04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

221. mál, gallar í varanlegri fjárfestingarvöru

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Viðskrn. sendi fjh.- og viðskn. bréf, dags. 20. nóv. 1985, þar sem greint er frá niðurstöðum Arnljóts Björnssonar prófessors varðandi breytingu á kaupalögum í þá átt að tryggja betur rétt neytenda vegna svika eða galla í varanlegri fjárfestingarvöru. Þar er greint frá afstöðu ráðuneytisins og óskað eftir svörum frá þingnefndinni um það hvort hún geti sætt sig við vinnubrögð ráðuneytisins. Engin slík svör hafa borist og hefur þess vegna verið litið svo á að nefndin sætti sig við vinnubrögðin. Skal ég nú lesa upp bréfið sem ráðuneytið sendi fjh.- og viðskn. Nd.:

„Ráðuneytið vísar til bréfs frá Alþingi, dags. 14. maí 1985, þar sem tilkynnt er að frv. til l. um breyting á 54. gr. laga nr. 39/1922, um lausafjárkaup, hafi verið vísað til ríkisstj. samkvæmt tillögu í nál. frá fjh.- og viðskn. Nd. Alþingis. Í álitinu segir að nefndin telji að ríkisstj. eigi að láta vinna annað frv. sem hafi að geyma breytingar á 54. gr. laga nr. 39/1922 og leggja það fyrir næsta löggjafarþing.

Að fengnu bréfi Alþingis ákvað ráðuneytið að fara þess á leit við Arnljót Björnsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, að hann tæki saman álitsgerð um nauðsyn breytinga á umræddri lagagrein. Arnljótur varð við beiðninni og skilaði ráðuneytinu álitsgerð, dags. 19. sept. 1985, sem fylgir bréfi þessu í 10 eintökum.

Í álitsgerðinni mælir Arnljótur gegn breytingum á 54. gr. laga nr. 39/1922 í þá átt sem fyrrgreint frv. gerði ráð fyrir. Jafnframt lýsir hann þeirri skoðun sinni að þar sem nú hilli undir gagngera endurskoðun laga nr. 39 1922 sé ekki ástæða til að breyta 54. gr. einni til samræmis við tillögur norrænu kaupalaganefndarinnar. Þá bendir Arnljótur á að hæstaréttardómur 1983, 1469, sem var tilefni þess að umrætt frv. var flutt á síðasta löggjafarþingi, hafi takmarkað fordæmisgildi og segi ekkert um hvort kaupandi hefði getað krafist bóta á grundvelli almennra skaðabótareglna utan samninga.

Að lokinni athugun á álitsgerð Arnljóts og með vísun til þess sem að framan greinir er það tillaga ráðuneytisins að endurskoðun á 54. gr. haldist í hendur við heildarendurskoðun laga nr. 39/1922. Norræna kaupalaganefndin, sem vísað er til í álitsgerðinni, hefur nýlega skilað af sér tillögum að nýjum norrænum lögum um lausafjárkaup. Tillögur nefndarinnar, sem eru afrakstur margra ára undirbúningsvinnu, hafa verið sendar til umsagnar hagsmunaaðilum á hinum Norðurlöndunum. Að fengnum þeim umsögnum er ætlunin að ganga endanlega frá lagafrumvörpunum. Viðskrn. hefur fylgst með þessari vinnu frá miðju ári 1982 en ekki gerst beinn þátttakandi. Það er hins vegar stefna ráðuneytisins að hefja heildarendurskoðun laga nr. 39/1922 þegar ljóst er orðið að umrædd lagafrumvörp verða lögð fyrir þjóðþing hinna Norðurlandanna. Þess er að vænta að þau mál skýrist þegar líða tekur á veturinn.

Fallist fjh.- og viðskn. ekki á þessa tillögu um meðferð málsins er ráðuneytið reiðubúið til að undirbúa frv. til breytinga á 54. gr. þar sem fylgt yrði tillögu Arnljóts Björnssonar um breytt orðalag greinarinnar.

Þá vill ráðuneytið upplýsa að dómsmrn. hefur verið send álitsgerðin en Arnljótur vekur þar m.a. athygli á nauðsyn breytinga eða endurskoðunar á reglum fyrningarlaga frá 1905.

Ráðuneytið væntir svara frá yður við fyrsta hentugt tækifæri.“

Það svar hefur ekki borist frá virðulegri fjh.- og viðskn. hv. deildar.