04.02.1986
Sameinað þing: 40. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2305 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

221. mál, gallar í varanlegri fjárfestingarvöru

Svavar Gestsson:

Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þessi svör sem er mjög æskilegt að komi hér til meðferðar og umræðu fyrir þingheimi öllum. Það er ljóst að viðskrn. telur ekki á þessu stigi málsins ástæðu til að taka þetta ákvæði kaupalaganna út úr heldur vill bíða heildarendurskoðunar laganna um lausafjárkaup en er tilbúið til þess að taka þetta atriði út úr ef nefndin telur þá niðurstöðu ekki fullnægjandi.

Formaður fjh.- og viðskn. er hér í salnum og hefur ekki tekið þetta mál fyrir á fundum nefndarinnar, en ég geri ráð fyrir að hann sé tilbúinn til þess þegar í stað þegar nefndin kemur saman á ný. (Gripið fram í: Það er fundur í fyrramálið.) Auk þess hefur hann boðað fund í fyrramálið, vafalaust af þessu sérstaka tilefni, og ég vænti þess þá að nefndin komist að niðurstöðu sem ég geri ráð fyrir að verði sú sama og í vor, þ.e. sú niðurstaða að nauðsynlegt sé að þetta sérstaka ákvæði kaupalaganna sé tekið út úr vegna þess að fólk býr við óþolandi réttleysi að því er varðar skemmdir á steinsteypu, sem menn þekkja m.a. af blaðafregnum að undanförnu, bæði á húsum og jafnvel á mannvirkjum eins og t.d. Höfðabakkabrúnni sem hefur nokkuð verið rætt um að undanförnu. Ég tel að hér sé um stórmál á ferðinni og þess sé ekki neinn kostur að bíða eftir heildarendurskoðun kaupalaganna. Þar er um að ræða viðamikil mál og tekur vafalaust fleiri en eitt þing að ná niðurstöðu í því, eins snúið og það er að endurskoða kaupalögin í heild, og ég tala nú ekki um að samræma kaupalög Norðurlandanna allra eins og ætlunin mun að gera og ekki er óeðlilegt.

Ég endurtek þakkir mínar til hæstv. viðskrh. fyrir svörin og sömuleiðis snaggaraleg viðbrögð formanns fjh.- og viðskn. Nd. sem hefur ákveðið að boða fund í nefndinni, þann fyrsta eftir áramót, vafalaust í tilefni af þessum orðum hæstv. viðskrh., og mun ugglaust beita sér fyrir því að nefndin komist að sömu niðurstöðu og hún komst að í vor í þessu stóra máli.