28.10.1985
Neðri deild: 10. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 256 í B-deild Alþingistíðinda. (197)

54. mál, sveitarstjórnarlög

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki þörf á því að fara mörgum fleiri orðum um þetta mál á þessu stigi. Það verður vafalaust tekið til rækilegrar umræðu hér í þinginu síðar.

Ég vildi aðeins vekja athygli á því, herra forseti, að það hefur komið fram að þetta frv. er ekki stjfrv. með venjulegum hætti. Það liggur fyrir að Sjálfstfl. mun að öllum líkindum leggja til, skv. upplýsingum hv. 1. þm. Vesturl., að kaflinn um héraðanefndir verði felldur niður. Enn fremur hafði hann athugasemdir að gera við fleiri ákvæði frv., þannig að ljóst er að þetta er ekki stjfrv. með þeim hætti að stjórnarflokkarnir séu samþykkir efni þess. Þetta er hins vegar stjfrv. með þeim hætti, sem oft hefur verið tíðkaður í núv. ríkisstj., að frv. er hér lagt fram af ráðherra og kallað stjfrv. vegna þess að ríkisstj. hefur leyft ráðherranum að dreifa því hér í þinginu án skuldbindingar um afstöðu til einstakra greina frv. Hér er bersýnilega verið að þjóna þeim tilgangi að ráðherrann geti lagt eitthvað fram á Alþingi svo hann geti sagt: ja, ég hef lagt fram frv. um sveitarstjórnarmál og ég hef áhuga á að leggja fram frv. um Búseta o.s.frv. En stjórnarflokkarnir hafa samt ekki myndað sér skoðun á málinu. Þess vegna er þetta ómarktækt sem tillaga ríkisstj., en þetta er út af fyrir sig ágætt til að hafa almennan málfund hér í þinginu, hv. Alþingi, þessari virðulegu stofnun, og skiptast á skoðunum um eitt og annað sem snertir sveitarstjórnarmál. Það er vafalaust gagnlegt að hafa svona málfund um það. En þetta er ekki tillaga, pólitísk tillaga frá meiri hlutanum um það hvernig hann vill koma sínum málum fram og það er óneitanlega heldur lakara. Það væri betra að ríkisstj. hefði skoðun á málinu. Það hefur hún ekki og þess vegna hefur hún allra náðarsamlegast leyft ráðherranum að dreifa þessum pappírum hér um þingbekki. Er það eitt út af fyrir sig þakkarvert. Það er betra en ekkert. Það verður að segja það eins og það er.

Varðandi þær umræður sem hér hafa farið fram að öðru leyti vil ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin við spurningum þeim sem ég bar fram og þakka honum sérstaklega fyrir ábendingar hans varðandi 55. gr., sem heimilar sveitarstjórnunum að opna fyrir framboðsaðila, sem ekki eiga fulltrúa í nefndum, að þeir eigi þar áheyrnarfulltrúa. Gallinn við greinina er hins vegar sá, eins og lesa má í henni, að þessum framboðsaðilum sem ekki eiga fulltrúa í nefndum - og borgarráði Reykjavíkur t.d. - þeim er ekki tryggður þessi réttur. Þeir eiga það upp á náð meiri hlutans að fá að vera með áheyrnarfulltrúa inni í nefndum eða ráðum bæjar- og sveitarstjórna og borgarstjórnarinnar hér í Reykjavík.

Ég held að það væri eðlilegt að þessi réttur væri betur tryggður en gert er ráð fyrir í frv. Ef ég man rétt þá var á einhverju stigi málsins gert ráð fyrir því að þessi réttur yrði tryggður, en þetta yrði ekki bara heimilt. Um það spurði ég hv. 1. þm. Vesturl. Hann er kannske búinn að gleyma því, en það er mál sem skýrist við frekari meðferð málsins.

Ég tek það fram að það sem ég var að segja í sambandi við kosningalögin og ákvæðin þar var ekki að mér þætti kaflinn vondur. Mér þykir hann nokkuð góður og skýringanna er að leita m.a. í aðdraganda málsins eins og hv. 1. þm. Vesturl. benti hér á áðan. Það sem ég var að finna að var ekki efnisatriðin þarna, heldur hitt að mér þykir nokkuð sérkennilegt að leggja fram tillögu um kosningalög og taka hana út úr þeirri almennu samvinnu flokkanna í þinginu um kosningalög, sem fram hefur farið hér á undanförnum árum, hvað svo sem menn segja um hana að öðru leyti.

Ég vil síðan í sambandi við þetta mál vekja athygli á lokaorðum hæstv. félmrh. Hann sagði að það yrði ekki mjög langt í það að lagt yrði fram frv. um tekjustofna sveitarfélaga. Þá segi ég: Við skulum hinkra og sjá það frv. Því það er auðvitað rétt hjá hæstv. ráðh. að það er sjálfsagður hlutur að þetta verði afgreitt í einu lagi, þannig að það geti legið fyrir hvaða tekjustofna þau sveitarfélög hafa sem við erum að búa til lagaramma fyrir með þessu frv. hér. Ég vil eindregið lýsa mínum stuðningi við hæstv. ráðh. í þeim efnum að málin fái hér samhliða meðferð, en ein nauðsynleg forsenda þess að svo geti orðið er væntanlega að ríkisstj. myndi sér skoðun, bæði á sveitarstjórnarmálum og tekjustofnum sveitarfélaga, sem að vísu liggur ekki fyrir enn, en getur ræst úr því langt lifir enn þá þessa þinghalds.