11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2046)

Verðlagning á olíuvörum

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið lækkuðu bæði svartolía og bensín fyrir hálfum mánuði síðan. Hins vegar hefur sá háttur verið hafður á við verðlagningu á olíum að hún heyrir undir verðlagsráð þar sem í eiga sæti fulltrúar hinna ýmsu greina, bæði launþega og viðskipta ásamt verðlagsstjóra og formanni ráðsins.

Eins og menn vita er hér innkaupajöfnunarreikningur sem tekur við sveiflum á verðlagningu og þegar verð hefur farið upp hafa birgðir verið seldar áfram á lægra verði á meðan þær endast. Sama hlýtur að gilda þegar olía lækkar. Staða innkaupajöfnunarreiknings er áætluð um næstu mánaðamót, hvað gasolíu snertir, -30,8 millj. kr. Það verður útstreymi á innkaupajöfnunarreikningi miðað við það verð sem núna er, 11,90 kr. Verðið hefði þurft að vera 12 kr. til þess að útstreymið hætti. Ef verð lækkaði skyndilega til samræmis við neðsta verð á heimsmarkaði, en það hefur stigið aftur núna og í dag er það yfir 200 dollarar svo að það er gott að taka alltaf bara lægsta daginn. mundi verða hér stórfellt útstreymi á innkaupajöfnunarreikningi sem þýðir það að gengið er á fjármagn bankanna sem mér skilst að margir alþm. telji að láni of mikið.

Ef þessi þróun heldur áfram er ég ekki þeirrar skoðunar að bíða eigi fram í miðjan apríl eftir lækkun. Ég er að vinna að því nú að lækkunin verði miklu fyrr á gasolíunni. Ég vil þó ekki nefna á þessari stundu ákveðinn dag. En sú ákvörðun getur kostað og kemur til með að kosta verulega aukið útstreymi á innkaupajöfnunarreikningi þannig að ef verð heldur áfram að lækka verður verðlækkun hægari því fyrr sem við grípum til þessara aðgerða. Ríkisstj. er hlynnt þessari leið og það mun verða leitað samráðs við verðlagsyfirvöld í þessum málum, en að þeim er nú unnið. Hins vegar er þetta mál meira og stærra en svo að hægt sé að svara því í tveggja mínútna ræðutíma.