10.02.1986
Efri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2416 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

106. mál, greiðsluskilmálar húsnæðislána

Davíð Aðalsteinsson:

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Ég mun ekki gera að umræðuefni húsnæðismálin almennt í minni örstuttu tölu um þetta frv. Það sem fyrst vekur athygli mína varðandi þetta frv. er hversu magurt það er, hversu ógreinilegt það er í framsetningu. Ég get að sjálfsögðu tekið undir efni þessarar sem ég vil kalla viljayfirlýsingar. Frv. er raunar ekkert annað en viljayfirlýsing. Ég held fyrir mitt leyti að það sé afskaplega örðugt að framkvæma það sem fram er sett í frv. á grundvelli frv. 1. gr. frv. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Tilgangur laga þessara er að tryggja réttláta greiðslubyrði af öllum lánum einstaklinga sem tekin eru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin afnota.“

1. gr. lokið. Síðan skyldi maður ætla að það kæmi sæmileg skilgreining á því með hvaða hætti ætti að ná umræddu markmiði:

„2. gr. Greiðslur af lánum sem lánastofnanir veita eða hafa veitt einstaklingum vegna öflunar eigin íbúðarhúsnæðis skulu miðast við að heildargreiðslubyrði hjá lántakanda verði ekki meiri en svo að hann geti framfleytt sér og sínum samtímis því að endurgreiða lánin á 40 árum.“

Að framfleyta sér og sínum. Þá spyr ég: Við hvað er átt? Er þar átt við einstaklinginn sjálfan sem kaupir íbúðina, hans nánustu og jafnframt þá sem næst koma að fjölskylduböndum? Nú er ég ekki að hártoga. Nú er ég með það í huga að þegar þarf að framkvæma lög verða menn að lesa það út úr þeim sem framkvæma skal og hvernig á að vinna verkið.

Í frv., hvað sem líður útskýringum hv. flm., er ekki skilgreint um hvaða lánastofnanir er að ræða, hvort það eru allir viðskiptabankarnir, sparisjóðirnir, Húsnæðisstofnun, lífeyrissjóðirnir o.s.frv. Það er ekkert skilgreint hvort hér er um að ræða allar þær stofnanir sem lána með einum eða öðrum hætti til húsbyggjenda í landinu.

Vegna frv. mætti einnig vekja athygli á að hv. flm. getur hvergi, hvorki í lagagreinunum né í grg. né heldur í framsögu sinni, um einhver stærðarmörk í þessu efni. Og ég spyr: Ætlast flm. til að skuldir verði eftir gefnar ef það skyldi verða niðurstaðan að kaupandi húsnæðis geti ekki framfleytt sér og sínum, hvað sem það nú táknar, samtímis því að greiða lánin niður á 40 árum? Það má vel vera að í fjölmörgum tilvikum standi húsbyggjandi frammi fyrir því eftir atvikum hvaða framfærslustig er lagt til grundvallar. Það hef ég einfaldlega ekki hugmynd um og það hefur ekki komið fram í máli hv. flm.

Ég sagði í upphafi míns máls að ég gæti fellt mig við þetta sem viljayfirlýsingu, en lagafrv. er þetta ekki. Að mínum dómi er það allsendis óframkvæmanlegt eins og það er sett hérna fram.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta frv.