04.02.1986
Sameinað þing: 41. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

Leiga á flugvél Landhelgisgæslunnar

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tek undir með hv. málshefjanda og spyr hæstv. ráðh. hvort það sé virkilega svo að beinlínis sé ætlunin að þessi tiltekna flugvél þjóni því nýja áætlunarflugi sem Flugleiðir hyggjast taka upp um Færeyjar og alla leið til Skotlands. Við vitum einnig að Flugleiðir fljúga á Fokkerflugvélum til fleiri landa. Þannig er til að mynda yfir sumarmánuðina flogið á einn ef ekki tvo staði í Grænlandi. Vélar ekki hraðfleygari en Fokker Friendshipvélar eru eru þó nokkra stund á leið þangað og til baka aftur, svo að ekki sé nú talað um frá Skotlandi og heim. Það gefur auga leið að það sem hér hefur verið sagt um möguleikana á því að kalla þessa vél til hvenær sem er, þó hún væri í leiguflugi, hverfur ef þessi tiltekna vél er komin langleiðina til Skotlands eða til Narssaq á Grænlandi full af farþegum og það tekur fleiri, fleiri klukkustundir ef ekki jafnvel dægur að koma vélinni heim. Þá verður lítið úr þeim áformum eða góða ásetningi Flugleiðamanna og annarra sem hafa hugsað sér að hægt væri að kalla vélina til þjónustu hvenær sem er þrátt fyrir að hún væri í leigu.

Ég held að það sé alveg óviðunandi að þessari umræðu verði slitið án þess að það liggi alveg ljóst fyrir hvort fyrirvarar hafa verið settir um þetta atriði.