06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2386 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

19. mál, málefni myndlistamanna

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir þátttöku í þessum umræðum og þær ábendingar sem hún kom með varðandi það sem þegar hefur verið unnið að og er í gangi í þessum efnum.

Það er auðvitað alveg rétt hjá hæstv. ráðh. að hér er um að ræða hugmyndir sem fram komu á myndlistarþingi vorið 1985. Tilgangurinn með því að flytja þetta mál er fyrst og fremst sá að reyna að vekja upp einhverja umræðu í þinginu um málefni myndlistarmanna. Ég geri ráð fyrir að það sé rétt hjá hæstv. ráðh. að þm. úr öllum flokkum vilji gjarnan takast á við mál af þessu tagi. Þá er kostur á því í framhaldi af þessari umræðu hvort sem það er nákvæmlega í formi þessarar till. eða verulega breyttrar till. Það skiptir mig í rauninni engu. Það sem mér finnst skipta mestu máli er að Alþingi sýni þessum þætti okkar þjóðlífs sóma. Það er sjaldgæft að rætt sé um myndlistarmálefni hér á hv. Alþingi. Satt að segja man ég ekki eftir því að það hafi oft gerst þau ár sem ég hef setið hér.

Ég heyrði ekki betur en hæstv. heilbr.- og trmrh. væri að nefna þann möguleika að umræðunni yrði frestað þar til hæstv. menntmrh. væri viðstaddur. Mér finnst það eðlilegt því mér er einnig kunnugt um að hæstv. fyrrverandi menntmrh., Ingvar Gíslason 1. þm. Norðurl. e., mun hafa haft hug á því að taka þátt í þessari umræðu. Ég vil því leyfa mér að beina þeirri ósk til hæstv. forseta að umræðunni verði frestað ef kostur er þannig að henni megi halda áfram á næsta fundi.