06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (1999)

204. mál, bifreiðamál ríkisins

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 392 um að fella úr gildi ákvæði 10. gr. reglugerðar um bifreiðamál ríkisins nr. 190 1985.

Bifreiðamál ráðherra og bankastjóra hafa alloft verið til umræðu á hv. Alþingi. Ég hygg að flestir hv. alþm. geti verið mér sammála um að þær umræður, sem fram hafa farið á Alþingi, og þær till., sem fluttar hafa verið um bifreiðamál bankastjóra og ráðherra sem og úrslit þeirra mála, beri þess glöggt vitni að vilji Alþingis hefur verið að fella niður bifreiðafríðindi ráðherra og embættismanna. Þess vegna er það afar einkennilegt, svo að vægt sé til orða tekið, að í kjölfar mikilla umræðna fyrri partinn á síðasta ári, sem og þingmála sem fólu í sér að fella niður bifreiðafríðindi ráðherra og bankastjóra, skuli framkvæmdavaldið gefa út reglugerð sem nánast felur í sér að ráðherrar og bankastjórar haldi sínum bílafríðindum þótt í nokkuð breyttu formi sé.

Í grg. með þessari þáltill. er að nokkru rakin saga þessara mála hér á Alþingi. Þar er minnt á stjfrv., sem flutt var á 100. löggjafarþingi, um að fella niður heimild í tollskrá um niðurfellingu aðflutningsgjalda af bifreiðum ráðherra. Væntanlega hefur þetta stjfrv., sem hæstv. þáverandi fjmrh. Tómas Árnason mælti fyrir, verið flutt með samþykki allra ráðherra í ríkisstj.

Rök ríkisstj. fyrir flutningi þessa frv. á sínum tíma voru einföld og skýr, en í grg. með frv. kom eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

"Ríkisstj. telur óeðlilegt að ráðherrar fái bifreiðar, er verði einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en gilda í landinu.“

Það er nokkuð sérkennilegt að hæstv. forsrh. Steingrímur Hermannsson, sem sæti átti í þessari ríkisstj., sem taldi þá, fyrir fimm árum, að óeðlilegt væri að ráðherrar fái bifreiðar, er verði einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en almennt gilda í landinu, skuli nú, þegar hann hefur forustu fyrir ríkisstjórn fimm árum síðar, leggja blessun sína yfir reglugerð sem felur í sér gjörbreytt viðhorf hans til þessara mála. Ég tel að það hljóti að liggja í augum uppi að þegar þáverandi ríkisstj. leggur fram á Alþingi 1979-1980 frv. um að hætt verði að veita ráðherrum undanþágu frá greiðslu aðflutningsgjalda af bifreiðum með þeim rökum að ríkisstj. telji óeðlilegt að ráðherrar fái bifreiðar, er verði einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en almennt gilda í landinu, þá hafi varla vakað fyrir ríkisstj. að með öðrum hætti yrði fundin leið til að ráðherrar gætu haldið ígildi fyrri fríðinda. Frv. þetta náði ekki fram að ganga, en sýnir þó ljóslega hver afstaða ríkisstj. til þessara mála var á þeim tíma.

Tvö önnur þingmál má nefna af sama toga. Á 106. löggjafarþingi fluttu þm. Alþfl. þáltill. um afnám bílafríðinda embættismanna og var hún samþykkt í maí 1984. Á 107. löggjafarþingi fluttu þm. Alþfl. frv. til laga um breytingu á lögum um tollskrá þess efnis að fella úr gildi ákvæði í tollskrá um bifreiðafríðindi ráðherra.

Nauðsynlegt er að rekja í nokkrum orðum meðferð þessa frv. hér á hv. Alþingi og í framhaldi af því reglugerðarsetningu framkvæmdavaldsins sem nú er í gildi því einsýnt er að með útgáfu þeirrar reglugerðar hafi framkvæmdavaldið gengið í berhögg við vilja Alþingis í þessu efni.

Frv. um að fella úr gildi ákvæði í tollskrá um bifreiðafríðindi ráðherra hlaut þá afgreiðslu á hv. Alþingi að meiri hluti fjh.- og viðskn. lagði til 19. apríl 1985 að frv. yrði vísað til ríkisstj. með þeim rökum í fyrsta lagi að fjmrh. hefði ákveðið að leggja fram frv. til tollalaga, en í því frv. yrði felld niður heimild um niðurfellingu aðflutningsgjalda af bifreiðum ráðherra, og í öðru lagi að reglugerð væri í undirbúningi þar sem þegar í stað yrði tekið fyrir veitingu slíkra fríðinda. Ég tel því ljóst í ljósi þessarar afstöðu sem og ályktunar Alþingis um afnám bílafríðinda embættismanna að vilji Alþingis sé afdráttarlaus um að afnumin verði þau bifreiðafríðindi sem ráðherrar og embættismenn ríkisstofnana njóta og það hafi varla hvarflað að þm. að framkvæmdavaldið gæfi út reglugerð nokkrum dögum síðar sem fæli í sér ígildi fyrri bílafríðinda og gengi þar með í berhögg við vilja Alþingis í þessu máli.

Það er, herra forseti, því allsérkennilegt, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, að fyrrverandi fjmrh. gefi út reglugerð örfáum dögum eftir þessa afgreiðslu málsins á þingi eða 30. apríl 1985 sem felur í sér að ráðherrar, ef þeir svo kjósa, geti fengið úr ríkissjóði nánast ígildi þeirra aðflutningsgjalda sem Alþingi og ríkisstj. lýstu yfir nokkrum dögum áður að bæri að afnema.

Í 10. gr. reglugerðarinnar frá 30. apríl 1985, um bifreiðamál ríkisins, er að finna ákvæði er varðar sérstaklega bifreiðafríðindi ráðherra. Í því ákvæði er kveðið á um að ráðherrar hafi tvo valkosti varðandi bifreiðafríðindin: Í fyrsta lagi að hver ráðherra geti fengið til umráða ríkisbifreið sem ríkissjóður ber allan kostnað af. Í öðru lagi eiga ráðherrar þess kost að nýta eigin bifreið til embættisstarfa og ber þá ríkissjóður allan kostnað af rekstri slíkrar bifreiðar. Auk þess greiði ríkissjóður ráðherra fyrningarfé er sé hvert ár 20% af virði bifreiðarinnar. Ég tel að sú regla feli nánast í sér ígildi fyrri bifreiðafríðinda, þ.e. gefi ráðherranum í raun það sama og niðurfelling aðflutningsgjalda gerði áður.

Áætla má, miðað við fyrri reglur sem giltu um eftirgjöf af gjöldum vegna bifreiða ráðherra, að eftirgefin gjöld hafi numið 60% af bílverði. Niðurfellingu á gjöldum gátu ráðherrar fengið á þriggja ára fresti. Það svarar til 20% á ári af bílverðinu sem er sama prósentutala og valin er sem árleg fyrning í nýrri reglu sem nú gildir um bifreiðamál skv. reglugerðinni sem gefin var út 30. apríl s.l.

Herra forseti. Ég taldi nauðsynlegt, þegar svo er komið málum að framkvæmdavaldið gengur með þessum hætti í berhögg við vilja Alþingis, að flytja þetta þingmál, sem ég hér mæli fyrir, þannig að ótvírætt fáist úr því skorið hver sé vilji Alþingis í þessu efni og hvort löggjafarvaldið ætli þegjandi að láta framkvæmdavaldið troða á sér með þeim hætti sem raun ber vitni.

Ekki verður skilið við þessa umræðu án þess að farið sé nokkrum orðum einnig um bílafríðindi bankastjóra þegar reglugerðarsetningin frá 30. apríl s.l. hefur einnig haft þau áhrif að bankastjórar geta haldið ígildi fyrri bílafríðinda þrátt fyrir að Alþingi hafi samþykkt ályktun sem kveður á um að felld verði úr gildi bifreiðafríðindi yfirmanna ríkisstofnana, svo sem ríkisbanka, eða bílafríðindi hliðstæð þeim fríðindum sem ráðherrar njóta.

Ég þarf varla að rifja upp þá umræðu sem átti sér stað á hv. Alþingi á s.l. ári um bílafríðindi bankastjóra. Í stað niðurfellingar á aðflutningsgjöldum ákvörðuðu bankaráðin þeim 450 þús. kr. launaauka sem mikið var gagnrýndur á hv. Alþingi sem annars staðar í þjóðfélaginu. Ég tel að ég muni rétt að allir þingflokkar hér á Alþingi hafi sent frá sér ályktun og gagnrýnt harðlega þennan launaauka bankastjóra. Ég vil, með leyfi forseta, rifja upp ummæli þingflokksformanna Sjálfstfl. og Framsfl. á hv. Alþingi við það tækifæri.

Formaður þingflokks Framsfl. Páll Pétursson las upp ályktun þingflokks Framsfl. Hún hljóðaði svo, með leyfiforseta:

„Þingflokkur framsóknarmanna telur óeðlilegt að greiða bankastjórum ríkisbanka árlega 450 þús. kr. í launaauka vegna bifreiðakaupa. Telur þingflokkur framsóknarmanna rétt að laun og starfskjör bankastjóra og aðstoðarbankastjóra ríkisbankanna verði framvegis ákvörðuð af kjaradómi og mun þingflokkurinn beita sér fyrir viðeigandi lagabreytingu.“

Formaður þingflokks sjálfstæðismanna Ólafur G. Einarsson lýsti einnig við þá umræðu samþykkt þingflokks sjálfstæðismanna, en hún hljóðaði svo, með leyfi forseta:

„Vegna þeirrar samþykktar bankaráða ríkisbankanna að greiða bankastjórunum 450 þús. kr. á ári vegna bifreiðakaupa ályktar þingflokkur sjálfstæðismanna eftirfarandi: Þingflokkurinn telur þessa upphæð vera úr öllu hófi og ekki réttlætanlega þótt bankarnir hafi áður greitt tolla af bifreiðum bankastjóra. Framkvæmd þessarar samþykktar verði frestað eins og viðskrh. óskaði. Endurskoðað verði frá grunni fyrirkomulag bifreiðahlunninda hjá ríkisbönkum og í öllum opinberum rekstri.“

Hér kemur það skýrt fram, t.a.m. hjá þingflokki Sjálfstfl., að þeir telja ekki réttlætanlegt að greiða bankastjórum þennan launaauka, telja hann úr öllu hófi og ekki réttlætanlegan þó að bankarnir hafi áður greitt tolla af bifreiðum bankastjóra. Spurningin er þá hvort þessi launaauki í formi 20% árlegs fyrningarfjár í stað niðurfellingar á aðflutningsgjöldum sé réttlætanlegur að dómi þingmanna Sjálfstfl.

Hæstv. fyrrverandi viðskrh. sendi bankaráðum viðskiptabankanna bréf í byrjun september s.l. þar sem bankaráðunum er falið að endurskoða reglur um bílamál bankastjóra þar sem ákvæði reglugerðar um bifreiðamál, einkum 10. gr. í reglugerð um bifreiðamál ríkisins, verði höfð til hliðsjónar, en það er einmitt ákvæðið um greiðslur á fyrningarfé í stað fyrra ákvæðis um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum.

Svo að mér sé kunnugt hefur a.m.k. eitt bankaráð, bankaráð Landsbankans, þegar samþykkt reglur um greiðslu fyrningarfjár vegna bílakaupa bankastjóra. Mér er ekki kunnugt um hverjar lyktir urðu á því máli í öðrum bankaráðum. Þar sem hér situr formaður bankaráðs Útvegsbankans væri fróðlegt að hann upplýsti Alþingi um það við þessa umræðu hverjar hafi orðið lyktir þessa máls hjá bankaráði Útvegsbankans, þ.e. hvernig með hafi verið farið ósk fyrrverandi viðskrh. um að hafa hliðsjón af þessari reglugerð við ákvörðun bílafríðinda bankastjóra.

En það verður varla annað sagt, herra forseti, en að mikils tvískinnungs gæti í þessu máli af hálfu stjórnarflokkanna. Fyrir liggur ályktun Alþingis um að fella úr gildi bílafríðindi bankastjóra, fyrir liggja ályktanir þingflokka stjórnarflokkanna sem fordæma launaauka bankastjóra sem komi í stað fyrri fríðinda, þ.e. niðurfellingu aðflutningsgjalda á bifreiðum bankastjóra. Samt er gefin út reglugerð sem bankaráðunum er uppálagt að hafa hliðsjón af við ákvörðun á bílafríðindum bankastjóra sem felur í sér launaauka í formi fyrningarfjár til bankastjóra og enginn gerir neina athugasemd við. Spyrja má hvort þessi reglugerð, sem felur í sér ný bílafríðindi til ráðherra og sem viðskrh. felur bankaráðum að hafa hliðsjón af við ákvörðun á bílafríðindum bankastjóra, hafi verið sett með vitund og vilja stjórnarflokkanna.

Það reynir á það nú á hv. Alþingi hvort stjórnarflokkarnir meintu eitthvað með því sem þeir hafa sagt um þetta mál. Það reynir á það nú hvort þessi þáltill., sem felur í sér afnám þessara fríðinda, njóti stuðnings þessara flokka og þar með hvort mark sé takandi á orðum þeirra í þessu efni.

Herra forseti. Það hefði verið æskilegt að hæstv. forsrh. eða hæstv. fjmrh. hefðu verið viðstaddir þessa umræðu vegna þess að ég hefði viljað spyrja þá að því hvort þeir teldu ekki, í ljósi þeirra upplýsinga sem fram fram voru lagðar á Alþingi fyrir jólaleyfi þm. um rekstrarkostnað af bifreiðum ráðherra, tilefni til að taka til gagngerrar endurskoðunar rekstrarkostnað ráðherrabíla. Það stendur sjaldan á hæstv. ráðh. að brýna fyrir þjóðinni ráðdeild og sparnað eða að skera niður laun fólksins í landinu, en þegar kemur að þeim sjálfum að spara, að sýna ráðdeild og sparnað, er litlu fyrir að fara. Það getur varla kallast ráðdeild eða sparnaður að rekstur eins ráðherrabíls geti kostað ríkissjóð nálægt 140 þús. kr. á mánuði eða sjöföld dagvinnulaun verkafólks. Ríkisstj. getur varla ætlast til þess að launafólk taki orð um aðhald og sparnað alvarlega eða að trúverðugt sé að ekki sé hægt að bæta sultarkjör láglaunafólksins í landinu á sama tíma og ráðherrar skammta sér óhófleg fríðindi.

Það er ekki nóg með að rekstur eins ráðherrabíls á mánuði geti kostað sjöföld dagvinnulaun verkafólks heldur er sparnaði ráðherranna ekki meira fyrir að fara en það að dæmi eru einnig um að risna ráðuneyta hækki yfir 200% milli ára og tína mætti einnig fjölmörg dæmi úr fjárlögum sem sýna að lítil ráðdeild er í yfirstjórn ráðuneyta sem algengt er að hækki langt umfram verðlagshækkanir milli ára.

Hæstv. ráðherrar eru ekki viðstaddir þessa umræðu, en ég vænti þess að þegar mál þetta kemur úr nefnd, sem ég verð að vona, svari þeir þessari spurningu.

Þótt kostnaður við ráðherrabíla og rekstur þeirra sé að vísu ekki stórt hlutfall af útgjöldum ríkissjóðs er engu að síður brýnt, ef ríkisstj. vill fá þjóðina til liðs við sig í baráttunni við efnahagsvandann, að ráðherrarnir sýni þjóðinni gott fordæmi og gæti fyllsta aðhalds og sparnaðar í útgjöldum er þá sjálfa varðar. Tvöfalt siðgæði í þessu efni, að brýna fyrir þjóðinni ráðdeild og sparnað en breyta svo á annan veg sjálfir, er ekki til þess fallið að skapa skilning hjá þjóðinni um þann vanda sem við er að glíma. Að því er rekstrarkostnað ráðherrabílanna varðar er því brýnt að fram fari gagnger endurskoðun og leitað verði leiða til að finna hagkvæmara og ódýrara fyrirkomulag á þeim málum.

Ég bendi á að í 3. gr. þessarar reglugerðar er ákvæði sem ég tel að vel sé athugandi að komi í stað bílafríðinda ráðherra sem lagt er til í þessari þáltill. að felld verði úr gildi. Ég vil að lokum, herra forseti, leyfa mér að lesa upp þetta ákvæði reglugerðarinnar sem ég tel að geti komið í staðinn fyrir þau ákvæði sem lúta sérstaklega að bifreiðum ráðherra, en það er almennt ákvæði í 3. gr. sem gildir um þessi mál og hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Þegar hagkvæmt er talið að sinna vissum verkefnum stofnana ríkisins með eigin bifreiðum kaupir ríkið bifreiðar til þessara þarfa og rekur þær á eigin kostnað. Skulu ríkisbifreiðar greinilega auðkenndar og eru einkaafnot starfsmanna af þeim óheimil. Að loknum starfsdegi skulu ríkisbifreiðar skildar eftir í vörslu stofnunar. Þó er forstöðumanni stofnunar heimilt að fengnu samþykki fjmrn., Fjárlaga- og hagsýslustofnunar, að leyfa starfsmanni að hafa slíka bifreið í sinni vörslu utan vinnutíma þegar sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Sérstök akstursbók skal fylgja hverjum ríkisbíl og færir ökumaður í hana hverja einstaka ferð þar sem kemur fram erindi, vegalengd og staður sem ekið er til. Akstursdagbók færist í tvíriti og skal forstöðumanni eða þeim sem hann tilnefnir sent afritið eigi sjaldnar en mánaðarlega til staðfestingar með áritun.“

Hér er um að ræða ákvæði sem almennt gilda um bifreiðamál ríkisins og er það mín skoðun að þessi almenna regla gæti vel gilt að því er ráðherra varðar og að hún muni tryggja sparnað og aðhald að því er útgjöld í þessu skyni varðar.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. allshn.