05.02.1986
Efri deild: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2357 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

180. mál, fæðingarorlof

Flm. (Sigríður Dúna Kristmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka virðulegum forseta fyrir og ég skal reyna að vera mjög snögg.

Það er varðandi fjárhagshliðina. Kostnaðarauki vegna frv. er 250 millj. kr. Fylgifrv. geri ég ráð fyrir að nái inn 300 millj. kr. Þar af leiðandi aflar fylgifrv. meira fjár en þarf til þess að standa straum af kostnaði vegna fæðingarorlofsfrv. Eftir standa þær 200 millj. sem ríkið er þegar skuldbundið til að greiða í fæðingarorlof þannig að þar eru aðrar 200 millj.

Hvað varðar launamuninn og þær spurningar, sem ég beindi til þm. hér áðan, þ.e. hvort það væri þeirra stefna að laun ættu að vera jöfn í þjóðfélaginu rétt eins og í fæðingarorlofsgreiðslum, þá báru svörin keim af undanfærslum.

Annars vegar sagði hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir: Við eigum ekki að ræða um laun hér á Alþingi. Það er rætt og samið um þau annars staðar. En hún tók það fram að hún vildi jafna launamun á milli fólks. Þar er ég henni innilega sammála. Hv. þm. Árni Johnsen taldi að þetta væru ekki laun heldur styrkir.

Mér finnst, og vil láta það verða mín lokaorð í þessari umræðu, að það jöfnunarsjónarmið sem fram hefur komið í máli hv. þm. varðandi þetta fæðingarorlof - ég tek fram að minn skilningur á jöfnuði og jöfnum rétti allra til að halda sínum launum er líka jöfnunarskilningur - en að sá jöfnunarskilningur, sem fram hefur komið í máli þm., er svolítið á þá leið að sumir séu jafnari en aðrir. Konur skulu allar standa hnífjafnar þegar þær fæða börn en ekki ella og ekki heldur aðrir launþegar úti á vinnumarkaðnum.

Virðulegi forseti. Ég læt máli mínu lokið.