanna til fimm stærstu lántakenda hvers banka sem hér segir:

1. Landsbankinn 83,6%, Búnaðarbanki 56,8%, Útvegsbanki 145%.

2. Landsbanki 65,4%, Búnaðarbanki 37%, Útvegsbanki 130,6%.

3. Landsbanki 65,1%, Búnaðarbanki 35%, Útvegsbanki 40,5%.

4. Landsbanki 56,1%, Búnaðarbanki 31,7%, Útvegsbanki 39,8%.

5. Landsbanki 33,8%, Búnaðarbanki 22,7%, Útvegsbanki 36,6%.

Svar við 2. tölul.: Þar sem um fjárhagslega tengda aðila er að ræða eru þeir teknir sem einn aðili í því svari sem ég hef þegar gefið.

Svar við 3. tölul.: Að því er varðar Landsbankann og Búnaðarbankann er ekki unnt að svara þessum lið fyrr en í lok þessa mánaðar, en þá mun væntanlega verða lokið athugun bankaeftirlitsins á stöðu stærstu lántakenda í þessum tveimur bönkum. Sú athugun er miðuð við stöðu lána 30. nóv. 1985 eins og áður segir. Á hinn bóginn er það alkunna að fullnægjandi tryggingar hafa ekki verið teknar hjá Útvegsbankanum. Það mál er nú í höndum sérstakrar nefndar sem Hæstiréttur hefur tilnefnt og niðurstöður nefndarinnar verða kynntar hér á Alþingi þegar þær liggja fyrir.

Svar við 4. og síðasta tölul.: Samkvæmt reikningum ríkisviðskiptabankanna var eigið fé þeirra sem hlutfall af niðurstöðutölu efnahagsreiknings svo sem hér segir í árslok 1983 og 1984:

Landsbankinn: 5,7% 1983, 5,4% 1984, Búnaðarbankinn: 9% 1983, 8,2% 1984, Útvegsbankinn: 6,6% 1983, 5,2% 1984.

Upplýsingar um eiginfjárstöðu 1. des. 1985 liggja ekki fyrir, en innan skamms munu liggja fyrir tölur um stöðuna í árslok 1985. Þegar gengið hefur verið frá reikningum bankanna munu þær upplýsingar koma frá bankaeftirlitinu.