10.02.1986
Efri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

236. mál, veiting ríkisborgararéttar

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar á þskj. 464. Í 1. gr. frv. eru talin upp nöfn 19 manna sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt og að mati dómsmrn. uppfylla þau skilyrði sem Alþingi hefur sett fyrir veitingu ríkisborgararéttar á undanförnum árum.

Í 2. gr. eru sömu ákvæði um nafnbreytingar og gilt hafa síðustu árin. Við afgreiðslu laga um veitingu ríkisborgararéttar á s.l. vori var samþykkt ákvæði þess efnis að þeir, sem fengið höfðu ríkisborgararétt með lögum áður en Alþingi hvarf frá þeirri skilyrðislausu kröfu að taka upp íslenskt nafn, gætu fengið nafni sínu breytt þannig að það samræmdist þeim reglum sem settar voru um þá sem ríkisborgararétt fengu með lögunum á s.l. ári. Heimild þessi gilti til loka síðasta árs. Allmargir kusu að nota heimildina eða um 85-90 manns. Ekki er þó lokið afgreiðslu allra umsókna sem bárust.

Við afgreiðslu umsókna samkvæmt þessari heimild kom fram nokkur óánægja hjá þeim sem þannig er ástatt fyrir að sum systkina eru fædd fyrir töku ríkisfangs föður en önnur síðar. Verða þau síðarnefndu að kenna sig til íslenska nafnsins, sem tekið var upp við ríkisfangstökuna, þegar eldri systkin mega nota ættarnafn föðurins. Þykir þessum einstaklingum óeðlileg þessi mismunun milli systkina. Mun ég láta nefnd þeirri sem málið fær til meðferðar í té erindi þessara einstaklinga til athugunar.

Enn fremur mun nefndin að venju fá margar umsóknir sem ráðuneytinu hafa borist en ekki uppfylla öll þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir veitingu ríkisborgararéttar.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.