10.02.1986
Efri deild: 46. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2423 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

240. mál, framkvæmd eignarnáms

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem ég mæli fyrir á þskj. 468 um breytingu á lögum nr. 11 frá 6. apríl 1973 um framkvæmd eignarnáms, er engan veginn nýtt af nálinni. Það hefur verið flutt oft áður, alloft áður a.m.k., í þessari hv. deild, en eigi hefur það enn náð fram að ganga. Enda þótt undirtektir við efni þess hafi verið jákvæðar í hvívetna og enda þótt frv. hafi verið sent að ég hygg öllum oddvitum sveitarstjórna á landinu og hafi þar sömuleiðis fengið hinar jákvæðustu umsagnir hafa menn ekki treysts til að samþykkja þetta hér á hinu háa Alþingi enn sem komið er a.m.k.

Þessu frv. er ætlað að breyta þeim reglum sem gilda við ákvörðun eignarnámsbóta í þá átt að afnema óréttlæti sem flm. telja að nú viðgangist og hafi viðgengist lengi, stuðla að eðlilegri þróun byggðar og gera það að meginreglu laga að ekki skuli taka tillit til verðbreytinga er rekja megi til tilgangs eignarnámstökunnar. Að þessu leytinu er í þessu frv. mörkuð ný stefna frá því sem verið hefur þar sem það miðar að því að tryggja einstaklingum sanngjarnt verð fyrir eignir og tryggja jafnframt mjög ríka hagsmuni samfélagsins.

Við þm. Alþfl. höfum á allmörgum undanförnum þingum flutt frv. til laga um breytingar í þessar áttir, en svo sem ég áðan sagði hefur lagabreyting ekki náð fram að ganga þrátt fyrir jákvæðar undirtektir. Við höfum flutt þetta mál í nokkrum myndum. Í þessari mynd eins og frv. liggur hér fyrir er einkum stuðst við ákvæði norskra laga um framkvæmd eignarnáms og ákvörðun eignarnámsbóta, en þau ákvæði hafa þótt gefast allvel í Noregi.

Það er megintilgangur frv. að tryggja framgang þeirrar stefnu að eignarnámsbætur skuli miða við þá notkun sem eign er í þegar eignarnemi tekur málið til umfjöllunar og tilkynning þar að lútandi er send eignarnámsþola og ekki séu metnar verðbreytingar sem rekja megi til tilgangs eignarnámstökunnar. Það er alkunna, og það er auðvitað nokkur kjarni þessa máls, hverjir eru þeir erfiðleikar sem þéttbýlissveitarfélög hafa átt við að etja þegar hefur þurft að taka land eignarnámi, land sem liggur að þessum sveitarfélögum, vegna eðlilegs vaxtar og þróunar viðkomandi sveitarfélags.

Í grg. með frv. um þetta efni sem var flutt fyrir fáeinum árum var birt erindi eftir Jón G. Tómasson hæstaréttarlögmann þar sem hann fjallaði um ákvörðun eignarnámsbóta. Í erindi sínu sagði hann m.a.:

„Samkvæmt þeim reglum sem taldar hafa verið í gildi hefur eignarnámsþoli vissulega átt möguleika á mikilli hagnaðarvon vegna verðhækkana sem stafa af fjárfestingu eða framkvæmdum hins opinbera. Þetta hefur skapað ójöfnuð og vandamál í þjóðfélagi nútímans sem nauðsynlegt er að leysa. Samhliða því að ríkið og sveitarfélög leggja mikið fjármagn í opinberar framkvæmdir hafa einstakir landeigendur gert háar kröfur um bætur fyrir verðmætisaukningu sem rekja má til þessara sömu framkvæmda. Skattgreiðandinn þarf því ekki aðeins að borga fyrir framkvæmdirnar heldur er einnig gerð krafa um að hann greiði fyrir þá verðhækkun á eigninni sem framkvæmdirnar af sjálfu sér leiða af sér.“

Þessi sjónarmið hafa vissulega reynst sveitarfélögum erfið. Þau hafa haft takmarkaða tekjumöguleika og vaxandi skyldum að gegna, m.a. við undirbúning á nýjum byggingarsvæðum og uppbyggingu á alhliða þjónustukerfi fyrir íbúana þar. Vandamál sem leitt hefur af háu landverði, hvort heldur það byggist á eignarnámsmati eða á samningsverði sem oftast hlýtur að taka mið af áætluðum eignarnámsbótum, hafa leitt til seinkunar á framkvæmdum eða til þess að hagstæðari kosturinn er ekki alltaf valinn. Spurningin sem leita þarf svars við er sú hvort hið opinbera skuli við eignarnám greiða bætur fyrir verðmæti sem það sjálft hefur skapað og leiðir af athöfnum þess, m.ö.o. hvort sækja eigi í vasa skattborgaranna greiðslu fyrir verðmæti sem þeir hafa þegar greitt fyrir og raunar sjálfir skapað.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé ástæðulaust í rauninni að hafa um þetta miklu fleiri orð, en að mati flm. er nauðsynlegt að í þessum lögum séu ákvæði til bráðabirgða er taki til þess þegar eignarnámsbætur skv. þessum lögum reynast lægri en fasteignamat á landinu, þ.e. lægra en það hefur verið næstliðin tíu ár á undan, en fasteignagjöld hafa þá verið greidd skv. fasteignamati. Í því tilviki er gert ráð fyrir að bæta sérstaklega þann mismun sem eignarnámsþoli hefur greitt í fasteignagjöldum á þessu tímabili umfram það sem verið hefði ef fasteignamat hefði verið jafnhátt bótaupphæðinni. Gert er ráð fyrir að þetta bráðabirgðaákvæði gildi í 15 ár frá gildistöku laganna.

Ég sé ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að hafa um þetta fleiri orð, en legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.