11.02.1986
Sameinað þing: 44. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

Um þingsköp

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Svo stendur á að 3. mál á dagskrá þess fundar sem enn stendur er fsp. sem ég bar fram á fyrsta fundi þings eftir að það kom saman að loknu jólahléi. Þetta er fsp. um afstöðu tveggja hæstv. ráðherra í ríkisstj. til hagsmunamála kennara sem mjög eru til umræðu þessa daga og undanfarnar vikur og ég hafði vænst þess að fá svör við þessari fsp. mjög skjótlega eftir að hún var lögð fram eða við fyrstu hentugleika.

Nú er kominn annar eða þriðji fyrirspurnatími í Sþ. án þess að svör hafi verið veitt af hæstv. ráðherrum. Hæstv. fjmrh. hefur nú í annað sinn ekki verið viðstaddur á fundi þingsins þegar fsp. hafa verið teknar fyrir, en ég beindi fsp. til hans og til hæstv. menntmrh.

Ég ræddi um það í byrjun fundar við hæstv. menntmrh. og raunar við hæstv. forseta líka, hvort ekki væri unnt að taka a.m.k. hluta þessarar fsp. fyrir og helst að leita eftir því að hæstv. fjmrh. kæmi til þingfundar ef kostur væri til þess að veita svör við máli sem ber hvað hæst í þjóðmálum þessa dagana. Það er beðið eftir svörum þessara hæstv. ráðherra varðandi þau efni sem fsp. fjallar um. Hæstv. menntmrh. tók vel undir að leita eftir því við flokksbróður sinn, hæstv. fjmrh., hvort hann gæti ekki komið til þingfundar þrátt fyrir boðaða fjarvist og ég hafði vænst þess að þingfundi yrði ekki slitið áður en á það reyndi. Ég vildi mælast til þess, hæstv. forseti, að á þetta mætti reyna áður en þingfundi lýkur og að hluti fsp., a.m.k. sá hluti sem snýr að hæstv. menntmrh., yrði tekinn hér til umræðu.