10.02.1986
Efri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2418 í B-deild Alþingistíðinda. (2016)

106. mál, greiðsluskilmálar húsnæðislána

Flm. (Stefán Benediktsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem þetta frv. hefur fengið. Það fer stundum þannig fyrir mönnum þegar lögð eru fram frumvörp sem ekki eru reglugerðir heldur nálgast kannske að verða eitthvað líkt því sem lög eiga að vera, að verða hálfklumsa eða það virtist mér á hv. 5. þm. Vesturl. Allt í einu hætta menn að skilja einföldustu orð og orðasambönd og sjá hættur á hverju horni.

Ég held að ekki þurfi að útskýra fyrir neinum sem hér er inni hvað er lánastofnun. Það er stofnun sem lánar fólki peninga og það að hún lánar fólki peninga stafar yfirleitt af því að henni hefur verið falið að ávaxta sömu peninga í umboði einhverra annarra. Eina stofnunin sem gróflega sker sig úr í því tilviki er náttúrlega Húsnæðisstofnun þar sem þessi sama ávöxtunarkrafa liggur ekki fyrir. Hvað það er að afla eigin húsnæðis held ég að sé nokkuð auðskilið. Þar með ætti að vera öllum nokkuð ljóst að við erum að tala um lán sem lánastofnanir hafa veitt einstaklingum sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið.

Þá komum við að síðari hluta setningarinnar í 2. gr. frv. þar sem segir: „Þessi lán [þ.e. greiðslur af þeim] skulu miðast við að heildargreiðslubyrði lántakanda verði ekki meiri en svo að hann geti framfleytt sér og sínum samtímis því að endurgreiða lánin á 40 árum.“ Við skulum byrja á versta möguleika sem gæti gerst.

Það er að það sitji maður fyrir framan þann sem lánveitingunum stýrir. Þessi maður hefur í raun og veru engar tekjur. Þá er ekki hægt að ætlast til þess að stofnun, sem á að ávaxta annarra manna fé, geti lánað þessum manni. Þar af leiðandi fær þessi maður ekkert lán og þar af leiðandi ber hann heldur enga greiðslubyrði.

Allt frá því að skoða það dæmi verður lánastofnunin, og ég tel að það sé hennar ábyrgðarhlutur, að skoða hvaða tekjur þessi viðkomandi einstaklingur hefur eða fjölskylda hans, þ.e. hann og hans, og hvaða lán hann er þegar með, þ.e. hver er sú greiðslubyrði sem hann þegar þarf að standa undir, og síðan að meta hvaða lán hún geti veitt honum og hvaða greiðslubyrði hún geti boðið honum sem skerði ekki til muna möguleika hans á að framfleyta sér af þeim tekjum sem um ræðir. Einstaklingar sem ekki hafa nægar tekjur til að framfleyta sér og sínum verða náttúrlega að leita. ..(Gripið fram í.) Auðvitað metur lánastofnunin það. Það hlýtur að liggja í hlutarins eðli. Hvers vegna ekki? Það hlýtur að vera samkomulagsatriði lánastofnunarinnar og mannsins sem er að skipta við hana að þau skilji þannig að skiptum að hann hafi nóg eftir til að lifa af en hún hafi samt sem áður getað lánað honum á þeim kjörum sem hann getur staðið við.

Við erum að tala um sjálfsagða hluti og eðlilega. Aftur á móti vitum við að lánastofnanir hér á landi stunda það ekki almennt að skoða greiðslubyrði manna í heild, þ.e. athuga hvaða lán menn eru með í öðrum lánastofnunum, hvaða greiðslubyrði menn eru með í öðrum lánastofnunum og hverju menn geta yfir höfuð áorkað. Auðvitað verður þetta að fara saman. Maður getur staðið með 4-5 lán sem hann þarf að borga af kannske ca. 10 þús. kr. á mánuði. Til þess að bjarga málunum býðst honum eitt lán til þriggja ára upp á 300 þús. Hann þarf að borga með afborgunum og vöxtum og verðbótum langt yfir 100 þús. á ári til viðbótar því sem hann hefur fyrir. Fólk sem hefur eitthvað á milli 20 og 30 þús. kr. í tekjur stendur ekki auðveldlega undir slíku.

Auðvitað leggja viðskiptahættir sem þessir mjög aukna áherslu á að sú fyrirgreiðsla sem fólki býðst hjá því opinbera sé með þeim hætti að fólk þurfi ekki að leita til lánastofnana nema í litlum mæli. Við erum fyrst og fremst að leggja áherslu á að það að koma yfir sig þaki er 40 ára verkefni. Það er æviverkefni. Hér á Íslandi hefur það verið svo á undanförnum árum þegar verst lét, og ég segi verst lét vegna þess að þá var verðbólgan mikil, að menn borguðu húsnæði sitt upp, eins og kallað er, á 5-8 árum. Þetta er fyrirbæri sem þekkist hvergi annars staðar í veröldinni. Þetta var hægt með því að brenna upp sparifé. Nú er þetta ekki hægt þar sem búið er að girða fyrir að hægt sé að brenna sparifé með þeim hætti sem áður var og þess vegna verða menn að leita annarra leiða til að sinna því sjálfsagða mannréttindaverkefni sem það er að koma húsnæði yfir sig og sína.