10.02.1986
Neðri deild: 47. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2441 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

205. mál, Seðlabanki Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. svaraði fsp. minni um tryggingarsjóðinn. Hann gerði kannske ekki nákvæma grein fyrir reglugerðinni, en hafði uppi góð orð um að það mundi ekki líða á löngu þangað til ég fengi hana sérstaklega afhenta og er það vel.

Um önnur atriði sem ég gerði að umtalsefni hafði ráðherra hins vegar færri orð. Ég vil þess vegna ítreka spurningu mína um hvað líði hugmyndum um sameiningu Útvegsbanka og Búnaðarbanka eða sameiningu Útvegsbanka og annarra banka eða yfirleitt um stöðu Útvegsbankans vegna þess að ég sé ekki betur en samkvæmt gildandi lögum sé ráðherra skylt að leggja fyrir Alþingi tillögu um ráðstafanir er grípa skuli til.

Í 45. gr. gildandi laga um viðskiptabanka eru ákvæði um hvernig með skuli fara þegar eigið fé viðskiptabanka fullnægir ekki þeim skilyrðum sem sett eru samkvæmt lögunum. Bankaeftirlitið á þá að krefja bankaráð viðkomandi ríkisviðskiptabanka tafarlaust um grg. þar sem fram kemur til hvaða ráðstafana bankaráðið hyggist grípa og bankaeftirlitið skal þegar í stað afhenda ráðherra reikningsuppgjör skoðunarmanna og grg. bankaráðs ásamt umsögn sinni. Í næstu málsgr. segir:

„Skal ráðherra síðan leggja fyrir Alþingi tillögu um ráðstafanir er grípa skuli til af þessu tilefni.“ Samkvæmt þessu ber ráðherra að gera Alþingi grein fyrir þessu máli og leggja tillögur um það fyrir Alþingi. Reyndar segir í seinustu málsgr. 45. gr. að þegar ráðherra hafi borist gögn skv. 3. málsgr. eða lokið er meðferð skv. 4. málsgr. er honum heimilt að veita hlutaðeigandi viðskiptabanka frest í allt að sex mánuði til þess að auka eigið fé að lágmarki skv. 36. gr. og síðan sé honum heimilt að framlengja þann frest ef til þess eru ríkar ástæður.

Mér sýnist þess vegna fyllsta ástæða til að ítreka þá fsp. til ráðherra hvenær þess sé að vænta að hann leggi tillögur fyrir Alþingi um ráðstafanir í þessum efnum. Hér er um ótvíræða lagaskyldu að ræða og það hefur verið vitað um allnokkra hríð hver staða Útvegsbankans sé.

Ég gerði líka að umtalsefni svokölluð kreditkort og vil nú ítreka það vegna þess að þetta er ekki í fyrsta skipti sem kemur til umræðu hér á Alþingi að þörf sé fyrir löggjöf varðandi kreditkort. Oft hefur um það verið rætt að slík löggjöf yrði sett, en efndirnar hafa látið á sér standa.

Ég gerði líka að umtalsefni að í séráliti mínu hefði ég talið eðlilegt að auk seðlabankalaganna verði sett sérstök lög um peningamálastjórn. Sama atriði kom í rauninni fram í ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann taldi eðlilegt að lög um peningamálastjórn væru inni í lögunum um Seðlabanka. Ráðherra sagði að til þess væri engin sérstök ástæða. Ég get í sjálfu sér tekið undir þá skoðun ráðherra að það geti verið sérlög, en það sem á skorti hjá ráðherranum var spurningin um hvaða skoðun hann hefði á slíkri löggjöf, hvort hún væri í undirbúningi og hvort þess væri að vænta að slík lög yrðu sett bráðlega.

Í fjórða lagi langar mig þá til að víkja að atriði sem ég gerði að umtalsefni sérstaklega í minni fyrstu ræðu um þetta málefni og það varðar svokölluð ávöxtunarfyrirtæki. Mér þótti ráðherra fara heldur losaralega með það mál í sínum málflutningi. Hann orðaði það svo að ég hefði fjasað um hluti sem kæmu þessu frv. ekkert við, en það kom ekkert fram í máli ráðherrans um hvernig hann teldi að halda ætti á málum af þessu tagi eða hvað hann hygðist fyrir nema það að hann vísaði í frv. sem lagt hefur verið fram um verðbréfamiðlun. Það er mér vitaskuld kunnugt um að hér sé fram lagt og ég gat um það í upphafsræðu minni, en ég tel það algjörlega ófullkomið til þess að fást við það viðfangsefni sem hér er um að ræða.

Í útvarpinu kom fram nýlega einn af forsvarsmönnum sjóða af þessu tagi, einn af forsvarsmönnum Hávöxtunarfélagsins, Pétur H. Blöndal. Tilefni þess að hann tók til máls í Ríkisútvarpinu var sá málflutningur sem ég hafði uppi haft í þinginu um þessa ávöxtunarsjóði. Það var athyglisvert að þessi talsmaður sjóðanna mótmælti ekki einu einasta atriði í málflutningi mínum og sagði að margt af því sem ég hefði sagt væri réttmætt og eðlilegt og löggjöf væri eðlileg í þessum efnum. Hins vegar taldi hann að ég væri á neikvæðri braut í umfjöllun minni um þetta mál þó að ekki hafi verið bent á að ég hafi farið að neinu leyti rangt með heldur einmitt hitt, sem þessi talsmaður sjóðanna tók fram, að margt af því sem ég hafði sagt hafi verið réttmætt.

Hverjar voru þær jákvæðu hliðar sem ég átti ekki að hafa gert að umtalsefni? Jákvæðu hliðarnar áttu að vera þær að hér væri smælingjunum gefinn kostur á hárri ávöxtun. Við eigum eftir að sjá hver ávöxtunin verður eins og var í rauninni minn boðskapur. Menn eiga eftir að reyna það þegar þeir fara að reyna að selja þessi bréf.

Mér skildist að annað jákvætt væri það að hér kæmu peningar til atvinnulífsins. Ég get ekki séð að þessir peningar komi neitt frekar til atvinnulífsins þessa leið en þó þeir væru til ávöxtunar í bönkum eða í öðrum skuldabréfum með öðrum hætti. Hins vegar hef ég bent á að eins og þessir sjóðir halda á málflutningi sínum get ég ekki séð að þeir séu að leitast við að leiða fólk í sannleika um hvernig þessum málum sé háttað. Ég vísa því þess vegna gjörsamlega á bug að ég hafi fjallað um þessi mál með einhverjum sérstökum neikvæðum hætti. Tilgangur minn hér með því að gera þetta að umtalsefni er að vekja athygli á hvernig málið er í pott búið. Og við skulum rifja það upp í stuttu máli.

Nú eru engin lög eða reglur í gildi um svona sjóði. Hvaða spilaklúbbur sem er getur stofnað sjóð af þessu tagi. Sumir sem að þessu standa geta verið ráðvandir. aðrir ekki. Í öðru lagi ráða upphaflegir stofnendur sjóðsins öllu um hann. Þeir sem kaupa ávöxtunarbréfin hafa engan íhlutunar- eða eftirlitsrétt. Þessir sjóðir eru ekki undir neinu eftirliti. Þeir reikna sjálfir út hvert þeir telja vera verðgildi bréfanna. Þeir reikna sjálfir út hver þeir telja að ávöxtunin hafi verið. Menn hafa ekkert annað að leita til þess að ganga úr skugga um hvernig þeir útreikningar eru gerðir eða að hve miklu leyti þeir standast.

Þessir sjóðir virðast geta auglýst hvað sem þeim sýnist og ráðamenn þeirra geta farið með sjóðinn eins og þeim sýnist. Sú ávöxtun, sem auglýst er og verið er að telja mönnum trú um að menn séu að fá, er útreiknuð ávöxtun en ekki það sem getur talist staðreynd. Og það er ekkert sem tryggir mönnum neina tiltekna lágmarksávöxtun í framtíðinni. Það er engin ávöxtun útgreidd jafnóðum, eins og ég hef gert að umtalsefni. Eina ráðið sem menn hafa til að fá raunverulega vexti á fé sitt er að selja ávöxtunarbréfin og einu kaupendurnir að þessum bréfum eru sjóðirnir sjálfir sem áskilja sér rétt allar götur til ársins 2005, sagði ég víst í ræðu um daginn en nú hef ég komist að því að hinn sjóðurinn hefur það allar götur til ársins 2010, að kaupa þessi bréf.

Hvernig auglýsa svo þessir sjóðir? Þeir auglýsa ekki með neinu smáletri. „Til hamingju. Þið völduð rétta kostinn. Á hálfu ári hafa kjarabréfin skilað eigendum sínum 26,8% ársávöxtun umfram verðtryggingu.“ Síðan kemur lítil stjarna og stjarnan vísar til smáleturs í horninu um að sú ávöxtun sem hér sé verið að auglýsa miði við tiltekið tímabil sem er 17. maí 1985 til 17. nóvember 1985. Valdir dagar væntanlega, ekki til að sýna lága ávöxtun heldur valdir dagar til að sýna sem hæsta ávöxtun. Og það má rekja með hvaða hætti menn geta fengið svo háa útreiknaða ávöxtun.

Þeir klípa ekki utan af því. Auglýsingarnar eru stórar og þær birtast í litum. Hér segir að kjarabréfin séu stórmerk nýjung. Þetta er auglýsing úr Morgunblaðinu og segir þar að „á hálfu ári hafa þau skilað eigendum sínum 26,8% ársávöxtun umfram verðtryggingu“. Þau hafa skilað því með þeim hætti að þetta er útreikningur sjóðsins sjálfs. Það þarf ekki eyrir að hafa farið til eigendanna í útgreiddum vöxtum eða í útreiddu fé.

Þeir segja líka í þessari auglýsingu: „Kjarabréfin eru stórmerk nýjung.“ Þar eru nokkrir punktar. Ég gríp niður í þeim. Einn punkturinn er svona: „Þú getur innleyst kjarabréfin hjá verðbréfasjóðnum með nokkurra daga fyrirvara.“ - Þetta er auglýst í blöðunum: Þú getur innleyst bréfin hjá sjóðnum með nokkurra daga fyrirvara. Þetta eru kjarabréfin. Það var um þau sem ég greindi frá því að til þess að fá innlausn þyrfti að senda umsókn á sérstöku eyðublaði. Síðan ætti stjórn sjóðsins að innleysa bréfin samkvæmt ákvæðum í bréfinu eigi síðar en 90 dögum frá þeim degi að innlausnarkrafa barst eða næsta virkan dag þar á eftir, en að stjórn verðbréfasjóðsins sé heimilt að fresta innlausn telji hún ástæðu til þess, sbr. þó ákvæði um endanlegan gjalddaga sem er árið 2005. (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann hvort hann eigi mikið eftir af ræðu sinni.) Þó nokkuð. (Forseti: Þá er komið að því að þessum fundi verður lokið í dag og þessu máli verður haldið áfram síðar.)

Umr. frestað.