06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2382 í B-deild Alþingistíðinda. (1988)

19. mál, málefni myndlistamanna

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Seint á síðasta þingi flutti ég ásamt þremur öðrum þm. Alþb. till. til þál. um málefni myndlistarmanna. Till. komst þá til nefndar, en fékk enga meðferð vegna þess hvað hún kom seint fram á þinginu.

Þessi till. er flutt í framhaldi af myndlistarþingi vorið 1985 sem Samband ísl. myndlistarmanna beitti sér fyrir. Var þingið haldið undir yfirskriftinni „Myndlist sem atvinna“.

Till. til þál., sem flutt er af mér ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, Hjörleifi Guttormssyni og Ragnari Arnalds, er á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa í samvinnu við Samband ísl. myndlistarmanna nefnd er vinni að tillögum um úrbætur í hagsmunamálum myndlistarmanna.

Bendir Alþingi á eftirfarandi atriði sem rétt er að nefndin hafi til hliðsjónar:

1. Að undirbúin verði stofnun launasjóðs myndlistarmanna með tekjum eins og bent var á í ályktun myndlistarþings vorið 1985.

2. Að fullgild aðild Íslands að Flórens-sáttmála varðandi flutning listaverka milli landa verði tekin til athugunar og ákveðin á næsta þingi.

3. Að samin verði drög að lagafrv. sem tryggi betur en nú er gert að myndlistarmenn fái notið réttar síns samkvæmt höfundalögum.

4. Að ákveðið verði hvernig ríkið styður framvegis Listasafn Sigurjóns Ólafssonar.

5. Að sveitarfélög taki fullan þátt í átaki til að efla myndlistarstarfsemi.

6. Að Listskreytingasjóður fái það fjármagn sem honum er ætlað skv. lögum.

7. Að farið verði yfir tillögugerð myndlistarmanna frá síðustu árum og þær tillögur hagnýttar sem nefndin kemur sér saman um.

Nefndin ljúki störfum svo fljótt að unnt verði að taka álit hennar til meðferðar á næsta löggjafarþingi.“ Þannig hljóðar tillagan, herra forseti, og tilgangur hennar er að koma málefnum myndlistarmanna á dagskrá hv. Alþingis. Þau hafa ekki mikið verið rædd hér á undanförnum árum nema lítillega í tengslum við lögin um Listskreytingasjóð. Ég tel að það sé eðlilegt að þessi þáttur listsköpunar hér á landi fái umræðu og meðferð þannig að Alþingi fái kost á því að taka afstöðu til einstakra þátta þessara mála.

Í grg. sem fylgir till. eru birtar ályktanir og ábendingar myndlistarþings frá vorinu 1985. Í þessari ályktun segir m.a., með leyfi forseta:

„Myndlistarþing 1985 telur hag myndlistar standa höllum fæti miðað við aðrar listgreinar. Þrátt fyrir einstæðan áhuga almennings á myndlistum eru listasöfn enn í fjársvelti og geta því ekki framfylgt lögum sínum. Hráefni og tæki til myndlista hafa verið tolluð árum saman meðan aðrir listgreinar fá niðurfellingu gjalda. Höfundaréttur er enn ekki virtur sem skyldi og ekki tekið tillit til myndlista í gerðardómi vegna ljósritunar kennsluefnis í skólum. Þörfum fyrir vinnustofur hefur lítið sem ekki verið sinnt.

Myndlistarþing telur þó brýnast mála að stofnaður verði launasjóður myndlistarmanna til að jafna hag þeirra svo að fleiri geti nýtt menntun sína og kunnáttu að fullu. Nú vinnur þingskipuð nefnd að heildarendurskoðun sjóða vegna lista. Bindur þingið vonir við starf hennar og væntir leiðréttinga fyrir myndlistarmenn.

Vegna kröfu um stofnun launasjóðs myndlistarmanna vísar myndlistarþing til hliðstæðra sjóða í öðrum listgreinum og beitir sömu rökum og voru fyrir stofnun þeirra. Bendir þingið á ýmsar leiðir til fjáröflunar í slíkan sjóð, m.a. söluskatt af endursölu listaverka á uppboðum og söluskatts af efni til listiðju. Öðrum tillögum til tekjuöflunar í sjóðinn, svo sem ákveðnum hundraðshluta af sölu listaverka á sýningum og greiðslum fyrir höfundarétt verka í opinberri eigu, vísar þingið til nánari umfjöllunar Sambands ísl. myndlistarmanna.

Myndlistarþing lýsir ánægju sinni vegna stofnunar menningarsjóða sveitarstjórna og fyrirtækja. Jafnframt hvetur myndlistarþing þau bæjar- og sveitarfélög, sem bolmagn hafa til, að taka upp þann hátt Reykjavíkurborgar að veita árlega starfslaun listamanns. Þingið lýsir ánægju sinni yfir starfslaunum Reykjavíkurborgar til myndlistarmanns, en mælist til að þeim verði fjölgað og um þau farið að lögum varðandi launatengd gjöld.

Þingið telur að Íslandi beri nú þegar að gerast fullgildur aðili að Flórens-sáttmálanum um tollfrjálsan flutning listaverka milli landa, en tollhömlur hafa skapað mikinn vanda í sýningum íslenskra listamanna erlendis.“

Í greinargerð myndlistarþings segir enn fremur: „Myndlistarþing ítrekar ályktun frá þinginu frá 1981 um að of hægt miði til þess að myndlistarmenn fái notið réttar síns samkvæmt höfundalögum. Enn búa myndlistarmenn við það óréttlæti, einir listamanna, að ekkert fast umsamið endurgjald er fyrir birtingu hugverka þeirra á opinberum vettvangi. Við slíkt verður ekki unað öllu lengur.

Myndlistarþing beinir þeim tilmælum til stjórnar Sambands ísl. myndlistarmanna að könnuð verði réttarstaða myndlistarmanna varðandi greiðslur fyrir ljósritun á hugverkum þeirra í skólum í kjölfar gerðardóms þess er féll hinn 4. maí 1984 um greiðslu ríkisins til höfunda vegna ljósritunar.

Myndlistarþing knýr á um það að við stjórnun og rekstur listasafna skuli fræðileg menntun á sviði myndlistar gerð að skilyrði. Forstöðumenn séu ráðnir tímabundinni ráðningu og til stjórnunar og stefnumótunar, en ekki sem framkvæmdastjórar stjórnar heldur hafi sér til fulltingis ráðgjafarnefnd.

Rekstur sölu- og sýningasala myndlista má heita nýr hérlendis, en þeir hafa þegar sannað hlutverk sitt í menningarlífi og listmiðlun. Þess er vænst að viðkomandi yfirvöld veiti nauðsynlega fyrirgreiðslu svo að þeir megi gegna hlutverki sínu.

Myndlistarþing 1985 fagnar stofnun Listasafns Sigurjóns Ólafssonar og skorar jafnframt á stjórnvöld ríkis og borgar að styðja þetta merka framtak einart og afdráttarlaust svo að hús Sigurjóns Ólafssonar fái að standa óhögguð á sínum stað á Laugarnesi með því safni listaverka er hann skildi þar eftir sig. Því aðeins væri það þjóðinni til sæmdar að hér væri vel stutt að, svo sem sæmir minningu þessa mikla listamanns og brautryðjanda.

Myndlistarþing 1985 fagnaði stofnun Listskreytingasjóðs ríkisins, en að gefnu tilefni skorar þingið jafnframt á stjórnvöld að þau virði lög um að 1% af byggingarkostnaði ríkisins fari til sjóðsins og gæti þess að fé til sjóðsins verði ekki skert. Jafnframt er skorað á sveitarfélög að taka fullan þátt í fjármögnun sjóðsins, enda eiga þau hagsmuna að gæta og eiga fulltrúa í stjórn Listskreytingasjóðs.

Jafnframt er athygli borgar- og bæjaryfirvalda vakin á því að á síðustu árum hefur mjög dregið úr kaupum höggmynda fyrir opinbera staði.

Myndlistarþing mælist til þess að skipuð verði nefnd til að kanna hvaða kostir séu á húsnæði fyrir vinnustofur listamanna í eldri hverfum borgarinnar. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar frá Sambandi ísl. myndlistarmanna, Arkitektafélagi Íslands, menntmrn. og Reykjavíkurborg.

Því er beint til skipulagsyfirvalda að þau geri ráð fyrir lóðum á nýbyggingarsvæðum þar sem reist verði íbúðarhús með vinnustofum fyrir listamenn. Myndlistarþing krefst þess af viðkomandi aðilum að heiðursbústað Jóhannesar Kjarvals á Seltjarnarnesi verði skilað aftur og húsið nýtt svo að sem bestum notum komi fyrir myndlist. Aðeins þannig verði upphaflegri ætlun hússins fullnægt. Jafnframt gerir þingið þá kröfu að greitt verði fyrir afnot hússins aftur í tímann og gæti féð verið framlag til launasjóðs myndlistarmanna.

Myndhöggvarafélagið í Reykjavík hefur lengi stefnt að því að innrétta gestavinnustofu í húsnæði sínu að Korpúlfsstöðum. Sakir fjárskorts hefur ekki verið unnt að ganga svo frá húsnæðinu að sæmandi sé að bjóða það gestum. Því ályktar myndlistarþing að borgaryfirvöld í Reykjavík ættu að veita styrk til þessa verkefnis.

Stjórn myndlistarþings vill koma því á framfæri að bygging gestavinnustofu fyrir erlendan listamann á vegum Norrænu myndlistarstöðvarinnar er vel á veg komin í Hafnarborg í Hafnarfirði og talsverðu fé hefur verið varið til hennar frá Norræna menningarsjóðnum. Ísland hefur verið nokkuð seint á sér að fullnægja þessari kvöð sem nú er létt af ríkissjóði. Hlýtur því að teljast eðlilegt að nokkuð komi frá opinberum aðilum á móti.“

Á fyrsta degi þessa árs flutti Sigurður A. Magnússon rithöfundur ræðu sem vakti mikla athygli. Þar gagnrýndi hann stjórnvöld, Alþingi og ríkisstj., ákaft fyrir skort á stefnumótun í menningarmálum. Við meðferð lánsfjáráætlunar fyrir árið 1986 kom það fram að framlög til lista og menningarmála hafa lækkað sem hlutfall af fjárlögum úr um það bil 0,47% í 0,35% . Ég held að þetta sé verulegt áhyggjuefni og ég tel að það sé nauðsynlegt fyrir Alþingi að gera sér grein fyrir því að það er margt sem skiptir máli og margt sem þarf að taka á, einnig þeir þættir menningarmála sem hér eru gerðir að umtalsefni.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að núverandi ríkisstj. hafi stefnu í menningarmálum. Sú stefna kemur fram í niðurskurði framlaga til menningarmála. Það er stefna sem ég get fyrir mitt leyti ekki fallist á því tilgangurinn með öllu okkar striti og starfi, bæði hér og annars staðar, er auðvitað sá að þjóðin geti átt gott menningarlíf.

Ég vil taka það fram að lokum, herra forseti, í tilefni af þessari till. að Alþingi hefur þegar ákveðið fyrir árið 1986 að styrkja nokkuð Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og hæstv. fyrrverandi menntmrh., Ragnhildur Helgadóttir, beitti sér fyrir því að á síðasta ári var varið nokkru fé í aukafjárveitingu til Listasafns Sigurjóns Ólafssonar. Það er þess vegna ljóst að ríkisstj. og Alþingi hafa í rauninni þegar ákveðið að taka þetta dýrmæta safn undir sinn verndarvæng og hjálpa til við að tryggja að þetta safn fái að njóta sín framvegis.

Ég vil einnig að allrasíðustu benda á það, herra forseti, að á síðasta þingi fór hér fram dálítil umræða um Launasjóð rithöfunda. Þar kom fram að framlögin í Launasjóð rithöfunda eru u.þ.b. 1/10 af öllum söluskatti af bókum sem innheimtur er hér á landi. Þannig eru rithöfundar skattlagðir verulega í ríkissjóð með stórfelldum upphæðum upp á tugi milljóna króna umfram það sem rennur til þeirra aftur í gegnum Launasjóð rithöfunda.

Í umræðum um þetta mál á síðasta þingi tóku hæstv. þáverandi menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir og hv. þm. Halldór Blöndal mjög vel í þær ábendingar sem fram hafa komið um þessi efni og undir forustu hv. þm. Halldórs Blöndals hefur starfað þingskipuð nefnd að heildarendurskoðun sjóða vegna lista.

Hæstv. núverandi menntmrh. boðar veikindaforföll í dag þannig að ekki er kostur á að inna hann eftir því hvað líður starfi þessarar nefndar, en kannske forveri hans vildi vera svo vinsamlegur að segja okkur af því hvernig þessi mál standa, hvaða áform ríkisstj. hefur í þessum efnum og hvers er að vænta frá hennar hendi varðandi þessa heildarendurskoðun.

Herra forseti. Ég hygg að það sé í samræmi við hin nýju og breyttu þingsköp að ég leggi til að þessari till. verði vísað til hv. félmn.