05.02.1986
Efri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2334 í B-deild Alþingistíðinda. (1969)

180. mál, fæðingarorlof

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég hafði hugsað mér að leita svara við fáeinum spurningum hjá formanni heilbr.- og trn., hv. þm. Davíð Aðalsteinssyni, ella hjá varaformanni nefndarinnar, hæstv. forseta Ed. Nú sé ég að formaður nefndarinnar er ekki í þingsal og að forseti hefur engan varaforseta. (Forseti: Hv. formaður heilbr.- og trn. mun vera í síma í hliðarherbergi. Ef þm. gæti aðeins beðið með fsp. ætti að vera hægt að fá svar við henni.) Ég þakka forseta fyrir. Það get ég auðveldlega gert. (Forseti: Vill þm. hefja mál sitt eða bíða eftir formanni heilbr.- og trn.?) Ég kýs frekar að bíða eftir formanni nefndarinnar, þar sem fsp. mín er í upphafi máls míns, frekar en að slíta mál mitt í sundur á öðrum stað. (Forseti: Það er hægt að koma skilaboðum.) Þar sem hv. þm. er nú genginn í salinn er mér ekki lengur neitt að vanbúnaði að hefja mál mitt.

Virðulegi forseti. Ég freista þess að flytja í þriðja sinn þetta frv. til l. um breytingu á lögum nr. 97 frá 1980, um fæðingarorlof, og breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67 frá 1971, ásamt með síðari breytingum. Ég segi freista þess vegna þess að miðað við reynslu fyrri ára er alls ekki ljóst hvort þetta frv. fær þá þinglegu meðferð sem Alþingi er skylt að veita þeim málum sem þar eru borin fram.

Þm. til upprifjunar vil ég geta þess, að frv. var fyrst flutt á 106. löggjafarþingi og var því þá vísað til heilbr.og trn. þessarar hv. deildar að lokinni 1. umr. þann 8. febrúar, en það fékkst ekki afgreitt úr nefndinni til 2. umr. og atkvæðagreiðslu fyrir þinglausnir 22. maí sama ár. Umsagnir meðmæltar frv. bárust þá m.a. frá Alþýðusambandi Íslands, Samtökum kvenna á vinnumarkaðnum, Stéttarsambandi bænda og Kvenfélagasambandi Íslands. Jafnframt beindi Félag einstæðra foreldra þeirri áskorun til Alþingis að veita frv. þessu framgang en án árangurs.

Frv. var síðan endurflutt á 107. löggjafarþingi og var því þá vísað til heilbr.- og trn. Ed. að lokinni 1. umr. um það 17. desember. En það fór á sama veg og árið áður. Frv. fékkst ekki afgreitt úr nefndinni til 2. umr. og atkvæðagreiðslu fyrir þinglausnir 21. júní s.l. Í þetta skipti sendi nefndin málið hvorki út til umsagnar né sá hún ástæðu til að taka það fyrir oftar en þrisvar á þeim sex mánuðum sem frv. var í vörslu hennar. Ekki dugði það heldur til að hreyfa málinu úr nefndinni að um vorið eða þann 18. apríl s.l. voru nefndinni afhentar 4200 undirskriftir frv. til stuðnings og áskorun um að afgreiða það hið snarasta úr nefndinni. Allt kom fyrir ekki.

Í ljósi þessa vil ég strax í upphafi máls míns nú beina þeirri spurningu til formanns heilbr.- og trn. Ed., hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar, á hvern veg hann hafi hugsað sér að standa að afgreiðslu þessa frv. nú. Má vænta þess að nefndin skili frv. í einhverri mynd aftur til þessarar hv. deildar til 2. umr. og atkvæðagreiðslu, eins og nefndinni er reyndar skylt skv. þingsköpum, eða má búast við því að enn á ný verði frv. stungið svefnþorni í möppum nefndarmanna? Við þessu vil ég fá skýr svör á eftir, virðulegi forseti, finnst enda heldur tilgangslítið ella að mæla fyrir þessu frv. fyrir daufum eyrum ár eftir ár.

Eins og fram kemur í grg. með frv. er megintilgangur þess að koma til móts við breyttar þjóðfélagsaðstæður hér á landi og tryggja velferð barna og foreldra þeirra tímabilið á eftir fæðingu barns. Eins og hv. þdm. vita hefur íslenskt þjóðfélag tekið miklum stakkaskiptum á undanförnum árum. Þær breytingar hafa m.a. orðið á högum fólks hér á landi að það er nú fjárhagsleg nauðsyn fyrir fjölmörg heimili í landinu að hafa tvær fyrirvinnur. Á þetta ekki síst og reyndar einna helst við um þá aldurshópa sem nú eru að koma sér upp húsnæði í fyrsta sinn, hasla sér völl í atvinnulífinu og að eignast börn.

Nauðsyn þess að hvert heimili hafi tvær fyrirvinnur sést m.a. á þeirri gífurlegu aukningu sem orðið hefur á atvinnuþátttöku kvenna undanfarin ár. Árið 1960 unnu 29% kvenna utan heimilis, en nú er áætlað að um 80% kvenna séu útivinnandi. Það gefur auga leið að við slíkar aðstæður gefst konum lítið svigrúm til að sinna nauðsynlegri umönnun ungabarna. Heimilin bera það ekki fjárhagslega að önnur fyrirvinnan láti af launuðum störfum utan heimilis til þess að helga sig því mikilvæga hlutverki að annast um barn á fyrsta æviskeiði þess. Enn fremur fer þeim heimilum sífellt fjölgandi þar sem fyrirvinnan er aðeins ein, en nú mun um áttunda hvert barn á landinu vera á framfæri einstæðrar móður. Það ber því brýna nauðsyn til að við skipan fæðingarorlofsmála sé komið til móts við þessar breyttu þjóðfélagsaðstæður og fólki gert það fjárhagslega kleift að eignast börn. Það verður hins vegar ekki gert nema með því að samhæfa hin mismunandi og félagslega nauðsynlegu hlutverk kvenna, móður- og fjölskylduhlutverk þeirra annars vegar og nauðsynlega og sjálfsagða þátttöku þeirra í atvinnulífinu hins vegar. Auk þessa meginmarkmiðs er með frv. ítrekað mikilvægi barnaumönnunar og móður- og föðurhlutverksins fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga og fyrir samfélagið í heild.

Breytingar frá núgildandi lögum samkvæmt þessu frv. eru þær að í fyrsta lagi er í frv. gert ráð fyrir lengingu fæðingarorlofs úr þremur mánuðum í sex mánuði fyrir allar konur. Greiðsla fæðingarorlofs tryggir móður næði og öryggi til samskipta við barn sitt eftir fæðingu þess. Þó að sex mánaða gamalt barn sé enn háð uppalanda sínum og sé hvergi nærri sjálfbjarga er það þó mun þroskaðra til að takast á við umhverfið en þriggja mánaða gamalt barn. Jafnframt er móðurinni gefið tækifæri til að ná sér eftir áreynslu barnsburðarins og aðlagast þeirri gerbreytingu sem hann veldur á högum hennar.

Fjölmargar rannsóknir hafa leitt í ljós hve mikilvægt það er fyrir velferð og þroska barns að náið og traust samband myndist milli þess og móður þess eða nánasta uppalanda þegar á fyrsta æviskeiði. Gildi móðurmjólkur fyrir ungabörn er einnig ótvírætt, bæði til næringar og til verndar gegn sýkingum. Þó að allt sé betra en ekkert í þeim efnum hefur löngum verið miðað við a.m.k. sex mánuði sem æskilegan lágmarkstíma brjóstagjafar, en eftir þann tíma fer ónæmiskerfi barnsins að geta annað eigin vörnum. Jafnframt er brjóstagjöf mjög virk til að mynda sterk tilfinningatengsl milli móður og barns.

Heilsa og heilbrigði barns fyrstu mánuði lífsins byggist framar öðru á móður þess, heilsu hennar, næringarástandi og félagslegum aðstæðum hennar. Heilsusamlegt gildi móðurmjólkur fyrir ungabörn er ótvírætt og benda allar rannsóknir til þess að geti barn notið móðurmjólkurinnar fyrstu ævimánuðina verður það ekki einungis hraustara fyrsta aldursárið heldur eflist einnig mótstaða þess og ónæmi gegn ýmsum sjúkdómum síðar á lífsleiðinni. Efnasamsetning brjóstamjólkur stuðlar að hæfilegum og eðlilegum vexti barns, sér því fyrir vítamínum og steinefnum í nákvæmlega því magni sem það getur nýtt sér og þarf á að halda og mótefni hennar veita vörn gegn sjúkdómum og draga úr hættu á ofnæmi hvers konar. Auk þess mun brjóstagjöf einnig draga úr tannskemmdum barna, eyrnabólgum, maga- og þarmasýkingum og einnig minnka hættu á brjóstakrabbameini hjá konum. Brjóstagjöf er því í rauninni frumheilsugæsla og fyrir utan mannlegan ávinning þess að heilbrigði manna, andlegt og líkamlegt, sé gott má ljóst vera að þessi heilsugæsla sparar sameiginlegum sjóðum landsmanna ófáar krónurnar sé til lengri tíma litið. Sá kostnaður sem lenging fæðingarorlofs hefur í för með sér skilar sér því tvímælalaust aftur í beinhörðum peningum.

En brjóstagjöf verður ekki afgreidd með því einu að tala um efnasamsetningu móðurmjólkur eða sparnað í heilbrigðiskerfinu. Hún er flóknara mál en svo. Brjóstagjöf byggist framar öðru á tilfinningatengslum móður og barns. Hafi móðir ekki næði til þess að sinna barni sínu eftir fæðingu þess er viðbúið að hún missi mjólkina og geti ekki haft barnið á brjósti. Nú til dags er öllum fæðandi konum tjáð að æskilegt sé að hafa barn á brjósti í a.m.k. sex mánuði og ófáar eru þær konurnar sem gengið hafa fullar af sektarkennd út á vinnumarkaðinn þremur mánuðum eftir fæðingu barns og ekki átt annarra kosta völ. Með fullri vinnu utan heimilis getur kona ekki búist við að geta haft barn sitt á brjósti og tvískinnungur þess samfélags sem segir henni að hafa barnið á brjósti í sex mánuði en sendir hana út á vinnumarkaðinn eftir þrjá mánuði er forkastanlegur.

Þessi tvískinnungur er því miður ekki óalgengur af hendi löggjafans. Heimilið og fjölskyldan, börnin og móðurástin, allt er þetta dásamað og í heiðri haft í orði en sjaldnar á borði, því miður. Til þess að sinna börnum, ekki bara hvað brjóstagjöf varðar heldur almennt, og rækta þann garð sem heimilið er og þarf að vera þarf tíma, og sá tími er ekki fyrir hendi á mörgum heimilum vegna þeirrar vinnuskyldu sem þjóðfélagið leggur svo mörgum foreldrum á herðar. Þessu verðum við að breyta og það er ábyrgðarhlutur okkar sem hér sitjum á hæstv. Alþingi að gera það. Lenging fæðingarorlofs, sem ég er hér að mæla fyrir, er aðeins einn þáttur slíkra breytinga.

Lengra fæðingarorlof gefur foreldrum betri tíma til að annast um börn sín á fyrstu og viðkvæmustu mánuðum á ævi barnanna. Það gefur færi á að þau tilfinningatengsl sem samskipti foreldra og barna byggja á til frambúðar geti myndast og það gerir konum raunverulega kleift að hafa börn sín á brjósti a.m.k. þá sex mánuði sem hér um ræðir ef þær sjálfar vilja það.

Hvað brjóstagjöfina varðar vil ég taka það skýrt fram, að ég er með þessu ekki að segja að konur eigi að hafa börn sín á brjósti í sex mánuði, en ég vil hins vegar að þær geti það ef þær sjálfar vilja og þess vegna m.a. legg ég til að fæðingarorlofið verði lengt sem því nemur.

Til samanburðar má geta þess að í nágrannalöndum okkar er fæðingarorlof víðast hvar lengra en hér á landi. Í Frakklandi er fæðingarorlof fjórir mánuðir og fjórir til fimm mánuðir eftir aðstæðum í Noregi og Danmörku. Í Hollandi er fæðingarorlof sex mánuðir, níu mánuðir í Svíþjóð og í Finnlandi er það heilt ár, en þar er það lengst. Við erum því nokkrir eftirbátar nágranna okkar á því sviði eins og áður hefur komið fram.

Í annan stað er gert ráð fyrir því í frv. að fæðingarorlofsgreiðslur miðist við full laun foreldris þannig að foreldri verði ekki fyrir fjárhagslegu tapi vegna fæðingarorlofs. En þetta er það atriði sem virðist vera hvað umdeildast í þessu frv. Ástæður þess, og nú bið ég þá hv. þm. sem hafa eitthvað til málanna að leggja í þessum málum að hlusta grannt eftir, - ástæður þess að þetta er haft svona í frv. eru þær í fyrsta lagi að með þessu er verið að viðurkenna að störf þau er lúta að umönnun og uppeldi barna eru engu síður mikilvæg en störf á hinum almenna vinnumarkaði og að foreldrahlutverkið er a.m.k. jafnmikils virði og fyrirvinnuhlutverkið í krónum talið. Það er verið að viðurkenna að ekkert starf sem foreldri þiggur laun fyrir skuli virða meira og launa hærra en það starf að annast um nýfætt barn og er þetta spurning um grundvallarmat á umönnunar- og uppeldisstörfum. Þetta er fyrsta ástæðan.

Önnur ástæðan er sú að hér er um beint fjárhagsatriði að ræða fyrir konur sem eru úti á vinnumarkaðnum og lækka mundu í launum við töku fæðingarorlofs. Konur eru fyrirvinnur rétt eins og karlar og við núverandi fjárhagsástæður fjölmargra heimila í landinu, svo ekki sé minnst á fjárhag einstæðra mæðra, munu fá heimili geta borið launaskerðingar af einu eða öðru tagi, einkum og sér í lagi ef launin eru í lægra kantinum.

Kvennalistinn mun fyrir sitt leyti a.m.k. ekki standa fyrir því að skerða laun kvenna, síst af öllu refsa þeim með launaskerðingu fyrir að eiga börn. Barátta fyrir bættum kjörum kvenna snýst ekki um að lækka þær konur í launum sem eru það heppnar að geta e.t.v. lifað af þeim heldur snýst hún um að hækka þau skammarlega lágu laun sem flestar konur búa við og fá því til leiðar komið að allar konur fái mannsæmandi laun fyrir vinnu sína. Það mundi skila sér inn í fæðingarorlofsgreiðslur ef þær eru hafðar með því fyrirkomulagi sem lagt er til í frv.

Fæðingarorlofsgreiðslurnar mundu þannig miða við afkomutryggingu heimilanna og þannig eru þær mikilvægur þáttur þess, og það er þriðja ástæðan fyrir því að þetta er haft svona, að feður, sem flestir afla stærri hluta heimilistekna vegna þess sem við köllum venjulega kynbundið launamisrétti á vinnumarkaðnum, geti nýtt sér réttindi til fæðingarorlofs og þar með borið aukna ábyrgð á umönnun barna sinna. Eins og nú standa sakir nýta feður sér lítið núgildandi heimild til fæðingarorlofs. Á síðasta ári voru þeir aðeins 123 af 3846 fæðingarorlofsþegum. Í Svíþjóð t.d., þar sem foreldrar fá 90% launa sinna greidd í fæðingarorlofi, voru feður hins vegar um þriðjungur fæðingarorlofsþega á síðasta ári og vegur afkomutrygging þar greinilega þungt.

Í nágrannalöndum okkar er ekki óalgengt að fæðingarorlofsgreiðslur séu miðaðar við 70-90% af launum foreldra nema í Frakklandi og Hollandi þar sem foreldrar fá greidd full laun í fæðingarorlofi. Það fá reyndar sumir fæðingarorlofsþegar á Íslandi líka, og nú vil ég aftur biðja hv. þm. að leggja vel við eyrun, því að um langt árabil hefur þessi skipan fæðingarorlofsmála, þ.e. að foreldrum séu tryggð óskert kjör meðan á fæðingarorlofi stendur, verið í gildi hjá opinberum starfsmönnum og hjá bankamönnum. (Gripið fram í: Þetta er samningamál þeirra.) Þetta er samningamál þeirra, það er rétt, en þetta er einnig mál sem Alþýðusamband Íslands hefur lagt á gríðarlega áherslu í öllum sínum samningaviðræðum og það er eitt af stefnumálum Alþýðusambandsins að foreldrar njóti óskertra launa í fæðingarorlofi.

Fjórða ástæðan fyrir því að þetta er haft svona í frv. er því sú að samræma skipun þessara mála fyrir alla launþega hér á landi, að það.gildi það sama hvort sem menn eru í Alþýðusambandi Íslands, í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja eða í Sambandi bankamanna hvernig fæðingarorlofsgreiðslum þeirra er háttað.

Ég vil einnig láta það koma fram í þessu sambandi vegna þess misskilnings sem gætir sums staðar varðandi þetta frv. að heimavinnandi konur og konur í hlutastarfi eru einu konurnar sem samkvæmt þessu frv. hækka beinlínis í launum við töku fæðingarorlofs. Aðrar konur standa aðeins í stað, hækka hvorki né lækka í launum, halda þeim aðeins óskertum.

Að hlut heimavinnandi kvenna og kvenna í hlutastarfi kem ég nánar hér á eftir, en áður vil ég láta þess getið að öll hróp um að verið sé að mismuna konum með þessu frv. eiga ekki við rök að styðjast. Þvert á móti reynir þetta frv. eftir fremsta megni - og sannarlega er engin ein lausn algild eða altæk, mér dettur ekki í hug að halda því fram - að draga úr þeirri mismunun sem konur búa við launalega í íslensku þjóðfélagi. Það hækkar í launum þær sem ekkert eða minnst bera úr býtum peningalega og gætir þess jafnframt að konur verði ekki fyrir launaskerðingu við það að eiga barn.

Staðreyndin er einnig sú að íslenskar konur á barneignaraldri hafa flestar tiltölulega svipuð laun hafi þær einhver laun á annað borð. Þær konur sem há laun hafa og eru einnig á barneignaraldri teljast til undantekninga. Það er yfirleitt ekki fyrr en á síðari hluta ævinnar, eftir að konur eru komnar úr barneign, að þær njóta þeirra réttinda að þiggja góð karlmannslaun fyrir vinnu sína. Vandann, ef einhver er í þessum efnum, er ekki að finna meðal kvenna, ekki í hópi kvenna. Það er engin hætta á því að Tryggingastofnun ríkisins þurfi að útdeila háum upphæðum til kvenna ef þetta frv. yrði að lögum.

Ég vil taka það fram í þessu sambandi, þar sem stundum hefur verið minnst á laun þingkvenna í þessu máli, að þingkonur njóta nú þegar óskertra launa í fæðingarorlofi þar sem þær njóta sömu lífeyrisréttinda og opinberir starfsmenn og það breytist hvorki til né frá með tilkomu þessa frv.

Vandann, ef það er rétta orðið, ég er ekki viss um að það sé rétta orðið yfir það sem hér er á ferðinni, er að finna meðal karlanna, í hópi feðranna, því að þar er launamismunurinn mikill og ef einhver hætta er á að Tryggingastofnun ríkisins verði að greiða út háar upphæðir vegna þessa frv. þá er það til feðra en ekki til mæðra.

Ég get fyrir mitt leyti vel tekið undir þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram við fyrri umræður þessa frv., að óeðlilegt sé að Tryggingastofnun ríkisins greiði út í fæðingarorlofi laun sem fara t.d. yfir 100 þús. kr. á mánuði. Til að forðast allan misskilning vil ég taka fram að það er sama hver í hlut á. Ég vil einnig taka það skýrt fram, og ég bið hv. þm. að leggja við eyrun, að ég set mig ekki á móti því að heilbr.- og trn. íhugi hvort eðlilegt væri að setja þak á fæðingarorlofsgreiðslurnar einhvers staðar þannig að þær færu aldrei yfir einhverja ákveðna upphæð. Hins vegar vil ég strax benda á að ég tel ekki æskilegt að miða fæðingarorlofsgreiðslur við eitthvert prósentuhlutfall af launum foreldra, t.d. að hafa það 90% eins og er í Svíþjóð eða 70% eins og er sums staðar, því prósentuskerðingar koma ævinlega verst niður á þeim sem lægst hafa launin. Þá væri öllu heppilegra að fara þá leið að hafa einhverja hámarksupphæð ef menn vilja setja einhver mörk á þessar greiðslur.

Ég vil að síðustu vísa aftur til þess sem ég sagði áðan um ástæður þess að frv. gerir ráð fyrir óskertum launum foreldra í fæðingarorlofi, þ.e. að meta umönnunarstörfin til jafns við önnur störf, að tryggja foreldrum óskert kjör á þessu viðkvæma tímabili og samræma þessa skipan mála fyrir alla launþega þar sem sumir njóta þessa þegar en aðrir ekki.

Þá vil ég segja fáein orð um heimavinnandi konur og þær sem eru í hlutastarfi og teljast heimavinnandi í aðalstarfi.

Í frv. er gert ráð fyrir að allar konur fái óskerta lágmarksfæðingarorlofsgreiðslu, sem 15. okt. s.l. var 24 655 kr. á mánuði nákvæmlega, án tillits til atvinnuþátttöku. Þannig eru þau skerðingarákvæði sem nú eru í gildi gagnvart heimavinnandi konum afnumin og þar með er í verki viðurkennd réttarstaða heimavinnandi móður og gildi starfa hennar fyrir þjóðfélagið í heild. Ég vil taka það skýrt fram að með þessu er engan veginn verið að leggja endanlegt mat á störf heimavinnandi kvenna. Slíkt starfsmat er ekki til og verður ekki hrist fram úr erminni. Mér þætti hins vegar mjög gaman ef slíkt starfsmat yrði einhvern tíma gert og hef talað fyrir því hér við önnur tækifæri, um nauðsyn þess að meta heimilisstörfin og reikna þau inn í þjóðarframleiðsluna þannig að sá stóri hópur sem vinnur þessi störf geti notið sambærilegra réttinda og annað vinnandi fólk hér á landi.

Með þessu er því ekki verið að meta heimilisstörfin endanlega. Það er hins vegar verið að tryggja að heimavinnandi konur njóti fullra viðmiðunargreiðslna, að skerðingarákvæðin séu numin úr gildi. Það er því miður eina færa leiðin til að tryggja fullan rétt heimavinnandi kvenna til fæðingarorlofsgreiðslna á meðan mat á störfum þeirra er ekki fyrir hendi. Á meðan ekkert starfsmat er til fyrir heimavinnu er engin önnur leið fær en taka þá viðmiðun sem lögin byggja á.

Heimavinnandi konur eru, eins og ég sagði áðan, einu konurnar sem hækka beinlínis í launum við að taka fæðingarorlof og það finnst mér í hæsta máta sanngjarnt þar sem þær njóta alla jafna engra peningalauna fyrir sín störf. Að vísu hefur það komið fram að ýmsum finnst þar heldur ríflega skammtað þar sem þær eru einu konurnar sem ekki standa í stað tekjulega við töku fæðingarorlofs heldur hækka beinlínis í launum, en ég vil á móti benda á að heimavinnandi konur og konur í hlutastarfi búa oft og tíðum engu síður við fjárhagslegt óöryggi en þær konur sem hafa fulla launaða vinnu og stundum jafnvel öllu meira og því er brýnt að það öryggi sem full greiðsla fæðingarorlofs veitir nái einnig til þeirra. Í leiðinni viðurkennum við einnig að þær eru vinnandi konur og eigi rétt á einhvers konar launum fyrir störf sín þótt langur vegur sé í það að þau hafi þar með verið að fullu metin til fjár.

Þá er í þessu frv. gert ráð fyrir því að faðir eigi þess kost að taka fæðingarorlof í tvo mánuði með samþykki móður í stað þess eina mánaðar sem núgildandi lög kveða á um. Þá skerðist fæðingarorlof móður sem því nemur og verður fjórir mánuðir ef faðir tekur þá tvo mánuði sem hann á rétt á.

Að mínu viti er það ekki síður mikilvægt að faðir hafi tök á að tengjast barni sínu sem nánast og sem fyrst og að foreldrum gefist báðum tækifæri til að leggja grunninn að jafnri ábyrgð á börnum sínum. Til þess er sá eini mánuður sem feður eiga nú rétt á samkvæmt gildandi lögum mjög naumur. I frv. er ekki gert að skilyrði að um sé að ræða tvo síðustu mánuði fæðingarorlofsins heldur ráða foreldrar tilhögun orlofstökunnar sjálf án afskipta löggjafans. Sveigjanleiki í tímaákvörðunum er æskilegur að þessu leyti vegna breytilegra aðstæðna fjölskyldna og því getur faðir tekið orlof sitt hvenær sem er á þessum sex mánuðum svo fremi sem móðir sé því samþykk. Ákvæðið um samþykki móður er óbreytt frá núgildandi lögum og tekur sem fyrr mið af því að það er móðirin sem þarf að ná sér heilsufarslega eftir áreynslu barnsburðarins.

Þá er gert ráð fyrir því í frv. að fæðingarorlof lengist um tvo mánuði sé um tvíburafæðingu að ræða og allt að fjóra mánuði eignist kona fleiri en tvö börn. Slíkar fæðingar eru ákaflega fáar hér á landi þannig að ekki er um neinn umtalsverðan kostnað að ræða af þessum sökum. Hins vegar er ljóst að fjölburaforeldrar þurfa lengri tíma til að aðlagast breyttum aðstæðum en einburaforeldrar og barnaumönnunin sjálf er umfangsmeiri eftir því sem börnin eru fleiri.

Að síðustu er gert ráð fyrir því í frv. að fæðingarorlof verði aldrei skemmra en þrír mánuðir ef móðir lætur barn frá sér vegna ættleiðingar, uppeldis eða fósturs eða til varanlegrar dvalar á stofnunum. Sama gildir ef um fósturlát er að ræða sem jafna má til fæðingar þar sem gera má ráð fyrir að sérhver kona þurfi a.m.k. þrjá mánuði til að jafna sig andlega og líkamlega eftir þá áreynslu. Jafnframt er sett inn ákvæði er varðar fæðingu andvana barns þar sem rétt þykir að kona sem fæðir andvana barn njóti sama réttar og kona sem missir barn sitt skömmu eftir fæðingu þótt það fæðist lifandi. Einnig er gert ráð fyrir að kjörforeldrar, uppeldis- eða fósturforeldrar eigi sama rétt á fæðingarorlofi og aðrir foreldrar og hlýtur það eðlilegt að teljast þar sem tíma þarf til að aðlagast breyttum aðstæðum fyrir þá foreldra og fyrir barnið rétt eins og sé um blóðforeldra að ræða.

Þá er komið að kostnaðarhlið þessa máls, en í hvert skipti sem það hefur verið flutt hér hefur verið gerð ítarleg grein fyrir kostnaði vegna þess. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar ríkisins munu á síðasta ári hafa verið greiddar út 195,5 millj. kr. í fæðingarorlof til 3846 fæðandi kvenna og 123 feðra. Þessar greiðslur skiptast þannig að fullt fæðingarorlof fengu 2877 konur og 123 karlar, 2/3 hluta fæðingarorlofs fengu 504 konur og enginn karl og 1/3 hluta fæðingarorlofs fengu 465 konur og enginn karl. Ef allir fæðingarorlofsþegar hefðu fengið fullt fæðingarorlof eins og frv. kveður á um hefðu fæðingarorlofsgreiðslur hækkað um 13,2% og er það um helmings lækkun á hækkun frá því í fyrra vegna þess að barnsfæðingum hefur fækkað töluvert hér á landi. Í fyrra hefði fullt fæðingarorlof hækkað þessar greiðslur um 21,7% en í ár aðeins um 13,2%. Við þetta hefði heildarupphæð greiðslnanna orðið 221,3 millj. kr. Þarna hefðu sem sagt bæst við 26 millj. kr. víð það að afnema skerðingarákvæðið sem heimavinnandi konur og konur í hlutastarfi búa nú við. Ef miðað er við lágmarksfæðingarorlofsgreiðslur til allra kvenna, sex mánaða fæðingarorlof, sem sagt lengt um helming, og að konur haldi launum sínum í fæðingarorlofi óskertum væri áætlaður heildarkostnaður vegna frv. 442,6 millj. kr., þ.e. þá mundi fæðingarorlof hér á landi kosta það, en kostnaður vegna frv. er um 250 millj. kr. þar af.

Það er rétt að taka fram að samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins skiptir sama og engu máli hvort allar konur fá fulla lágmarksgreiðslu, þ.e. þær 25 þús. kr. sem tilteknar eru í frv., eða haldi sínum launum óskertum. Það breytir engu fjárhagslega fyrir Tryggingastofnun ríkisins vegna þess, og nú bið ég hv. þm. að taka vel eftir, að meðallaun kvenna á aldrinum 15-44 ára, þ.e. þeirra kvenna sem eru á barneignaraldri, eru nánast þau sömu og lágmarksgreiðslan. Þau eru nánast þessar 24 655 kr. á mánuði þannig að það breytir engu fyrir Tryggingastofnun ríkisins og fyrir heildarupphæðina hvort þessi lágmarksgreiðsla er greidd út eða hvort konur haldi launum sínum óskertum. Það er mér tjáð af mönnum þar á bæ. Allt tal um mismunun fellur því endanlega um sjálft sig með þessum tölum er ég hrædd um.

Niðurstöðukostnaðartalan vegna fæðingarorlofsgreiðslna er sem sagt í kringum 442,6 millj. kr. á ári, en 250 millj. kr. af því eru tilkomnar vegna frv. Nú er ekki ólíklegt að sem fyrr finnist einhverjum að hér sé um töluverða fjárhæð að ræða. Mikið eða lítið er vitaskuld háð mati hverju sinni og við hvað menn miða þegar þeir segja að eitthvað sé lítið eða mikið. Hér er um að ræða mikið fé sé miðað við það sem við veitum þegar til þessara mála, lítið fé sé miðað við framlög til ýmissa annarra mála. Eins og fyrri daginn snýst þessi spurning um það m.a. hvaða málum við viljum veita forgang og að mínu viti krefjast aðstæður ungbarnaforeldra þess í dag að þessu máli sé sinnt þannig að það komi að gagni.

Til þess að verða ekki alfarið að treysta á fé úr ríkissjóði til að standa straum af kostnaði vegna þessa frv. hef ég enn á ný, rétt eins og á síðasta þingi, lagt fram fylgifrv. með þessu frv. til að afla tekna vegna lengingar fæðingarorlofs. Það frv. hefur málanúmerið 181, er á þskj. 206, og ég mun gera grein fyrir því hér á eftir. En ég vil rétt aðeins minnast á það nú að þetta frv. mun ekki eingöngu ná að mæta 2/3 hluta þess kostnaðar sem fæðingarorlofsfrv. hefur í för með sér eins og fram kemur í grg. heldur mun það gera meira en mæta þeim kostnaði vegna þess hversu mikið fæðingum hefur fækkað. Þess vegna væri óhætt að lækka þá prósentutölu sem fylgifrv. gerir ráð fyrir að innheimt verði af launum í landinu. Við erum, vegna þess hversu barnsfæðingum hefur fækkað mikið, komin upp fyrir það mark sem þarf til að mæta þeim kostnaði sem fæðingarorlofsfrv. hefur í för með sér. En ég mun gera nánar grein fyrir því frv. á eftir þegar það verður tekið formlega á dagskrá. Ef bæði frumvörpin yrðu að lögum yrði því ekki um neinn aukalegan kostnað fyrir ríkissjóð að ræða.

Einnig hef ég bent á að það fæðingarorlofsfrv. sem hér er til umræðu felur í sér sparnað sé til lengri tíma litið því að ríkissjóður mun örugglega spara sér margar krónurnar á sviði félags- og heilbrigðismála við lengingu fæðingarorlofs. Hér er í reynd verið að leggja til að við fjárfestum í framtíðinni meira en við gerum þegar og veitum auknu fé til aðbúnaðar barna okkar og einnig að við sýnum að við metum nokkurs þann mannlega ávinning sem því fylgir.

Virðulegi forseti. Eins og ljóst má vera er mál þetta mikið réttlætismál fyrir alla foreldra hér á landi. Jafnframt er ljóst að eigi konur í raun og veru að hafa eitthvert val um það hvernig lífi þeirra og störfum er háttað er nauðsynlegt að þær geti átt þess kost að samhæfa hin mismunandi og félagslega nauðsynlegu hlutverk sín, þ.e. að samhæfa móður- og fjölskylduhlutverkið og þátttöku í atvinnulífinu, en það gengur konum alla jafna mun verr en körlum vegna þess að meginhluti ábyrgðarinnar á umönnun og umsjón barna hefur hvílt á þeirra herðum.

Í þessu frv. er leitast við að gera einmitt þetta, að samhæfa þátttöku og mikilvægi kvenna og foreldra allra í atvinnulífinu annars vegar og hið mikilvæga foreldrahlutverk hins vegar. Jafnframt er hér verið að treysta innbyrðis tengsl fjölskyldunnar og styrkja hana á skeiði sem er bæði mjög þýðingarmikið og viðkvæmt. Það er verið að reyna að tryggja betur en nú er velferð barna á fyrstu æviárum þeirra og það er verið að reyna að gefa feðrum kost á að taka aukinn þátt í umönnun barna sinna. Að síðustu er hér verið að viðurkenna almennt þjóðfélagslegt gildi foreldrahlutverksins og þeirra starfa sem því fylgja þar sem hér er lagt til að allar starfandi konur njóti sama réttar án tillits til atvinnuþátttöku.

Virðulegi forseti. Að síðustu þetta: Þörfum ungabarna og ungbarnaforeldra verður ekki breytt, hvort sem okkur líkar betur eða verr sem hér sitjum, og ef ekki er rúm fyrir þau í þjóðfélagi nútímans verðum við einfaldlega að reyna að breyta þjóðfélaginu til þess að svo megi verða.

Eins og ég gat um áðan í máli mínu er konum sagt að hafa börn sín á brjósti í sex mánuði, en þeim er í raun ekki gert kleift að gera það nema í þrjá mánuði. Konum er sagt að það skipti miklu að hlúa vel að börnum sínum. Og það þarf ekki að segja þeim það. Þær vita það. Það vita allir foreldrar. En þeim er sniðinn þröngur stakkur í þeim efnum. Alls staðar er skorið við nögl, í fæðingarorlofsmálum, í dagvistarmálum, í mati á heimilis- og uppeldisstörfum og í launum kvenna úti á vinnumarkaðnum, og eftir sitja konurnar áhyggjufullar um börn sín og sakbitnar því að margar halda að þetta sé allt þeim að kenna en ekki stjórnvöldum sem eru áhrifavaldar í því að skapa þeim þessar aðstæður, stjórnvöldum sem einum of oft setja þær og börnin aftast í forgangsröðina þegar verið er að skipta því fé sem við eigum sameiginlega. Þessu verðum við að breyta og á þessu verðum við að taka með lagasetningu sem hefur raunveruleg áhrif til bóta. Að mínu viti eru lög um fæðingarorlof ein slík lög og því er þetta frv. hér fram borið.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn. og eins og ég gat um í upphafi máls míns áðan vonast ég til að frv. eigi afturkvæmt í þetta skipti úr hv. heilbr.- og trn. í einhverri mynd.