11.02.1986
Sameinað þing: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

217. mál, stefnumörkun í menningarmálum

Ingvar Gíslason:

Þetta verður örstutt athugasemd, herra forseti. Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hæstv. menntmrh. um að það eru ansi mikil brögð að því, þegar samdir eru stjórnarsáttmálar, að hvergi sé minnst á menningarmál, og það hefur sennilega hent þá stjórn sem nú situr að gefa hæstv. menntmrh. heldur litlar og fáar forskriftir um hvernig hann skuli stýra menningarmálunum. En um það er best að tala sem minnst á þeirri einni eða tveimur mínútum sem ég.hef til umráða.

En ég vil taka undir það sem hæstv. menntmrh. sagði, að það væri æskilegt að „setja hér á eldhúsdag“ um menningarmál, en það mun merkja á venjulegu mæltu máli að nauðsynlegt sé að ræða menningarmál á Alþingi í nokkuð víðu samhengi. Ég held að ef þessi fsp. verður til þess að hér verður „tekinn“ þess háttar eldhúsdagur, að það fari fram þess háttar umræður, þá sé nokkuð unnið við fsp.

Hins vegar held ég jafnframt að það sé mjög erfitt mál að ætla sér í einu vetfangi að marka heildstæða menningarstefnu eins og menn tala um. Það er býsna erfitt að gera slíkt, og kannske hefur það aldrei verið gert. En það þýðir reyndar ekki að það sé engin menningarstefna til á Íslandi. Auðvitað hefur hér í áranna rás og svo lengi sem þingið hefur starfað sem löggjafarþing að vissu leyti verið mörkuð menningarstefna. En vafalaust er rétt að það er nokkuð óljóst við hvað miðað er þegar slík stefna er framkvæmd og væri vissulega æskilegt að geta frekar markað hana, sett eins konar rammalög um hvernig við verjum fé úr almannasjóðum til uppbyggingar menningarmálum.

Þetta vildi ég segja almennt um þetta, en enginn tími er til þess að gera þessu nein heildstæð skil. En ég vil taka undir það, sem hér hefur komið fram og hæstv. menntmrh. benti reyndar á sjálfur, að það væri æskilegt að hefja hér almennar umræður um menningarmál.