11.02.1986
Sameinað þing: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2447 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

217. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh, hinar jákvæðu undirtektir hans.

Varðandi umræður um menningarstefnu er það auðvitað einfalt af hálfu okkar flm. þeirrar till. sem ég rakti í upphafi að endurflytja hana í einhverju formi á Alþingi þannig að hér gefist kostur á því að ræða um almenna stefnumörkun í lengri tíma en hér er til umráða í stuttum fyrirspurnatíma. Ég vil líka taka það fram að við drögum ekkert, eins og ég sagði reyndar áðan, úr gildi frjálsrar menningarstarfsemi. Það er hið ótvíræðasta. En eins og hæstv. ráðh. kom reyndar sjálfur inn á: Nauðsynlegur stuðningur og nauðsynleg uppörvun við þessa menningarstarfsemi er nákvæmlega jafnmikilvæg. Ég bendi á að ekki hafa nágrannaþjóðir okkar að ófyrirsynju markað ákveðna rammastefnu í menningarmálum og reynt að fylgja henni eftir, sérstaklega til þess að fjárveitingarvaldið hefði þar visst aðhald og vissa leiðbeiningu um á hvað skyldi leggja áherslu hverju sinni. Ég held að það sé þess vegna ótvírætt að nauðsynlegt er að hafa ákveðinn ramma þar um. Og fyrir hina ýmsu menningaraðila, bæði áhugaaðila og þá aðila sem hafa það beinlínis fyrir atvinnu, er þó enn brýnna að vita hvar þeir standa í þessum málum, enda hafa þeir aðilar mjög knúið á um þessa skipan mála í nálægum löndum og reyndar hér á landi einnig.

Hér gefst ekki tími til að rekja ýmis atriði úr þeirri grg. sem fylgdi till. okkar hv. 10. landsk. þm. á sínum tíma, en þar lagði t.d. skólastjóri Leiklistarskólans núna, Helga Hjörvar, áherslu á að með stefnumörkun á þessu sviði væri líklegt að fjármunir, sem til þessara verkefna væri varið, mundu nýtast miklu betur en nú er miðaða við það handahóf sem hæstv. ráðh. kom réttilega inn á að gilti um fjárveitingar í þessum efnum.

Ég geri kannske lokaorð Njarðar P. Njarðvík að mínum þar sem hann segir í lok þessarar grg. eftir ítarlegan rökstuðning fyrir nauðsyn stefnumörkunar, ekki forsjá, ekki miðstýringu heldur stefnumarkandi áhersluatriðum, sérstaklega varðandi stuðning hins opinbera. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Íslensk menning má ekki verða minningin ein, hún þarf að vera síung, og til þess að svo megi verða þarf að hlúa vel að henni. I raun og veru höfum við ekki efni á öðru sem þjóð en snúa við blaðinu og hefja íslenska menningu til vegs með myndarlegum stuðningi í stað þess að gera hana að hornreku í fjárlögum okkar eins og nú hefur verið of lengi.“

Ég treysti á hæstv. ráðh. að hann geri þennan dóm um hornreku íslenskrar menningar í fjárlögum okkar sem fyrst að markleysu.