05.02.1986
Efri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (1970)

180. mál, fæðingarorlof

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, beindi til mín orðum vegna þess að ég er formaður heilbr.- og trn. þessarar hv. deildar. Svo var að skilja á hv. þm. að ég hefði sem nefndarformaður jafnvel beitt í mínum störfum ofríki í nefndinni. Nú held ég að svo hafi ekki verið.

Hv. þm. gat um að málið hefði ekki fengið þinglega meðferð á þeim tveimur þingum sem um þetta mál, fæðingarorlofið, hefur verið fjallað, á 106. og 107. löggjafarþingi. Ég held ég þori að fullyrða að sú ákvörðun sem tekin var, raunar í bæði skiptin, að málið kæmi ekki aftur fyrir deildina, hafi ekki verið óþingleg í sjálfu sér. Slíkar ákvarðanir er hægt að taka, enda þótt ekki séu þær bókaðar. Nú ætla ég mér ekki að fara að vitna í samtöl mín við einstaka nm. né heldur að fara að rekja umfjöllun um málið eins og hún gekk fyrir sig á þeim þingum sem um hefur verið rætt og þar sem málið hefur verið til umfjöllunar.

Ég vil segja frá því að þegar þetta mál hefur verið til meðferðar hef ég að sjálfsögðu og e.t.v. fleiri haft samband við fulltrúa ríkisstj. um hvort eitthvað nýtt væri fyrirhugað varðandi fyrirkomulag fæðingarorlofs. Hvað ríkisstj. og fjárútlát varðar í þessu efni held ég að niðurstaðan hafi orðið sú, a.m.k. hvað varðar okkur stjórnarliða, þrátt fyrir að við höfum séð mikla gagnsemi í þeirri aðgerð sem frv. felur í sér, að við höfum ekki treyst okkur til að leggja til að þetta frv. yrði samþykkt óbreytt. - Ég segi óbreytt.

Nú vil ég segja frá því að það hefur verið minn skilningur að hv. flm. kysi jafnvel fremur að málið lægi í nefnd en að það kæmi hér til atkvæðagreiðslu á þeim þingum sem það hefur verið flutt á, það væri fremur vilji hv. flm. að það væri látið kyrrt liggja, ekki einu sinni að hv. flm. kysi að það kæmi hingað með einhverjum breytingum. Nú kann þetta að vera rangt mat.

Hvað varðar aðra nm. en stjórnarliða hafa ekki komið fram á þessum umræddu þingum neinar kröfur um að málið yrði afgreitt úr nefnd. Málsmeðferðin hefur m.ö.o. byggst á formlegu og óformlegu samkomulagi eftir atvikum. Það fullyrði ég.

Nú krafði hv. þm. mig um það sem formann nefndarinnar hvernig ég hygðist haga málsmeðferðinni. Ég skil það svo að hv. þm. ætlaðist til þess að ég lýsti því yfir hver yrði niðurstaða í nefndinni. Mér er lífsins ómögulegt, enda þótt ég sé formaður nefndarinnar, að fullyrða um slíkt á þessu stigi einfaldlega vegna þess að á þessu þingi hefur nefndin ekki fjallað um málið og ofríkið er nú ekki meira en svo að ég fer ekki að tala fyrir munn einstakra nefndarmanna. Ég lofa bæði sjálfum mér, hv. þm. og deildinni allri því að málið fái þinglega meðferð eins og ég tel að það hafi raunar fengið áður. Ég mun standa við það.

Hv. þm. vék að því að heilbr.- og trn. hefði ekki einu sinni sent málið til umsagnar á síðasta þingi. Þetta er laukrétt. Ég held að það hafi komið greinilega fram við umfjöllun málsins í nefndinni að hv. heilbr.- og trygginganefndarmenn eru mjög kunnugir þessu máli. M.a. eru þeir kunnugleikar á frv. byggðir á umsögnum sem áður höfðu borist um frv. Þeir kunnugleikar varða að sjálfsögðu viðhorf almennings til frv. Þau viðhorf eru mjög jákvæð. Það er ekkert launungarmál. Ég hygg að það sé ekkert einsdæmi að mál sem flutt er nokkur þing í röð séu ekki ævinlega send til umsagnar. Það fer eftir atvikum að sjálfsögðu, hversu aldnar umsagnir eru. En í þessu tilviki er það mat nefndarinnar að viðhorf hafi ekki breyst, síður en svo, til viðkomandi frv.

Að öðru leyti ætla ég ekki að fjalla um þetta mál. Ég get að sjálfsögðu, og geri, tekið heils hugar undir fjölmargt, kannske flest, í efnislegri umfjöllun hv. þm. um þetta mál, ekki síst mikilvægi þess að móðir geti dvalið sem allra lengst með sínu barni og ekki síst á fyrstu mánuðum æviskeiðs barnsins. Undir þetta tek ég heils hugar.

Varðandi viðhorf verkalýðshreyfingarinnar til þessa máls, þ.e. Alþýðusambands Íslands, er það rétt að Alþýðusambandið mælir með þessu frv. Það hefur komið fram að lenging fæðingarorlofs hafi verið viðruð í samningum. Ég lít svo til með tilliti til reynslunnar að fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar hafi metið aðra ávinninga meira í samningum en fæðingarorlofið. Þeir um það.

Nú megum við ekki gleyma því að þetta frv. gerir ráð fyrir allverulegum álögum á atvinnureksturinn, við megum ekki gleyma því, og fram hjá því geta alþm. ekki horft. Ég er ekki þar með að segja að sá aukni kostnaður sé óyfirstíganlegur. Á þessu stigi legg ég ekki mat á það.

En niðurstaðan hefði verið sú af hálfu launasamtakanna í landinu að meta aðra ávinninga meira. Og ég endurtek: Það er í sjálfu sér e.t.v. ekki nauðsynlegt fyrir alþm. að draga einhlítar ályktanir af því.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að fjalla í löngu máli um þetta frv. efnislega. Ég vil að endingu lýsa þeirri skoðun minni, og legg þá ekki mat á tímalengd fæðingarorlofs, að ég teldi eðlilegt að allar konur hefðu sama rétt til fæðingarorlofs.