10.02.1986
Efri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (2017)

106. mál, greiðsluskilmálar húsnæðislána

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég átti þess ekki kost að vera við upphaf þessara umræðna, en ég vil ekki að 1. umr. um málið ljúki svo að ég geti ekki komið því sjónarmiði mínu hér á framfæri að ég tel að í rauninni séum við að ræða þáltill. en ekki frv. Þetta er ekki lagafrv. eins og þetta er samið. Um það er engum blöðum að fletta. Ég held að vinnubrögð við gerð lagafrv. þurfi að vera miklu vandaðri og allt önnur en hér kemur fram.

Í 1. gr. er tilgangur laganna, síðan er almenn stefnuyfirlýsing í 2. gr. og í 3. gr. segir auðvitað: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“ Þessu fylgir svo grg. upp á sjö eða átta línur. Þetta eru vinnubrögð sem ekki eru sæmandi hér á hinu háa Alþingi og þetta frv. , þó að það sé frv. að formi til, er að efni til ekkert annað en þáltill. og ætti sem slíkt að ræðast í Sþ.