10.02.1986
Neðri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2424 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér er til umræðu á sér allsérkennilega sögu og aðdraganda. Árið 1981 var skipuð bankamálanefnd undir forustu hæstv. núv. sjútvrh. Síðan var skipt um formann í nefndinni við stjórnarskipti og hæstv. núv. fjmrh. varð formaður í nefndinni og nefndin skilaði áliti á árinu 1984. Hún skilaði frv. að nýjum seðlabankalögum til hæstv. fyrrv. viðskrh. sem hann hafði í huga að leggja fyrir hv. Alþingi, en þó að frv. væri samið undir handleiðslu formanns Sjálfstfl. og viðskrh. hefði áhuga á að koma frv. fyrir Alþingi sá það aldrei dagsins ljós hér vegna þess að Jóhannes Nordal seðlabankastjóri gat ekki fellt sig við ákvæði frv. eins og það lá fyrir í tillögum nefndarinnar. Hann bannaði ráðherranum að flytja frv. í upphaflegri mynd. Hann hlýddi því. Síðan breytti Seðlabankinn frv. mjög verulega frá tillögum bankamálanefndar og það er það afkvæmi sem liggur hér fyrir, nú flutt af hæstv. ráðherra Matthíasi Bjarnasyni.

Frv. eins og það liggur hér fyrir er gjörbreytt. Í grg. frv. er með hefðbundnum hætti fjallað um einstakar greinar þess, en það ber að gagnrýna sérstaklega hvernig málið er fram lagt af hæstv. viðskrh.

Í grg. eru birt tvö fylgiskjöl, sérálit Lúðvíks Jósepssonar og hv. þm. Kjartans Jóhannssonar um tillögur bankamálanefndar að frv. til l. um Seðlabanka Íslands. Þessi sérálit eiga við frv. eins og bankamálanefndin gekk frá því. Ríkisstj. sá þrátt fyrir þetta ekki ástæðu til þess að birta sem fskj. frv. bankamálanefndarinnar í heild af einhverjum ástæðum. Ég vil gagnrýna þessi vinnubrögð viðskrn. sérstaklega, að koma ekki á framfæri tillögum bankamálanefndarinnar eins og þær litu út, vegna þess að það að birta sérálitin eins og þau koma fyrir gefur auðvitað engan veginn rétta mynd af stöðu mála. Ég ætla að nefna um það þrjú dæmi úr séráliti Lúðvíks Jósepssonar.

Hér segir í fyrsta lagi: „Ég tel ýmsar breytingar, sem í frv. felast, vera til bóta frá gildandi lögum. Þar tilnefni ég sérstaklega þau ákvæði sem miða að því að þrengja verksvið bankans og binda það sem mest við eðlileg seðlabankastörf.“ Þannig leit frv. út þegar það fór frá bankamálanefndinni. Það átti að binda starfssvið Seðlabankans við eðlileg miðbankastörf. Þegar frv. liggur fyrir Alþingi hefur þessu verið breytt.

Í 2. málsgr. 6. gr. segir: „Þegar sérstaklega stendur á má ákveða í reglugerð að Seðlabankinn taki við innlánum frá öðrum peningastofnunum en greinir í 1. málsgr." Það sem er í 1. málsgr. og bankamálanefndin lagði til er tekið aftur í 2. málsgr. sem ríkisstj. nú gerir að sinni tillögu, vafalaust samkvæmt kröfum frá Seðlabankanum.

Í annan stað stendur í séráliti Lúðvíks Jósepssonar: „Þá er ég samþykkur því ákvæði frv. að tengja saman svonefnt bindiskyldufjármagn og endurkaup bankans á rekstrar- og afurðalánum.“ Frv., eins og það liggur hér fyrir, tengir þetta engan veginn saman. Það hefur verið tekið upp annað afurðalánakerfi og samtengingin á milli afurðalána og bindingar fjármagns í Seðlabankanum er gjörsamlega horfin. Samt sem áður er sérálit Lúðvíks Jósepssonar birt, eins og ekkert hafi breyst og hérna séu menn að fjalla um upphaflegar tillögur bankamálanefndarinnar.

Síðan segir í nefndaráliti Lúðvíks Jósepssonar: „Þá tel ég mjög til bóta að herða á reglum um það að bankastjórar Seðlabankans sinni ekki störfum utan bankans.“ Einnig þessu ákvæði hefur verið breytt frá því að bankamálanefndin samdi sitt frv. og sendi það frá sér í upphafi.

Ég tel að framlagning af þessu tagi sé í raun og veru með öllu óeðlileg. Ég tel ástæðu til að gagnrýna hana mjög harðlega og ég geri þá kröfu til ríkisstj. að hún leggi fram sem sjálfstætt fskj. með þskj. 393 álit bankamálanefndarinnar, eins og það var í upphafi. Það er í raun og veru ekkert annað sæmilegt í þessu efni vegna þess að með því að menn lesi sérálit þeirra Kjartans Jóhannssonar og Lúðvíks Jósepssonar er verið að gefa í skyn að í frv. standi annað en þar er, eins og það er nú lagt fyrir Alþingi.

Þá vil ég einnig benda á að bankamálanefndin mun hafa safnað ítarlegum gögnum um bankamál. Hún mun hafa farið yfir og fengið upplýsingar um bankamál í grannlöndum okkar, kostnað við að reka banka í grannlöndum okkar, mannfjölda hér í bankastörfum miðað við nágrannalöndin o.s.frv. Fjöldamargar slíkar tölur munu liggja fyrir einhvers staðar í gögnum bankamálanefndar. En bankamálanefnd hefur aldrei skilað frá sér greinargerð, skýrslu um stöðu bankakerfisins á Íslandi, eins og er auðvitað eðlilegt að krefjast af henni. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Mun hann sjá til þess að bankamálanefndin skili af sér, skili skýrslu til ráðherra og síðan Alþingis um þessi mál?

Ég tel að sú greinargerð sem birtist á vegum bankamálanefndarinnar 1973 sé ein besta heimildin sem til er um starfsemi bankanna hér á landi frá síðari áratugum. Það hefði verið mikill fengur að því að fá hliðstæða skýrslu fyrir þessi ár. 1983, 1984, 1985 og 1986, þegar jafnmiklar breytingar eru að verða í bankakerfinu og raun ber vitni um núna. Það er auðvitað alveg kostulegt ef ráðherrann ætlar að líða formanni bankamálanefndarinnar Þorsteini Pálssyni að skila ekki af sér áliti og greinargerð eins og venja er að nefndir geri og eðlilegt er í þessu efni þegar búið er að leggja umtalsverðan kostnað í gagnasöfnun af ýmsu tagi.

Nei, herra forseti. Seðlabankinn þoldi ekki upphaflegt frv. bankamálanefndarinnar og það var samið nýtt. Þar er um að ræða gjörbreytingu varðandi marga þætti, bindinguna alveg sérstaklega, stöðu bankaeftirlitsins og fleiri atriði.

Kem ég þessu næst að efnisatriðum frv. og ætla áður en ég fer yfir þau lið fyrir lið aðeins að víkja hér að 4. gr. frv. Hún er óbreytt frá gildandi seðlabankalögum. Hún er í raun og veru alveg kjarninn í pólitískri stöðu Seðlabankans í landinu því að þar segir: „Í öllu starfi sínu skal Seðlabankinn hafa náið samstarf við ríkisstj. og gera henni grein fyrir skoðunum sínum varðandi stefnu í efnahagsmálum og framkvæmd hennar. Sé um verulegan ágreining við ríkisstj. að ræða er seðlabankastjórn rétt að lýsa honum opinberlega og skýra skoðanir sínar. Hún skal engu að síður telja það eitt meginhlutverk sitt að vinna að því að sú stefna sem ríkisstj. markar að lokum nái tilgangi sínum.“

Nú hefur það gerst nokkrum sinnum á liðnum árum og áratugum, herra forseti, að það hafa orðið deilur milli ríkisstj. og Seðlabanka, m.a. um framkvæmd vaxtamála. Seint á árinu 1982 gerði Seðlabankinn tillögu um verulega vaxtahækkun. Þáverandi ríkisstj. lýsti andstöðu við þessa vaxtahækkun. Engu að síður ákvað Seðlabankinn að framkvæma þessa hækkun. Ég tel að við slíkar kringumstæður eigi ríkisstj. að ráða úrslitum, ríkisstj. eigi að hafa vald við slíkar kringumstæður, þegar upp kemur ágreiningur af þessu tagi um framkvæmd peninga- og efnahagsmálastefnunnar. Það er óþolandi og óeðlilegt að Seðlabankinn geti tekið fram fyrir hendurnar á ríkisstj. með þeim hætti sem gerst hefur og gert er ráð fyrir í þessu frv. sem er að vísu óbreytt frá gildandi seðlabankalögum sem sett voru í tíð Alþfl. og Sjálfstfl. 1961.

Ég vil síðan víkja að einstökum atriðum í sambandi við þetta frv. og segja í fyrsta lagi: Ég tel það galla á frv. að í því skuli ekki vera ítarlegur kafli um almenna peningamálastjórn. Í raun og veru er hvergi minnst á almenna peningamálastjórn í þessu frv. Ég held að ef slíkur kafli er ekki í seðlabankalögum eigi að vera til sérlög um almenna peningamálastjórn, en Seðlabankinn er auðvitað mjög stór aðili að almennri peningamálastjórn í landinu. Ég vil inna hæstv. viðskrh. eftir því hvaða skoðun hann hefur á þessu atriði varðandi lagaákvæði um almenna stjórn peningamála. Það eru engin slík lagaákvæði til. Seðlabankinn hefur getað stjórnað peningamálum svo að segja eftir sínu höfði. Hann hefur getað tekið sínar ákvarðanir þar og framkvæmt þær jafnvel í blóra við ríkisstj. Þess vegna tel ég að óhjákvæmilegt sé að fá upplýsingar um það hjá hæstv. núv. viðskrh. hvaða hugmyndir hann hefur um almenna peningamálastjórn í landinu. Er hann ánægður með það kerfi sem nú er eða vill hann einhverjar breytingar á því? Vill hann taka það inn í sérlög eða inn í seðlabankalög?

Ég vil í öðru lagi, herra forseti, gagnrýna það alveg sérstaklega að í þessu frv. er gert ráð fyrir að bankaeftirlitið verði eins konar útkjálkastofnun í Seðlabanka. Það er algjörlega óeðlilegt fyrirkomulag. Bankaeftirlitið á að vera sjálfstæð stofnun, óháð Seðlabankanum, og á að hafa eftirlit með honum líka, ekki síður en viðskiptabönkunum. Ég tel að það veiti ekkert af því. Og mér finnst kostulegt ef ríkisstj. ætlar sér að afgreiða þessa viðamiklu löggjöf núna án þess að taka á þessu máli, að bankaeftirlitið hafi algjörlega sjálfstæða stöðu en sé ekki niðursetningur hjá Seðlabankanum eins og gert er ráð fyrir í þessu frv.

Við Alþýðubandalagsmenn höfum lagt fram á Alþingi sérstakt frv. um sjálfstætt bankaeftirlit sem er á dagskrá síðar á þessum fundi þannig að ég mun ekki fara út í það nánar að sinni en benda á að fari svo mót vilja mínum að ríkisstj. keyri í gegn þessi ákvæði um bankaeftirlitið teldi ég að athuga ætti mjög vandlega hvort menn geti ekki náð samkomulagi um að bankaeftirlitið sé enn frekar undir stjórn bankaráðsins en bankastjóra. Í þessu frv. er gert ráð fyrir að bankaeftirlitið sé undir stjórn bankastjóranna. Það tel ég óheppilegt fyrirkomulag. Eðlilegra væri að það væri alfarið undir bankaráðinu. Það væri skárra miðað við allar aðstæður.

Þá vil ég einnig varðandi þessi ákvæði benda á síðustu málsgr. 14. gr. þar sem gert er ráð fyrir sérstakri nefnd til að fylgjast með starfsemi bankaeftirlitsins. Í nefndinni skulu eiga sæti, segir hér, fulltrúi ráðuneytis, einn bankastjóri Seðlabankans og forstöðumaður bankaeftirlitsins. Ráðherra skipar formann nefndarinnar.

Ég er þeirrar skoðunar að bankastjóri Seðlabankans, hver sem hann er, eigi ekki að vera í þessari samstarfsnefnd um bankaeftirlitið. Ég teldi að ef menn hverfa að því ráði að hafa bankaeftirlitið undir Seðlabankanum ætti þarna frekar að vera forstöðumaður endurskoðunardeildar Seðlabankans en bankastjóri bankans.

Ég vil einnig víkja að síðustu málsgr. 18. gr. þar sem gert er ráð fyrir að Seðlabankinn gefi viðskrn. skýrslu um starfsemi bankaeftirlitsins eigi sjaldnar en tvisvar á ári. Ég tel eðlilegt að bæta því við að ráðuneyti bankamála sé skylt að gefa Alþingi skýrslu um þessi mál einu sinni á ári þannig að Alþingi fái að vita um þessa hluti milliliðalaust strax og Seðlabankinn hefur lagt sínar greinargerðir fyrir ráðuneytið.

Ég vil í þriðja lagi, herra forseti, víkja að 6. gr. frv. Það var upphaflega ætlunin að takmarka vald Seðlabankans. Hann ætti ekki að vera að vasast í almennum viðskiptabankaverkefnum. Hann ætti ekki að vera með alls konar sjóði atvinnuveganna og þjónustusjóði af ýmsu tagi inni hjá sér. Þeir ættu að vera í viðskiptabönkunum sjálfum.

Þegar frv. fór frá bankamálanefndinni var gert ráð fyrir því að takmarka starfssvið Seðlabankans að þessu leyti og taka út úr honum ýmsa sjóði sem þar hafa verið. Nú hefur frv. verið breytt frá tillögum bankamálanefndar þannig að hér segir: „Þegar sérstaklega stendur á má ákveða í reglugerð að Seðlabankinn taki við innlánum frá öðrum peningastofnunum en greinir í 1. málsgr." Ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Hvernig hyggst hann framkvæma 2. málsgr. 6. gr. frv.? Hvaða sjóði ætlar hann að taka út úr Seðlabankanum? Hvaða sjóðir eiga að verða eftir í Seðlabankanum skv. hans skilningi og stefnu í þessum efnum? Ætlar hann sér kannske að hafa þetta óbreytt þannig að Seðlabankinn verði áfram að vasast með þessa sjóði upp á fleiri milljarða króna eða ætlar hann tafarlaust að beita sér fyrir því að þessir sjóðir verði fluttir með eðlilegum hætti til viðskiptabankanna í landinu?

Þá vil ég í fjórða lagi víkja að 8. gr. frv. í sambandi við bindingu sparifjár. Í upphafslögum um bindingu sparifjár var gert ráð fyrir að Seðlabankinn gæti bundið 15% af innistæðufé viðskiptabankanna. Síðan var þetta hlutfall hækkað nokkrum árum síðar í 20%. Alllöngu seinna var ákveðið að Seðlabankinn mætti binda 28% af innlánsfé viðskiptabankanna. Rökin á bak við þessa innlánsbindingu í upphafi voru tvíþætt: Í fyrsta lagi til þess að hafa áhrif á almenna eftirspurn á peningamarkaði og í öðru lagi til þess að fjármagna sjálfvirk afurðalán útflutningsatvinnuveganna.

Um þessi mál hafa oft verið harðar deilur á Alþingi. Þm. Sjálfstfl. í Ed. hafa flutt frv. um að lækka bindiskyldu Seðlabankans mjög verulega frá því sem nú er og þegar sjálfstæðismenn hafa verið í stjórnarandstöðu hafa þeir ævinlega gagnrýnt þetta ákvæði hástöfum. Þegar þeir hins vegar sitja í stjórnaraðstöðu heyrist ekkert í þeim í þessu efni. Og jafnvel þó þeir sitji sem formenn bankaráða ríkisbankanna sem eigi við verulega erfiðleika að etja, eins og Landsbankinn, eins og Útvegsbankinn, um þessar mundir, þá heyrist ekkert í þeim í þessu efni. Hér leggja þeir til, hv. þm. Pétur Sigurðsson og hv. þm. Valdimar Indriðason, að Seðlabankinn geti bundið sparifé innlánsstofnana eins og honum sýnist. Það er ekkert þak á því. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort hv. þm., formenn bankaráða ríkisbankanna, sérstaklega Landsbankans og Útvegsbankans, láta þetta yfir sig ganga og þá banka sem þeir eiga að veita forstöðu. Eftir því verður grannt tekið þegar umræður um þessi mál fara fram. Ég tel að eðlilegt væri að setja ákveðið þak í þessu efni, þannig að Seðlabankinn geti ekki þarna farið upp úr öllu valdi.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja að 10. gr. frv., en hún er nokkuð skrýtin, nokkuð sérkennileg. Sennilega hefur hún orðið til í einhverju bralli á milli stjórnarflokkanna. Annar stjórnarflokkurinn þykist nefnilega vera á móti vaxtafrelsi, en er með því í framkvæmd, en hinn stjórnarflokkurinn vill markaðsvexti. Hæstv. viðskrh. hefur farið í það að reyna að þvæla saman óskiljanlegri setningu um þessi mál til að brúa bilið á milli stjórnarflokkanna í þessu efni. Þegar hann hélt hér ræðu sína um daginn um þetta kom það fram að sá maður, Matthías Bjarnason, hæstv. ráðherra, sem alla jafna kveður skýrt að orði og kann iðulega að koma betur fyrir sig orði en aðrir menn. hann flutti texta sem var örugglega óskiljanlegur þingheimi og sennilega honum sjálfum líka. Enda eru refirnir kannske til þess skornir, þegar allt kemur til alls, að enginn botni í þessum texta. Hann hljóðar svo. herra forseti:

„Seðlabankinn getur bundið ákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum meðal annars til að tryggja að raunvextir útlána innlánsstofnana verði eigi hærri en þeir eru að jafnaði í helstu viðskiptalöndum Íslands svo og til að draga úr óhæfilegum vaxtamun milli inn- og útlána.“

Hér í vor var samþykkt frv. um viðskiptabanka sem gerði ráð fyrir svokölluðu vaxtafrelsi, nær algjöru. Það er alveg augljóst mál - og ég vil lýsa því yfir af minni hálfu og míns flokks - að hægt er að framkvæma 2. málsgr. 10. gr. þannig að ríkisstjórnin og Seðlabankinn geti ráðið vaxtastiginu þegar þeim sýnist. Það er alveg sama þó hæstv. ráðh. reyni í sínum textum að leggja áherslu á markaðsviðmiðanir í þessu efni. Ráðherra, sem vildi fara aðra leið, getur framkvæmt vaxtastefnuna samkvæmt þessari málsgrein þannig að vaxtafrelsið margrómaða verði allt tekið til baka strax og annar ráðherra tæki við viðskrn. Það er kosturinn við þessa grein og það ber að þakka hæstv. viðskrh. fyrir að hafa komið þessari grein svona inn vegna þess að hún skapar möguleika til að stýra vaxtastiginu í landinu og á að geta komið í veg fyrir flóð vaxtahækkana eins og við höfum upplifað að undanförnu. Eða hvað?

Ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig hyggst hann framkvæma greinina? Ætlar hann að láta Seðlabankann og ríkisstjórnina stýra vöxtunum eða hyggst hann láta markaðinn ráða? Verði markaðurinn látinn ráða munu vextir hækka stórkostlega hér á næstunni. Hvora leiðina ætlar hæstv. ráðh. að fara upp úr þessari loðmullugrein sem þarna hefur verið samin til þess að stinga einhverju upp í óánægða fulltrúa ríkisstjórnarinnar? En ég tek fram að við þær aðstæður að við gætum haft áhrif á framkvæmd þessara mála mundum við túlka 2. málsgr. 10. gr. þannig að Seðlabanki og ríkisstjórn gætu ráðið vaxtastiginu í meginatriðum og þar með afnumið svokallað vaxtafrelsi með einu pennastriki, reglugerðarákvæði strax við stjórnarskipti.

Ég vil þessu næst, herra forseti, víkja hér að ákvæði sem hefur ekki eins mikla þýðingu en er í 20. gr. frv. Þar segir:

„Auk Seðlabankans hafa viðskiptabankar og sparisjóðir rétt til að versla með erlendan gjaldeyri innan marka sem Seðlabankinn ákveður að fengnu samþykki ráðherra.“

Ég sé ekki betur en að hér sé blessunarlega verið að stíga skref í þá átt að viðskrn. geti haft nokkuð með það að segja hverjir fara með gjaldeyrisverslun hér í landinu, verið sé að stíga nokkurt skref til baka frá því sem stefna ríkisstj. hefur verið í þessum efnum. Augljóst er að greinin heimilar ráðherra að þrengja mjög verulega úthlutun leyfa til gjaldeyrisverslunar. Mjög verulega. Í raun og veru getur hann sett þxr reglur í þeim efnum sem honum sýnist eins og textinn hljóðar í þessu frv.

Í sjöunda lagi vil ég hér víkja að 21. gr. frv. þar sem segir, með leyfi forseta:

„Seðlabankinn hefur með höndum framkvæmd greiðslusamninga við önnur ríki svo og viðskipti við alþjóðafjármálastofnanir í umboði ríkisstjórnarinnar. Hann skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um allt er varðar gjaldeyrismál, þar á meðal erlendar lántökur og taka að sér framkvæmd í þeim efnum eftir því sem um verður samið.“

Ég tel að það sé óþarfi að binda svona ákv;eði í lögum, að Seðlabankinn eigi skilyrðislaust að vera milliliður varðandi samninga af því tagi sem hér er um að ræða. Ríkið á að geta fengið aðra aðila til þess að gera það, aðrar fjármálastofnanir í landinu ef ástæða þykir til. Ég tel eðlilegt að Seðlabankinn sinni þessum alþjóðlegu fjármálaviðskiptum og samningum og lánasamningum í mörgum tilvikum, en ég tel ekki að það þurfi að vera undantekningarlaust. Þarna sé eðlilegra að það sé fjmrn. sem hefur með þessi mál að gera, og það sé afdráttarlaust tekið fram, en að Seðlabankinn geti auðvitað í umboði þess eða beiðni þess sinnt þessum málum, en ég tel ekki rétt að hann sé þarna algjörlega í forgrunni eins og gert er ráð fyrir í þessari grein.

Ég vil síðan, herra forseti, í áttunda lagi, víkja að miklu minna atriði í þessu frv.. en það er að í frv. er alls staðar talað um að yfirstjórn Seðlabankans sé í höndum viðskrh. Ég teldi eðlilegt að orð þetta þannig að yfirstjórn Seðlabankans og bankamálanna yfirleitt sé í höndum þess ráðherra sem fer með bankamál. Það eru uppi hugmyndir um breytingar á lögum um Stjórnarráð Íslands og ég held að það væri eðlilegra að taka eingöngu fram að hér sé átt við þann ráðherra sem fer með bankamál.

Í níunda lagi kem ég að 27. gr. frv. sem fjallar um bankastjórn Seðlabankans: „Bankastjórnin kýs sér formann úr sínum hópi til þriggja ára í senn.“ Ég teldi rétt að láta það koma fram í greininni að óheimilt sé að kjósa sama manninn formann bankastjórnarinnar lengur en tvö kjörtímabil í röð eða svo.

Ég vil síðan í tíunda lagi víkja að 29. gr.. en ég kem nánar að starfsemi bankastjóranna hér á eftir. Í 29. gr. segir svo í 2. málsgr.:

„Bankastjórum og aðstoðarbankastjórum er óheimilt að sitja í stjórn stofnana og atvinnufyrirtækja utan bankans eða taka þátt í atvinnurekstri að öðru leyti nema slíkt sé boðið í lögum eða um sé að ræða stofnun eða atvinnufyrirtæki sem bankinn á aðild að.“

Ég tel eðlilegt að þarna væri einfaldlega fellt niður ákvæðið um stofnun eða atvinnufyrirtæki sem bankinn á aðild að því að ef um slíkt er að ræða þú eigi aðrir en bankastjórar að vera inni í stjórn þeirra stofnana. Hérna er verið að opna fyrir það að bankastjórar geti verið að grauta í stjórn alls konar stofnana hér og þar úti í bæ. Það er óeðlilegt og þess vegna ber að þrengja þetta ákvæði mjög verulega. Ég hafði hugsað mér að flytja brtt. um þetta atriði ásamt fleiri brtt. sem ég mun hér leggja fram síðar við meðferð málsins.

Í ellefta lagi vil ég víkja að greininni um hagnað Seðlabankans og skattlagningu Seðlabankans. Hvernig á að skattleggja Seðlabankann? Á að skattleggja hann eins og hvert annað fyrirtæki? Nei. Hvernig á að gera það? Samkvæmt tillögum frv. er gert ráð fyrir því að árlega skuli helmingur af meðalhagnaði næstliðinna þriggja ára, að frádregnu framlagi í arðsjóð, greiddur í ríkissjóð. Það kemur ekkert fram hvernig meðalhagnaður á að reiknast út. Og af hverju er miðað við meðalhagnað síðustu þriggja ára? Gæti þetta ekki verið haganlegt fyrirkomulag fyrir heimilin í landinu, að mega miða sínar skattgreiðslur við meðaltöl aftur í tímann? Ég tel að þetta sé í raun og veru óeðlilegt ákvæði og Seðlabankann eigi að gera upp eins og hverja aðra stofnun hér í landinu, a.m.k. með mjög skýrum reglum, en þær eru óskýrar í þessu frv.

Ég vil spyrja hæstv. ráðh. af þessu tilefni: Hefur hann undir höndum yfirlit um hagnað Seðlabankans síðustu 10 ár á verðlagi ársins 1985? Þetta er yfirlit sem bankamálanefndin undir forustu Þorsteins Pálssonar, hæstv. fjmrh., hefur sjálfsagt aflað sér og liggur sennilega einhvers staðar í pappírshaugunum sem nefndin hefur ekki komið frá sér í formi grg. En það væri fróðlegt ef ráðherrann gæti upplýst um þetta þannig að þingheimur átti sig á því hver gróði Seðlabankans hefur verið og hversu mikla fjármuni hefði verið unnt að sækja í ríkissjóð ef þessi ákvæði hefðu verið í framkvæmd á undanförnum árum.

Síðan segir hér að það eigi að draga frá í varasjóð, í arðsjóð, 40 millj. kr. miðað við verðlag í árslok 1984. Hvað er arðsjóður? Til hvers er arðsjóður? Hver stofnaði arðsjóð? Hver borgaði í hann? Hvernig er hann ávaxtaður? Ég held að það væri nokkuð fróðlegt fyrir okkur að fá upplýsingar um eignir Seðlabankans, m.a. þennan arðsjóð - ég er þá ekki að tala um peningalegar eignir hans sem seðlabanka - t.d. væri fróðlegt að fá yfirlit yfir ýmsar fasteignir Seðlabankans, kostnað við húsið hér við Kalkofnsveg og fleira. Alla vega er óhjákvæmilegt að biðja um upplýsingar um þennan arðsjóð, hvernig hann er hugsaður, hvað í honum er, hver stjórnar honum og hver úthlutar úr honum. Það er rétt að hæstv. viðskrh. veiti upplýsingar um það, en auðvitað hefðu upplýsingar um þetta átt að vera hér í grg., ef frv. hefði verið almennilega fram lagt af ríkisstjórninni, sem það er ekki.

Síðan segir: "... helmingur árlegra tekna hans [arðsjóðs] skal renna í Vísindasjóð, sbr. lög um Vísindasjóð.“ Ég held að það sé afskaplega þarflegt að tekjur af Seðlabankanum renni til menningarmálastarfsemi og vísinda. Hins vegar kann það að orka tvímælis hvernig að þessu er farið í lögunum um Vísindasjóð, sem munu vera nr. 51/1957. En ákvæðin um uppgjör Seðlabankans eru öll óljós og þess vegna er óhjákvæmilegt að óska eftir því að ráðherrann komi nánari upplýsingum á framfæri hér við þingið.

41. gr. er gildistökuákvæði frv. Þau eru nú venjulega þannig samin að þau eru einföld og skýr eða þannig samin að þau eru óskiljanleg nema menn fletti mestöllu lagasafninu. Hér er setning sem hljóðar svo, með leyfi forseta, á þessari undarlegu lagalatínu:

„Ákvæði VIII. kafla um reikningsskil gilda um reikningsárið 1985.“ Síðan kemur: „Ákvæði 2. málsl. 2. málsgr. 27. gr. og 2. málsgr. 29. gr. tekur einungis til þeirra sem ráðnir eru bankastjórar eftir gildistöku laga þessara.“ Hvað þýðir þetta nú á mæltu máli? 2. málsl. 2. málsgr. 27. gr. er um að bankastjórar séu ráðnir til sex ára í senn og hitt ákvæðið, 2. málsgr. 29. gr., er um það að bankastjórar megi ekki sitja í ráðum og nefndum utan bankans. Hreinlegra hefði verið að orða þetta þannig: Þó gilda ákvæði þessa frv. ekki um Jóhannes Nordal. Það hefði verið miklu skýrara og ljósara, bæði fyrir þm. og aðra sem fara yfir þetta plagg. (Gripið fram í.) Vegna þess að ég styð ekki þá tillögu. Það væri nær að hv. 2. þm. Reykv. flytti þá tillögu. Þó gilda ákvæði þessa frv. ekki um Jóhannes Nordal. Það þýðir á mannamáli þessi lagalatína sem er þarna neðst á síðu 8 í frv. Í fyrsta lagi gildir endurnýjunarreglan ekki um þá sem ráðnir hafa verið, þessi sex ára regla, þeir mega sitja fram úr. Og í öðru lagi mega þeir sitja í ráðum og nefndum eins og fara gerir áfram samkvæmt þessari tillögu. Í stjórn Landsvirkjunar, stóriðjunefnd, Fiskveiðasjóði, og hvað það heitir nú allt saman eiga þessir menn að vera sem þar eru nú, en þeir sem kunna að verða ráðnir síðar gætu átt það yfir höfði sér að lagaákvæðin gildi um þá. Auðvitað væri eðlilegra að þessi ákvæði giltu alveg skýlaust um bankastjóra Seðlabankans sem þar eru í dag, alveg skýlaust. Ég tel reyndar að þessi stjórnarmál Seðlabankans séu með þeim hætti að nauðsynlegt sé að taka þau almennt til sérstakrar umræðu hér á þinginu.

Eftir að Geir Hallgrímsson og Tómas Árnason hafa verið ráðnir bankastjórar Seðlabankans hefur kommissarakerfið verið flutt innan af Rauðarárstíg niður á Kalkofnsveg. Fulltrúar Framsfl. og Sjálfstfl. sitja þarna á fleti fyrir, stýra þessum banka ásamt Jóhannesi Nordal. Ég tel að það sé alveg augljóst mál að það er útilokað fyrir aðra stjórn en þá sem nú situr að treysta ráðgjöf bankastjóra Seðlabankans. Það er útilokað. Í ljósi þess sem núv. ríkisstj. hefur ákveðið í þessu efni tel ég að tvennt komi til greina: Í fyrsta lagi það að núverandi bankastjórum Seðlabankans verði öllum sagt upp hið fyrsta og að ráðnir verði bankastjórar á almennum, faglegum forsendum til t.d. fjögurra eða sex ára, eins og gert er ráð fyrir í þessu frv., eða sú ákvörðun verði tekin að skipt verði um bankastjóra Seðlabankans í hvert skipti sem breytt er um ríkisstjórn í landinu, ef hin nýja stjórn telur ástæðu til þess.

Eftir að Sjálfstfl. og Framsfl. ákváðu að setja þessa pólitísku kommissara inn í Seðlabankann er ekki ástæða til þess að taka mark á Seðlabankanum í efnahagsmálum frekar en hverri annarri flokkssamþykkt innan af Rauðarárstíg frá Framsfl. eða innan úr Valhöll frá Sjálfstfl. Það eru pólitískir trúnaðarmenn þessara flokka sem þarna sitja og það er auðvitað stóralvarlegur hlutur að þannig skuli vera farið með Seðlabankann, miðbanka sem þarf að njóta trúnaðar þjóðarinnar ef nokkur kostur er. (FrS: Hver skipaði Guðmund Hjartarson?) Seðlabankinn hefur að þessu leytinu til verið brotinn niður. Tiltrú manna á honum getur engin verið eftir þessa niðurstöðu. (FrS: Hvað sagði þm. um Guðmund Hjartarson, hver skipaði hann?) Ég tel nú í rauninni að það komi þessu máli ekkert við, hv. þm., komi því ekkert við. Aðalatriðið er auðvitað það að Framsfl. og Sjálfstfl. eru búnir að setja pólitíska forustumenn sína inn í þennan banka, Seðlabankann, menn sem þóttust vera að brjóta niður hið pólitíska vald í Framkvæmdastofnuninni, en í stað þess fluttu þeir það inn í Seðlabanka. Framkvæmdastofnunarleikurinn var allur sýndarmennska, blekking og ekkert annað. (ÞP: Er ekki hægt að skýra það hvers vegna Guðmundur Hjartarson kom bankanum ekki við?) Við getum farið nánar yfir það, hæstv. fjmrh., sérstaklega ef þú gerðir grein fyrir áliti bankamálanefndar og skilaðir af þér í þeim efnum. Ég hygg að enginn nefndarformaður hafi nokkurn tímann í sögunni á undanförnum árum komist upp með það að ganga ekki betur frá sínum pappírum en hæstv. núv. fjmrh., sem getur ekki gaufast við að skila nefndaráliti bankamálanefndar. Þar skaltu ræða um Guðmund Hjartarson og fleiri mæta menn, á þeim vettvangi.

Ég vil þessu næst víkja almennt að ákvæðum frv. um bankaráðin. Ég tel að það þurfi að setja í frv. miklu skýrari ákvæði og skarpari um bankaráð Seðlabankans. Ég tel að vald þess þurfi að styrkjast á kostnað bankastjóranna. Það á við um margar greinar frv., en þó alveg sérstaklega um bankaeftirlitið sjálft eins og ég rakti hér áðan.

Ég hef í fjórtánda lagi spurt hæstv. ráðh. sérstaklega um arðsjóðinn og óska eftir upplýsingum um það mál hér á eftir.

Ég vil í fimmtánda lagi víkja að 10. gr. frv. þar sem segir: „Seðlabankinn ákveður vexti af innlánum við bankann og af lánum sem hann veitir.“ Þetta finnst mér allsérkennilegt ákvæði, að Seðlabankinn geti ákveðið vexti af þessum lánum öllum. Hver er skoðun viðskiptabankanna á þessu ákvæði? Auðvitað væri eðlilegra í þessu efni að aðrir aðilar komi þarna við sögu og Seðlabankinn sé ekki gerður að einvaldi í þessu efni, fulltrúar viðskiptabankanna hafi þarna nokkuð um að segja og þó alveg sérstaklega ríkisstjórnin sjálf. Ég teldi að ákvæði 1. mgr. 10. gr. ætti einfaldlega að segja: Seðlabankinn ákveður vexti af innlánum við bankann og af lánum sem hann veitir, að fengnu samþykki bankamálaráðherra. Það er algjörlega óþolandi að Seðlabankinn geti ákveðið þessa okurvexti á viðskiptabankana sem við höfum kynnst að undanförnu, þar sem er um að ræða refsivexti á annað hundrað prósent. Það er algjörlega óþolandi að afhenda Seðlabankanum einveldi í þessu máli vegna þess að með því að hækka vexti viðskiptabankanna er Seðlabankinn auðvitað að auka sínar tekjur. Ég hygg að það sé algjört einsdæmi að stofnun hafi þannig einhliða vald til þess að auka stórkostlega tekjur sínar jafnvel á kostnað viðskiptabankanna og umfram allt sem kalla mætti eðlilegar og rökréttar þarfir í þessu efni.

Ég vil í sextánda lagi, herra forseti, víkja nokkuð að endurteknum fullyrðingum ráðherranna um það að vaxtastefnan hafi skilað auknum innlánum og minnkandi útlánum. Hvað er hæft í því? Upplýsingar um það efni komu fram í ræðu hæstv. viðskrh., en þm. þurfa ekki annað en að lesa Hagtölur mánaðarins fyrir janúar 1986 til þess að sjá að upplýsingar hæstv. ráðh. í þessu efni voru annaðhvort vísvitandi eða óviljandi blekkingarleikur. Í fyrsta lagi kemur það fram í Hagtölum mánaðarins hvaða innlán það eru sem jukust á s.l. ári. Hvaða innlán ætli það séu? Það eru svokölluð almenn óbundin spariinnlán. Það eru ekki verðtryggðu lánin með hærri vöxtum til lengri tíma sem hér er um að ræða, heldur almenn óbundin spariinnlán sem í mjög mörgum tilfellum bera vexti sem eru sagðir undir verðbólgustigi. Það er þess vegna ekki vaxtastefnan, lokkandi ávinningar vaxtastefnunnar, sem hafa dregið sparifé inn í bankana. Það er alveg bersýnilegt því að það eru almenn spariinnlán sem hafa hækkað langmest á s.l. ári.

Síðan er því haldið fram að útlán hafi aukist miklu minna á síðasta ári en nemur verðbólgustigi. Einnig það eru falsanir, beinar falsanir sem hæstv. ráðherrar fjármála og viðskipta hafa beitt sér fyrir á opinberum vettvangi. Öll útlán jukust um 31,5% samkvæmt Hagtölum mánaðarins, en það segir ekki nema hluta sögunnar vegna þess að stórfelld birgðaminnkun átti sér stað í sjávarútveginum á s.l. ári og það þýðir sjálfkrafa minni afurðalán. Þegar tekið hefur verið tillit til þess að afurðalánin minnka auðvitað stórkostlega vegna kerfisbreytingar kemur það í ljós að útlán bankanna á síðasta ári jukust um 45,5% sem er 7% raunaukning útlána. Tilraun til þess að halda því fram að stefna ríkisstj. hafi dregið verulega úr útlánum og þannig dregið úr peningaþenslu stenst því ekki þessar tölur í Hagtölum mánaðarins. Það er einnig vert að benda á að auðvitað hlýtur hallinn á ríkissjóði á s.l. ári upp á milljarða króna að hafa veruleg þensluáhrif í öllu hagkerfinu. En tölurnar um stóraukin innlán annars vegar og minni útlán hins vegar, sem stafi af breyttum vaxtakjörum, þær eru blekking. Þær eru vísvitandi blekking sem Seðlabankinn kemur upp um í þessu riti. Hagtölum mánaðarins, með því að birta samanburðartölur. Menn sjá niðurstöðuna ef þeir nenna að leggja það á sig að fara í gegnum þær töflur. Ég taldi óhjákvæmilegt, herra forseti, að mótmæla þessum fullyrðingum hæstv. viðskrh. Hér er um að ræða blekkingarleik og ekkert annað.

Í sautjánda og síðasta lagi, herra forseti, vil ég minna á að í tengslum við þetta mál er eðlilegt að fá upplýsingar um skipulagsmál bankanna. Hvað er að gerast í þeim efnum? Hefur viðskrh. beitt sér fyrir könnun á því hvort unnt er að sameina banka, Útvegsbankann og Búnaðarbankann? Hefur það verið kannað að hve miklu leyti Landsbankinn gæti komið inn í þá mynd, að hve miklu leyti einkabankarnir gætu hugsað sér að vera hér aðilar að, eða hvað er eiginlega uppí af hálfu ríkisstj. í þessu efni?

Fyrir 4-5 vikum heyrði ég í útvarpi viðtal við núv. seðlabankastjóra, Tómas Árnason. Hann skýrði frá því að í rauninni væri komin sú niðurstaða að einkabankarnir myndu nú ekki sameinast mikið, það stæði þannig. Hins vegar væri sameiningarleiðin ofarlega á blaði með ríkisbönkunum. Og það var ómögulegt að skilja seðlabankastjórann öðruvísi en svo að um það leyti sem þing kæmi saman yrði lagt fram frv. um sameiningu Útvegsbankans og Búnaðarbankans. Einhverra hluta vegna hafa þessar yfirlýsingar bankastjóra Seðlabankans ekki staðist. Ég held að það sé óhjákvæmilegt að inna hæstv. viðskrh. mjög ákveðið eftir því hvaða hugmyndir hann hugsar sér að framkvæma í þessu efni. Er eitthvað verið að vinna í málinu eftir þær yfirlýsingar sem bæði hann og þó sérstaklega hæstv. forsrh. hafa gefið um að það sé óhjákvæmilegt að taka hér og nú á þessum skipulagsmálum bankanna, þegar ljóst er að bæði Útvegsbankinn og Landsbankinn líka, þrátt fyrir allgóða atkomu á síðasta ári, eiga við vanda að etja meðan vissir bankar í landinu fleyta rjómann ofan af alls konar verslunarviðskiptum en sleppa tiltölulega ódýrt í þjónustu við hina hefðbundnu atvinnuvegi?