04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2327 í B-deild Alþingistíðinda. (1955)

Leiga á flugvél Landhelgisgæslunnar

Árni Johnsen:

Herra forseti. Ég tel mjög varhugavert að leigja Fokker Landhelgisgæslunnar nema mjög takmarkað og mun takmarkaðra en komið hefur fram í máli hæstv. ráðh. sem taldi að Fokkerinn gæti náð áætluðum flugtíma. Ekki er hægt að skipuleggja fyrir fram að mínu mati hvað er æskilegur flugtími í slíkum tilvikum. Þarna er um neyðartæki að ræða m.a.

Ákvæði um not á flugvél, að grípa til vélar sem hefur verið leigð, ganga ekki upp í því sem fyrirhugað er í þessu sambandi vegna þess að áætlað er að nota þessa vél, ef hún verður leigð, til flugs milli Færeyja og Skotlands og þá er hún ekki til taks ef á þarf að halda eða þegar slík staða getur komið upp hérlendis.

Í fyrsta lagi getur Landhelgisgæsluvélin haft radíósamband við skip og er eina vélin hérlendis sem getur það. Hún er þess vegna bæði mjög mikilvæg sem stjórnstöð úr lofti og leitartæki. Slík tæki, sem geta haft samband við skip, eru í millilandavélum, en í engri vél staðsettri hérlendis nema gæsluvélinni.

Fokkerinn getur miðað út gúmbjörgunarbáta á tíðninni 121,5 neyðarbylgju. Slíkt er einnig í vél flugmálastjórnar, en ekki í öðrum vélum hérlendis.

Fokkerinn vantar miðunarloftnet á hlustun á örbylgju, en hluti af þeim búnaði er kominn um borð og er áætlað að ljúka uppsetningu á því fyrir næstu skoðun á þessu ári. Jafnframt er reiknað með að miðunartæki fyrir skip verði sett upp fyrir næstu skoðun í haust.

Gæslufokkerinn hefur tíu tíma flugþol á móti fimm tíma flugþoli hjá hinum venjulegu Flugleiðafokkerum. Það má nefna t.d. að þegar færeyska skipið Rona fórst fyrir ekki alllöngu 80-100 mílur suðaustur af landinu fundust bátar um kl. 3 og Fokker Landhelgisgæslunnar gat flogið þar yfir í liðlega tvo tíma þar til togari kom á staðinn og bjargaði mönnum. Það skiptir því miklu máli að vél með slíkt flugþol geti verið til staðar í landi.

Ég kem að þeim atriðum síðar í mínu máli, en vil þó bæta við í þessu sambandi að gæslufokkerinn hefur mun meiri burðargetu en aðrar hefðbundnar leitarvélar hér á landi. M.a. er hægt að varpa gúmbjörgunarbátum og öðrum björgunarbúnaði út um þar til gerðar dyr aftast á vélinni.