06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

204. mál, bifreiðamál ríkisins

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Kannske má til sanns vegar færa að umræða um bílamál ráðherra, bankastjóra, ríkisforstjóra og annarra toppa í þjóðfélaginu hér á hinu háa Alþingi verði Alþingi seint til mikils sóma. Satt að segja er það eitt með hvimleiðari og lágkúrulegri fyrirbærum í íslenskum stjórnmálum, bílaleikur ráðherra, sem virðist vera reglulegt fyrirbæri í þjóðmálaumræðu og væri nú æskilegt að menn gætu komið sér niður á einhverja eðlilega og heilbrigða skipan þessara mála í eitt skipti fyrir öll. Það er kannske ekki svo auðvelt.

Ég vil minna á að Alþingi Íslendinga hefur þegar orðið sér til skammar í þessu máli, herra forseti, með leyfi. Rökin fyrir því eru ósköp einföld. Alþingi Íslendinga hefur lýst vilja sínum með samþykkt um að afnema bílafríðindi embættismanna, þ.e. manna eins og forstjóra ríkisfyrirtækja og ríkisbanka, afnema það kerfi að þeir njóti bílafríðinda sem væru sambærileg við bílafríðindi ráðherra. Þetta hefur verið samþykkt, þetta er yfirlýst stefna Alþingis og falin framkvæmdavaldinu til framkvæmda. Með þessa ályktun og með þessa samþykkt hefur ekkert verið gert, ekki nokkur skapaður hlutur.

Tilraun Alþingis til að koma þessum málum á hreint hefur því hreinlega mistekist. Það er ekkert tillit tekið til meirihlutavilja Alþingis í þessu máli. Það er ekkert tillit tekið til þess að meiri hluti í ríkisstjórn á sínum tíma, 1978 og 1979, lagði fram frv. þar sem ráðherrar höfðu afgreitt frá ríkisstjórn stefnu í þessum málum: Ríkisstjórn telur óeðlilegt að ráðherrar fái bifreiðir, er verða einkaeign þeirra, með öðrum kjörum en almennt gilda í landinu. Þetta var yfirlýst stefna ríkisstjórnar þar sem í sátu ráðherrar bæði í þessu tilviki míns flokks og Framsfl., þ.e. stjórnarforustuflokksins hér. Þetta frv. var að vísu ekki afgreitt en eigi að síður skyldi maður ætla að forustumenn t.d. Framsfl. væru skuldbundnir af þessari afstöðu sem hefur hins vegar ekki reynst vera svo í reynd.

Á sínum tíma þegar blöð flettu ofan af bílamálum bankastjóra brugðust forsvarsmenn þingflokka við hver á fætur öðrum með yfirlýsingum um það að þeir teldu þetta óeðlilegt og hver á fætur öðrum töldu þeir að nú væri æskilegt að þessi mál yrðu leyst með kjaradómi. Við það var auðvitað ekkert staðið. Þessu hefur ekki verið vísað til kjaradóms. Málinu var vísað til fyrrv. embættismanns af hæstv. viðskrh. Hann skrifaði skýrslu, þokukennda mjög og lítt skiljanlega. Niðurstaðan varð síðan sú að ráðherra hefur sett reglugerð þar sem sömu hlutunum er komið fyrir bakdyramegin bara með öðru orðalagi. Upphefst umræða um málið á ný, málið er í nákvæmlega sama farinu.

Það sem ég hef um þetta að segja er ósköp einfaldlega þetta: Það er alveg óþarfi og það eru engin rök fyrir því að setja samasemmerki milli bifreiðamála ráðherra og annarra ríkisforstjóra í fyrsta lagi. Hvernig eru þessi bifreiðafríðindi ráðherra tilkomin? Þau eru fyrst og fremst skattamál. Málið er þannig tilkomið að ráðherrum er gefinn kostur á að eignast bifreið með afslætti og fríðindum sem hann getur síðan selt á almennum markaði og notað andvirðið til að mæta gífurlega háum skattgreiðslum eftir að hann lætur af ráðherraembætti vegna þess að það á við um venjulega menn að þeir lækka mjög í tekjum þegar þeir láta af ráðherrastörfum. Þetta var nú hugsunin upphaflega.

Þetta er ekki gott fordæmi. Eðlilegast væri að ef menn telja endilega æskilegt að ríkið eigi og reki bíla fyrir ráðherra verði það gert skv. þeim almennu reglum sem fram komu í máli hv. síðasta ræðumanns, þ.e. um afnotarétt af þessu skv. einhverjum eðlilegum reglum svo sem gerist í öðrum þjóðfélögum, skv. akstursbók o.s.frv. Það er meira en lítið vafasamt að verið sé að setja reglur um stjórnmálamenn sem byggja raunverulega á þeirri hugsun að bæta þeim kjör undir borðið fram hjá eðlilegri framkvæmd skattalaga.

Ráðherrar eru stjórnmálamenn. Þeir koma og fara, eins og þeir segja í embættiskerfinu. Embættismenn eru hins vegar æviráðnir og sitja að sínum fríðindum og hlunnindum ævilangt. Það er ekkert samasemmerki þess vegna þar á milli.

Svo að ég segi það nú enn einu sinni að því er varðar t.d. bankastjóra, það er engin starfsnauðsyn bankastjórum að bankar afhendi þeim bíl. Eðli starfs bankastjóra er að sitja í sínum bönkum og það er ekkert sem kemur í veg fyrir það að þeir hafi nákvæmlega sama máta á og aðrir landsmenn að koma sér til og frá vinnu.

Hinir ábyrgu bankaráðsmenn, sem eru hins vegar að mæla þessu bót, þessu eilífa bakdyrafúski í þessum málum, mundu segja: Er nú ekki óeðlilegt að bankastjóri í ríkisbanka, með alla þá ábyrgð sem á honum hvílir, sé miklu launalægri en forstjóri þeirra fyrirtækja sem hann er að veita fyrirgreiðslu. Forstjóraveldið á Íslandi hefur 150-250 þús. kr. í laun. Bankastjórinn hefur 100 þús. Þess vegna er bankastjóranum bætt þetta upp með allra handa hlunnindum, svo sem eins og að leggja honum til bíl sem hann þarf ekki að hafa neinn kostnað af, sem hann getur eignast á afsláttarkjörum. Hann heldur launum sínum óskertum þó að hann láti af starfi. Hann greiðir ekki í lífeyrissjóð en heldur fullum réttindum.

Þetta er gamla aðferðin í hinu opinbera kerfi að reyna að mæta þeim mun, sem er á kjörum hins opinbera geira og einkageirans, með skattafúsksbakdyraleið sem er öllum til skammar. Þetta á að þurrka út, þetta á að afnema, vegna þess að þetta eru í eðli sínu forréttindi og í skjóli þessara forréttinda þrífst spilling.

Eitt af nauðsynjaverkum stjórnmálamanna er það að þeir njóti trausts. Þessar starfsaðferðir eru vísasti vegurinn til að grafa undan eðlilegu trausti. Ef menn hafa ástæðu til að ætla að pólitískt skipaðir embættismenn séu eilíflega að nota aðstöðu sína til að bæta kjör sín eftir óeðlilegum bakdyraleiðum missa menn auðvitað allt traust á slíkum aðilum.

Hitt er svo annað mál að það er hverju orði sannara sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir sagði um launamun á Íslandi. Hann fer ekki eftir neinum töxtum enda er það allt saman tómt rugl og vitleysa, formsatriði. Launamunur á Íslandi hefur vaxið hrikalega á undanförnum verðbólguárum. Ef gengið er út frá því sem gefnu að það er minnihlutahópur í þjóðfélaginu sem lifir á nöktu lágmarkstaxtakaupi, 16-17 þús. kr., þá er dæmi þess að forstjóraveldi á Íslandi hefur í laun 200-300 þús. kr.

Launamunurinn er orðinn gífurlegur. En hann er ekki sannanlegur með tölum á blaði. Hann kemur ekki í dagsljósið með opinberum gögnum vegna þess að laun og kjör eru sitt hvað. Það er orðin lenska af skattaástæðum að greiða laun fyrst og fremst í formi hlunninda. Þetta á að sjálfsögðu við í einkageiranum þar sem menn taka laun sín í fríðu, í formi þess að hafa verulega risnu, að skrá kostnað útgjaldamegin hjá fyrirtækjum sínum, að láta fyrirtækin eiga og reka bíla, láta fyrirtækin greiða ferðalög, veitingar og annan risnukostnað o.s.frv. eða beinlínis hreinlega neyta þess að gefa ekki upp þau laun sem raunverulega eru greidd.

Samt sem áður - jafnvel með opinberum hætti þegar gerðar eru kjarakannanir, t.d. ýmissa samtaka sérfróðra aðila, ég get nefnt sem dæmi Hagfræðingafélagið -kemur á daginn að menn, sem gegna stjórnunarstörfum í einkageiranum, eru miklum mun betur launaðir en skv. einhverjum töxtum í opinbera geiranum. Þetta vita allir menn.

Laun alþm. eru rúmlega 70 þús. kr. Þá er hann u.þ.b. hálfdrættingur á við venjulegan forstjóra og kannske tæplega það. En þá er á hitt að líta að almenningur í landinu trúir ekki þessum tölum og segir sem svo: Mikill fjöldi stjórnmálamanna bætir sér þetta upp með því að fá umbun fyrir nefndarstörf, þannig að raunveruleg laun þeirra endurspeglast ekki á launaseðli þm. Þau eru miklum mun hærri þegar betur er að gáð.

Þegar nefndakóngaskýrslan er gefin út árlega eru þess dæmi að nefndakóngar stjórnarflokkanna eru með hlunnindagreiðslur sem nema nokkrum hundruðum þús. kr. Mundi þó margur maðurinn alls ekki trúa því í einkageiranum, það mundu a.m.k. vera mörg fyrirtæki sem ekki væru reiðubúin til að greiða þær upphæðir fyrir ráðgjöf margra þessara hv. sérfræðinga nefndakerfisins.

Hvernig á að breyta þessu? Það á að breyta þessu með því í fyrsta lagi að afnema þessi forréttindi, hverju nafni sem nefnist. Það er ekki hægt, það er ekki gerlegt í opinberri stjórnsýslu að koma á umbótum að því er varðar skattundandrátt og skattsvik hér á landi ef skattundandráttaraðferðir vegna kjara eru orðnar ríkjandi vinnubrögð í hinu opinbera kerfi.

Það á m.ö.o. að svipta forstjóraveldi ríkisins að mestu leyti þessum hlunnindum. Ef það veldur síðan því að ekki er hægt að fá hæfa menn til starfa hjá hinu opinbera, þá á að hækka laun þessara manna. En af þessum launum á að greiða skatta skv. eðlilegum forsendum. Ef menn horfast síðan í augu við það að þeir þykjast ekki geta ráðið við skattundandráttar- og fúskkerfið hjá einkageiranum, þá ber að mæta því með því að endurskoða skattakerfið frá rótum.

Herra forseti. Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við það sem ég þegar hef sagt. Lokaorðin eru fyrst og fremst þau: Alþingi hefur þegar mótað stefnu í þessum málum. Það hefur samþykkt þáltill. þar sem það hefur falið framkvæmdavaldinu að afnema þessi fríðindi að því er varðar toppembættismenn. Hér er flutt till. sem er um það að vara við því líka - það er vakin athygli á því - að nota bifreiðafríðindareglugerð ráðherranna til þess að hún gildi líka um alla aðra embættismenn kerfisins. Ráðherrar eru reyndar ekki embættismenn. Þeir eru stjórnmálamenn. Að þessu leyti er þessi þáltill. þörf af því að hún er um það að taka einhverja prinsippafstöðu og einfalda flókið, stórgallað og spillt kerfi sem nú er ríkjandi.