05.02.1986
Neðri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2363 í B-deild Alþingistíðinda. (1984)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það frv. til laga um Seðlabanka Íslands sem hér liggur fyrir byggir á tillögum bankamálanefndar sem var skipuð í júlímánuði 1981. Í skipunarbréfi nefndarinnar var henni falið að endurskoða allt bankakerfið, þar á meðal löggjöfina um Seðlabanka Íslands og hlutverk hans með það að markmiði að mynda stærri og virkari heildir og einfalda bankakerfið innan ramma heilsteyptrar löggjafar um viðskiptabanka. Formaður bankamálanefndar var skipaður Halldór Ásgrímsson sjútvrh. en aðrir nefndarmenn voru Jón G. Sólnes fyrrv. alþm., Kjartan Jóhannsson alþm., Lúðvík Jósepsson fyrrv. ráðh. og Matthías Á. Mathiesen utanrrh. Halldór Ásgrímsson og Matthías Á. Mathiesen létu af störfum í nefndinni 1983 en í þeirra stað voru skipaðir Þorsteinn Pálsson fjmrh., sem formaður, og Björn Líndal, deildarstjóri í viðskrn.

Bankamálanefnd skilaði tillögum sínum til ráðuneytisins í mars 1984 og fylgdu þeim sérálit tveggja nefndarmanna, Kjartans Jóhannssonar og Lúðvíks Jósepssonar. Við undirbúning tillagnanna aflaði nefndin margvíslegra gagna, þar á meðal um starfsháttu seðlabanka á Norðurlöndum og átti viðræður við bankastjórn Seðlabankans. Frá því tillögurnar bárust ráðuneytinu hafa þær verið þar til athugunar og í meginatriðum hefur verið ákveðið að fylgja tillögum meiri hluta bankamálanefndar.

Upphaflega var ætlunin að seðlabankafrv. yrði lagt fram á síðasta þingi um líkt leyti og þingið tók til meðferðar frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Slík málsmeðferð hefði verið mun æskilegri enda var nánast gert ráð fyrir því í viðskiptabanka- og sparisjóðafrv. að breytingar yrðu samtímis gerðar á lögum um Seðlabankann. Nægir í þessu sambandi að nefna tilhögun vaxtaákvarðana. Úr þessu gat því miður ekki orðið en þm. fengu hins vegar í hendur drög að frv. til laga um Seðlabanka Íslands sem trúnaðarmál í júní s.l.

Gildandi lög um Seðlabanka Íslands eru nr. 10 frá 1961. Með lögunum var Seðlabankinn gerður að sjálfstæðri stofnun en áður hafði Landsbankanum verið skipt í tvær deildir, seðlabanka og viðskiptabanka, en hvor um sig laut sérstakri stjórn, sbr. lög nr. 63 frá 1957 um Landsbanka Íslands. Þegar þau lög voru sett höfðu lengi staðið yfir umræður á Alþingi um stofnun sérstaks seðlabanka. Upphaflega var það Landsbankinn, sem stofnaður var 1885, er lét prenta fyrstu íslensku peningaseðlana. Árið 1903 fékk hins vegar Íslandsbanki einkaleyfi til þess að gefa út gulltryggða seðla samkvæmt lögum sem Alþingi samþykkti á árinu 1901. Íslandsbanki hélt þessum rétti til ársins 1921 en frá og með 1922 var Landsbankanum á nýjan leik falið að annast seðlaútgáfuna. Með lögum nr. 9/1928 um Landsbanka Íslands var Landsbankanum skipt í þrjár deildir, seðlabanka, sparisjóðsdeild og veðdeild og var seðlabankanum fengin seðlaútgáfurétturinn. Þannig stóðu mál þar til ný lög voru samþykkt árið 1957.

Núgildandi lög um Seðlabankann eiga 25 ára afmæli á þessu ári og eru enn að mestu óbreytt. Á hinn bóginn hafa ýmis önnur lög verið sett sem bæði skýra nánar hlutverk Seðlabankans eins og það er markað í seðlabankalögunum og fela bankanum ný verkefni. Hér má t.d. nefna lög nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, sem að meginhluta eru nánari útfærsla á 6. gr. seðlabankalaga. Með lögum nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., var Seðlabankanum falin umsjón með reglum um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Er þar bæði um að ræða verðtryggingarkjör í viðskiptum innan og utan innlánsstofnana. Samkvæmt lögum nr. 63/1979, um skipan gjaldeyris- og viðskiptamála, eru Seðlabankanum falin veigamikil störf á sviði gjaldeyrismála. Má segja að lögin séu að hluta til nánari útfærsla á verkefnum sem sagt er í lögum um Seðlabankann að bankinn skuli hafa með höndum, sbr. 2.-4. tölul. 3. gr. seðlabankalaga. Þá er að finna ákvæði í lögum sem kveða svo á að leita skuli samráðs eða samþykkis bankastjórnar Seðlabankans við ákvörðun vaxta, t.d. hjá fjárfestingarsjóðum, sbr. lög nr. 13/1975, um launajöfnunarbætur, og loks er í lögum, reglugerðum eða samkvæmt sérstöku samkomulagi ráðuneyta og Seðlabanka, bankanum falin umsjá og varsla ýmissa sjóða. Má hér t.d. nefna ríkisábyrgðasjóð, útflutningslánasjóð, norræna iðnþróunarsjóðinn og þjóðhátíðarsjóð.

Með því frv., sem hér liggur fyrir, eru lagðar til margvíslegar breytingar á lögum nr. 10/1961 um Seðlabankann. Meginhlutverk bankans, sem er að vinna að því að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á sem fyllstan og hagkvæmastan hátt, verður hins vegar óbreytt. Helstu breytingarnar eru þessar:

1. Rekstur Seðlabankans er í auknum mæli bundinn við hefðbundin verkefni seðlabanka.

2. Ákvæðum um stjórntæki bankans er skipað með öðrum hætti en gert er í gildandi lögum. Miðað er við að bindiskyldu innlánsstofnana gagnvart Seðlabanka verði fyrst og fremst beitt til þess að stuðla að jafnvægi á peningamarkaðnum. Seðlabankanum verður heimilt að setja innlánsstofnunum reglur um lágmark og meðaltal lauss fjár. Almenn heimild Seðlabankans til þess að ákveða innláns- og útlánsvexti innlánsstofnana er felld niður. Reglur um lán ríkissjóðs úr Seðlabanka eru hertar. Afskipti Seðlabanka af stofnun nýrra útibúa hjá bönkum og sparisjóðum falla niður.

3. Sett eru ákvæði um starfsemi og starfsheimildir bankaeftirlitsins.

4. Bankastjórum og aðstoðarbankastjórum Seðlabankans er almennt bannað að silja í stjórn annarra stofnana og atvinnufyrirtækja eða taka þátt í atvinnurekstri utan bankans. Samkvæmt frv. verða bankastjórar eigi ráðnir til lengri tíma en 6 ára í senn.

5. Hagnaður Seðlabankans er skattlagður.

Með þeim breytingum sem hér hefur stuttlega verið lýst og nánar verður vikið að síðar mun seðlabankalöggjöfin verða með svipuðu sniði og þekkist víðast í Vestur-Evrópu þótt vitaskuld sé tekið tillit til séríslenskra aðstæðna. Skal nú vikið nánar að einstökum breytingum og nýmælum sem felast í frv.

Í 1. kafla frv., sem fjallar um skipulag bankans og hlutverk, er ekki um veigamiklar breytingar að ræða frá gildandi lögum. Þó ber að nefna að gildissvið 3. tölul. 3. gr. núgildandi laga, þar sem segir að hlutverk Seðlabankans sé að vera banki annarra banka og peningastofnana, hefur verið þrengt þannig að í stað orðsins „peningastofnanir“ kemur orðið innlánsstofnanir. Verður komið nánar að þessu við umfjöllun um III. kafla frv.

Í 1. kafla er að finna þá grein sem einna oftast er vísað til í umræðum manna á meðal um Seðlabankann. Hér er átt við 4. gr. frv. en í henni er leitast við að skilgreina stöðu Seðlabankans innan framkvæmdarvaldsins og þá einkum gagnvart ríkisstjórn. Í frv. hefur ekki þótt ástæða til að breyta þessari grein enda hefur hún um margt gefist vel. Í henni felast þrjú meginatriði eins og fram kemur í athugasemdum við frv. að núgildandi seðlabankalögum:

1. að bankinn skuli hafa nána samvinnu við ríkisstjórn og gera henni grein fyrir skoðunum sínum,

2. að bankanum sé rétt sem sjálfstæðum sérfróðum aðila að halda fram skoðunum sínum opinberlega, jafnvel þótt um ágreining við ríkisstjórn sé að ræða,

3. að endanlegt ákvörðunarvald um stefnu í efnahagsmálum hljóti ætíð að vera hjá ríkisstjórninni og undir það hljóti Seðlabankinn ætíð að beygja sig að lokum.

Þessi meginatriði eru enn í fullu gildi og í góðu samræmi við þau sjónarmið sem erlend seðlabankalöggjöf byggir á. Í þeim felst ekki að Seðlabankinn ákveði markmið á sviði peningamála. Það verkefni hlýtur að vera í höndum ríkisstjórnar á hverjum tíma og á hennar ábyrgð. Þannig segir t.d. beinum orðum í 28. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., að Seðlabanki Íslands skuli sjá um að peningamagn í umferð og framboð lánsfjár sé í samræmi við markmið ríkisstjórnarinnar í efnahags- og verðlagsmálum eins og þau eru sett fram í skýrslu ríkisstjórnarinnar um þjóðhagsáætlun. Sjálfstæði Seðlabankans á einkum að vera í því fólgið að hann geti sem sérfróður aðili metið og ákveðið í samræmi við 4. gr. hvaða stjórntækjum bankans hagkvæmast sé að beita til þess að ná þeim markmiðum er ríkisstjórn hefur sett.

Í frv. hefur nýrri málsgr. verið bætt við 4. gr., þar sem gert er ráð fyrir að bankinn sendi viðskrh. a.m.k. tvisvar á ári greinargerð um þróun og horfur í peningamálum, greiðslujafnaðar- og gengismálum. Er ákvæðinu ætlað að tryggja aukið samband ráðuneytis og Seðlabanka.

Í II. kafla frv. er fjallað um seðlaútgáfu og mynt. Á því skal vakin athygli að II kafli núgildandi laga um Framkvæmdasjóð Íslands var felldur úr gildi með lögum nr. 93/1971, um Framkvæmdastofnun ríkisins. Jafnframt hafa tvær greinar III kafla núgildandi laga sem fjallar um seðlaútgáfu og mynt verið felldar brott. Önnur greinin hafði að geyma ákvæði þess efnis að fjmrn. gæti samið við Seðlabankann um að hann tæki við útgáfu myntar af ríkissjóði. Slíkt samkomulag var gert árið 1966. Hin greinin fjallar um hvernig tryggja skuli seðla- og myntveltu og er löngu úrelt. Um það efni er nú fjallað í 28. gr. laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.

Í III. kafla frv. er fjallað um innlend viðskipti Seðlabankans. Þar er um ýmsar veigamiklar breytingar að ræða. Áður er vikið að því að frv. er ætlað að þrengja hóp þeirra sem átt geta viðskipti við Seðlabankann. Samkvæmt frv. er meginreglan sú að viðskiptaaðilar í Seðlabankanum séu innlánsstofnanir, ríkissjóður og ríkisstofnanir sem eru á fjárlögum. Innlánsstofnanir eru skilgreindar á sama hátt og verið hefur og teljast til þeirra viðskiptabankar, sparisjóðir, innlánsdeildir samvinnufélaga og aðrar stofnanir eða félög sem taka við innlánum frá almenningi til geymslu og ávöxtunar. Þá er sérstaklega tekið fram að í stað þess að hver sparisjóður hafi viðskiptareikning í Seðlabankanum sé heimilt að semja við lánastofnun sparisjóðanna um sameiginlegan viðskiptareikning sparisjóða hjá bankanum. Þá er viðskrh. heimilt þegar sérstaklega stendur á að ákveða í reglugerð að Seðlabankinn taki við inniánum frá öðrum peningastofnunum. Seðlabankinn setur nánari reglur um innlánsviðskipti sín samkvæmt þessari grein, þar á meðal um vaxtakjör af innlánsreikningum.

Í 8. gr. frv. er fjallað um innlánsbindingu en heimildir til að binda fé innlánsstofnana í Seðlabankanum voru fyrst teknar í lög nr. 63/1957 um Landsbanka Íslands. Þær voru í upphafi hæst 15 og 20% af spari- og veltiinnlánum, en hafa síðan hækkað og nema samkvæmt núgildandi lögum hæst 28% af heildarinnstæðufé. Þegar hætt var endurkaupum afurða- og rekstrarlána af innlánsstofnunum voru bindihlutföll lækkuð í 18% með sérstakri aðgerð og samkomulagi við innlánsstofnanir. Samkvæmt þessari grein frv. er gert ráð fyrir að Seðlabankinn meti bindiþörf hverju sinni og ákvarðanir bankans verði háðar samþykki ráðherra. Með orðalaginu: „Þegar sérstaklega stendur á“ er átt við að bindingu verði einungis beitt þegar telja má að önnur stjórntæki bankans dugi ekki til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Í greininni er lagt til að heimilt verði að miða bindingu við ráðstöfunarfé innlánsstofnana í stað innlánsfjár en það ráðstöfunarfé getur m.a. falið í sér erlent lánsfé stofnunar og hugsanlega fjáröflun á innlendum lánsfjármarkaði. Í lokamálsgr. 8. gr. er að finna mikilvægt nýmæli um stjórntæki sem bankinn hefur beitt nokkra hríð. Hér er um setningu reglna að ræða er mæla fyrir um lágmark eða meðaltal lauss fjár sem innlánsstofnunum ber að hafa yfir að ráða á hverjum tíma. Felst í ákvæðinu frekari útfærsla á 35. gr. laga um viðskiptabanka og 39. gr. laga um sparisjóði sem þykir rétt að styðja með beinni lagaheimild.

Samkvæmt 10. gr. verður það meginregla að vextir við innlánsstofnun skuli ráðast af markaðsaðstæðum í stað þess að vera ákveðnir beint af Seðlabanka í samráði við ríkisstjórn. Þó verður þeim möguleika haldið opnum að Seðlabankinn geti gripið inn í þróun vaxtamála með beinum aðgerðum en á það ber að leggja áherslu að þar er um undantekningu frá meginreglunni að ræða sem einungis verður beitt þegar fullreynt er að aðrar leiðir duga ekki til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Komi til afskipta Seðlabankans af vaxtastigi á grundvelli þessarar undantekningarreglu ber að gæta þess að vextir verði ætíð yfir verðbólgustigi eins og glöggt kemur fram í ákvæðinu. Þessi breyting felur ekki í sér, eins og sums staðar hefur komið fram, að ríkisstjórn muni engu ráða um vaxtastig í landinu. Eftir sem áður geta ríkisstjórn og Alþingi ráðið miklu um vaxtastigið, t.d. með breyttum reglum um skattalega meðferð á framlögum í atvinnurekstur og með samdrætti ríkisútgjalda.

Sú meginregla á sviði vaxtamála sem hér hefur verið lýst er studd nokkurri reynslu. Á árinu 1984 var bönkum og sparisjóðum fengið í hendur takmarkað vaxtaákvörðunarvald á grundvelli gildandi lagaheimildar. Nú er ljóst að sú stefnubreyting, sem þessi aðgerð fól í sér, hefur skilað árangri. Árið 1984 námu t.d. innlán hjá innlánsstofnunum 27,5% af landsframleiðslu en höfðu árið 1978 farið niður fyrir 20%. Á síðasta ári stefndi áfram í rétta átt í þessu efni og nam þá hlutfall innlána af landsframleiðslu um 30%. Raunaukning innlána árið 1985, þ.e. hækkun þeirra umfram hækkun lánskjaravísitölu, nam 10%. Peningalegur sparnaður í bankakerfinu fer því óðum vaxandi. Íslendingar eiga þó enn töluvert í land til að ná þessum sparnaði á sama stig og þekkist í nágrannalöndum okkar. Þessi staðreynd kemur glöggt fram í tölum frá árinu 1984 sem sýna hlutfall peningamagns af landsframleiðslu á hinum Norðurlöndunum. Er hér um að ræða tölur þar sem peningamagn er skilgreint á þann hátt að það er að meginhluta til sparifé og tölurnar eru þessar:

Í Noregi 54,9%, í Danmörku 49,3%, í Finnlandi 42,5% og í Svíþjóð 56,9%, en þessi tala frá Svíþjóð er frá árinu 1982. Á Íslandi er þetta 28,4% eins og áður segir. Námu innlánin þá 27,5% af landsframleiðslu.

Af þessum sökum er nauðsynlegt að fylgja óbreyttri stefnu á sviði vaxtamála. Einnig kemur til sú staðreynd að mikilvægar breytingar til hins betra hafa orðið á útlánalið bankakerfisins. Á árinu 1985 jukust útlán innlánsstofnana um 30% á móti tæplega 50% aukningu innlána. Raungildi útlána minnkaði því um rúm 3%. Þessi aukning innlána umfram útlán hefur birst í því að lausafjárstaða innlánsstofnana hefur batnað og er það í fyrsta skipti sem slíkt gerist síðan 1980.

Því skal ekki neitað að ýmsir samverkandi þættir hafa haft áhrif á þessa þróun mála. Hins vegar er það ljóst að einn þessara þátta er raunsæ vaxtastefna sem að meginstefnu til hefur verið fylgt frá miðju ári 1984. Sú stefnumörkun sem felst í meginreglu 10. gr. mun koma til með að hafa áhrif á ákvæði laga nr. 56/1960 um bann við okri, dráttarvexti o.fl. Samkvæmt þeim lögum er heimilt í viðskiptum utan innlánsstofnana að áskilja ársvexti sem séu jafnháir tilteknum útlánsvöxtum hjá bönkum og sparisjóðum. Er við það miðað, sbr. 2. gr. laganna, að Seðlabankinn hafi ákveðið vextina. Meginregla 10. gr. er eins og áður segir að innlánsstofnanir ákveði sjálfar sín vaxtakjör. Ber því nauðsyn til að ákvæðum núverandi okurlaga sé breytt til samræmis við þær aðstæður sem skapast við framkvæmd þessarar meginreglu. Hefur verið ákveðið að leggja til að ákvæðin verði færð í frv. til vaxtalaga sem lagt verður fyrir Alþingi innan skamms.

Ákvæði þessa frv. gera ráð fyrir að innlánsstofnanir muni við gildistöku nýrra seðlabankalaga njóta frelsis til að ákveða vaxtakjör sín nema Seðlabanki telji nauðsynlegt að nota heimild sína í 10. gr. seðlabankafrv. Að öðru leyti verði lánamarkaðurinn bundinn í vaxtaákvörðunum sínum af hæstu útlánsvöxtum banka og sparisjóða eins og þeir verða skráðir hjá Seðlabanka á hverjum tíma nema sérlög mæli á annan veg. Verður framkvæmd þessara ákvæða með sama hætti og framkvæmd núgildandi okurlaga hefur verið. Sé farið út fyrir þau mörk sem að framan er lýst er um ólöglegt athæfi að ræða samkvæmt væntanlegu refsiákvæði vaxtalaganna sem er hliðstætt því sem nú er í 6. gr. okurlaganna. Hin nýju ákvæði verða þannig löguð að breyttum aðstæðum án þess að í breytingunni felist breytt mat á refsinæmi þeirrar háttsemi að taka hærri vexti en nú verða leyfilegir samkvæmt hinum nýju reglum. Er því engin ástæða til að ætla að fyrirhugaðar lagabreytingar hafi áhrif á framgang eða úrslit þeirra okurmála sem nú eru í rannsókn.

Þá hefur verið ákveðið að grípa til ýmissa hliðarráðstafana vegna nýskipunar í vaxtamálum. Fela þær í sér aukna neytenda- eða lántakendavernd sem er þannig uppbyggð að hún á ekki að skaða efnahags- og atvinnulíf. Þessar ráðstafanir eru þær sem hér segir:

1. Lagt hefur verið fram á Alþingi frv. til laga um verðbréfamiðlun sem miðar að því að festa í sessi heilbrigða viðskiptahætti í verðbréfaviðskiptum. Þar er einnig gert ráð fyrir að verðbréfamiðlun verði háð eftirliti bankaeftirlitsins.

2. Lagt hefur verið fram á Alþingi frv. til laga um nafnskráningu skuldabréfa.

3. Einhvern næstu daga verður lagt fyrir Alþingi frv. til laga um breyting á samningalögum og mun það hafa að geyma ákvæði um almenna heimild dómstóla til þess að víkja til hliðar eða breyta samningi sem talinn er ósanngjarn eða andstæður góðri viðskiptavenju.

4. Eins og áður segir er frv. til laga um vexti á lokastigi og verður lagt fyrir Alþingi í næsta mánuði. Auk reglna um samningsvexti er m.a. gert ráð fyrir að lögfestar verði ákveðnar reglur um útreikning dráttarvaxta.

5. Í undirbúningi er samningur frv. til laga um breyting á almennum hegningarlögum þar sem gert er ráð fyrir að misneytingarákvæði laganna verði rýmkað og refsivernd gegn hvers konar misneytingu í viðskiptum aukin.

Í sjötta lagi er í athugun hvort rétt sé að setja reglur á grundvelli laga nr. 56/1978, um verðlag, samkeppnishömlur og óréttmæta viðskiptahætti, sem mæli fyrir um upplýsingaskyldu seljenda í afborgunarkaupum.

Af öðrum nýmælum í III. kafla frv. má nefna 11. gr. Þar er fjallað um viðskipti ríkissjóðs við Seðlabankann og hert á ákvæðum núgildandi laga um lántöku ríkisins úr bankanum. Er gert ráð fyrir að lán, sem ríkissjóður tekur hjá bankanum, skuli greiðast upp innan þriggja mánaða frá lokum viðkomandi fjárhagsárs með lántöku og/eða annarri fjáröflun utan Seðlabankans.

Í IV. kafla frv. er fjallað um bankaeftirlitið. Í núgildandi lögum er fjallað um þá starfsemi í einni lagagrein en frv. markar starfssvið eftirlitsins með fimm greinum. Samkvæmt þessum ákvæðum er áfram gert ráð fyrir að bankaeftirlitið sé starfrækt innan Seðlabankans. Sú skipan mála er í samræmi við þau sjónarmið sem njóta nú mests fylgis erlendis og það ber að viðurkenna að eftirlitið getur í störfum sínum haft veigamikinn stuðning af Seðlabankanum.

Á hinn bóginn eru bein tengsl eftirlitsins og viðskrn. efld og er það gert með tvennum hætti. Annars vegar skipar ráðherra forstöðumann eftirlitsins, en hann er nú ráðinn af bankastjórn Seðlabankans. Hins vegar er sett á stofn sérstök samstarfsnefnd ráðuneytis og Seðlabanka sem fær það hlutverk að fylgjast með störfum eftirlitsins. Með þessu móti er leitast við að tengja ráðuneytið beint við bankaeftirlitið en tengsl þessara tveggja aðila hafa lengst af einkum farið fram með milligöngu stjórnar Seðlabanka.

Samkvæmt ákvæðum IV. kafla skal bankaeftirlitið leggja sérstaka áherslu á að fylgjast með því að útlán og aðrar skuldbindingar viðskiptaaðila gagnvart innlánsstofnun séu í samræmi við þá áhættu sem felst í viðskiptunum, m.a. með hliðsjón af eigin fé stofnunarinnar. Verður að skoða þetta ákvæði í tengslum við þau fyrirmæli viðskiptabankalaga og sparisjóðalaga að bankaráð og sparisjóðsstjórnir skuli setja reglur um þessi atriði. Er hér leitast við að tryggja að útlán innlánsstofnunar til eins og sama aðila eða skyldra aðila verði ekki óhæfileg miðað við eigið fé stofnunarinnar án þess að það sé gert á þann hátt að skaði viðskipta- og atvinnulíf.

Í þessu sambandi er fróðlegt að skoða eigið fé bankakerfisins. Síðustu tölur, sem liggja fyrir hjá bankaeftirlitinu, eru frá 31. des. 1984. Þá nam eigið fé viðskiptabanka og sparisjóða samtals 3,3 milljörðum kr. Þar af var eigið fé ríkisviðskiptabanka 2,1 milljarður kr., eigið fé sparisjóðanna var rúmlega 600 millj. kr., en tæpar 600 millj. hjá hlutafélagabönkunum.

Miðað við ákvæði 36. gr. laga nr. 86/1985, um viðskiptabanka, er hlutfall eigin fjár viðskiptabanka af niðurstöðutölu efnahagsreiknings svo sem hér segir:

Landsbanki Íslands 5,7%, Búnaðarbanki Íslands 10,7%, Útvegsbanki 5,7%, Iðnaðarbanki Íslands hf. 7,8%, Samvinnubanki Íslands hf. 11,8%, Verslunarbanki Íslands hf. 14,9% og Alþýðubankinn hf. 7,9%.

Að meðaltali var því eiginfjárhlutfall viðskiptabanka 6,9% í árslok 1984. Hjá sparisjóðum nam þetta meðaltal 12,5% í árslok 1984, sé miðað við ákvæði 40. gr. laga nr. 87/1985 um sparisjóði.

Í IV. kafla frv. er gert ráð fyrir að bankaeftirlitið geti gefið innlánsstofnunum fyrirmæli um að þær veiti eftirlitinu tilteknar upplýsingar, þar á meðal um eigið fé á þann hátt sem það ákveður. Í því sambandi má geta þess að ráðuneytið mun mjög fljótlega gefa út reglur um gerð ársreikninga á grundvelli laga um viðskiptabanka og sparisjóði og hafa þær reglur verið undirbúnar af bankaeftirlitinu.

Loks hefur frv. að geyma nákvæmar reglur um hvernig bankaeftirlitið skuli bregðast við ef í ljós kemur að innlánsstofnun fylgir ekki lögum eða öðrum reglum sem gilda um starfsemi stofnunar eða eftirlitið telur rekstur hennar með öðrum hætti óheilbrigðan. Getur bankaeftirlitið við slíkar kringumstæður skipað viðkomandi stofnun eftirlitsmann sem samkvæmt frv. fær víðtækar heimildir til að kanna gögn stofnunarinnar. Einnig getur bankaeftirlitið gripið til viðurlaga gagnvart innlánsstofnun, svo sem dagsekta, refsivaxta eða sérstakrar bindingar á innlánsfé, sbr. 4. málsgr. 18. gr. og 42. gr. frv.

Í V. kafla frv. er fjallað um gengismál og erlend viðskipti. Samkvæmt ákvæðum þessa kafla er áfram gert ráð fyrir að ákvörðun um gengi krónunnar verði í höndum Seðlabankans en háð samþykki ríkisstjórnar.

Í VI. kafla frv. er fjallað um hagskýrslugerð Seðlabankans og eru þau ákvæði að mestu óbreytt frá gildandi lögum.

Í VIL kafla er fjallað um stjórn bankans. Þar er einkum um þrjár breytingar að ræða:

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að bankastjórar verði ekki ráðnir til lengri tíma en sex ára í senn en endurráðning sé heimil. Er hér um sams konar breytingu að ræða og nú hefur öðlast gildi gagnvart bankastjórum ríkisviðskiptabankanna.

Í öðru lagi eru möguleikar bankastjóra og aðstoðarbankastjóra til að gegna aukastörfum utan Seðlabankans þrengdir frá því sem nú er. Eins og málum háttar til nú geta bankastjórar sinnt slíkum störfum að fengnu samþykki viðskrh. en samkvæmt frv. verður slíkt aðeins heimilt sé um bein lagafyrirmæli að ræða eða um sé að ræða stofnun sem Seðlabankinn á aðild að. Þess ber hins vegar að gæta að þessu ákvæði er ekki ætlað að koma í veg fyrir að seðlabankastjórar eða aðstoðarbankastjórar taki þátt í starfi ýmiss konar áhugamannafélaga eða svipaðra stofnana.

Í þriðja lagi er í þessum kafla að finna það nýmæli að ráðherra skipi sérstakan löggiltan endurskoðanda hjá Seðlabankanum.

Í VIII. kafla frv. er fjallað um reikningsskil og er þar m.a. gert ráð fyrir að ráðherra setji nánari reglur um reikningsskil Seðlabankans og gerð ársreiknings að fengnum tillögum bankaráðs. Við gerð þessara reglna mun þess verða gætt að reglurnar hafi að geyma ákvæði sama efnis og nú er að finna í lögum nr. 36/1983 en þau munu falla úr gildi verði frv. samþykkt óbreytt sem lög frá Alþingi. Í þessum kafla er einnig að finna ákvæði um skattlagningu Seðlabankans. Er gert ráð fyrir að Seðlabankinn greiði skatt til ríkissjóðs sem nemi 50% af meðalhagnaði síðustu þriggja ára.

Í IX. kafla frv. er ákvæði um þagnarskyldu starfsmanna bankans og undanþágu bankans frá skattlagningu að öðru leyti en greint hefur verið hér frá áður.

Í X. og síðasta kafla frv. er fjallað um gildistöku þess og er gert ráð fyrir að lögin öðlist gildi 5. maí á þessu ári. Jafnframt er í þessum kafla gert ráð fyrir að ráðherra gefi út reglugerð um Seðlabankann þar sem sett verði nánari ákvæði á grundvelli nýrra laga.

Herra forseti. Ég hef nú lokið við að fara yfir það frv. til laga um Seðlabanka Íslands sem hér er til umræðu. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði vísað til hv. fjh.og viðskn. að lokinni þessari umræðu.