11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

Verðlagning á olíuvörum

Páll Pétursson:

Herra forseti. Það er sagt að vegir guðs séu órannsakanlegir og stundum er erfitt að skilja verðlagningar„prósessinn“ hjá olíufélögunum. Hækkanirnar eru venjulega nokkuð fljótar að koma fram, en svo þarf aftur á móti að bíða lengi eftir lækkununum. Ég held að þjóðarbúið þurfi á því að halda að njóta hagsmuna af þeirri lækkun sem orðið hefur á olíuverði. En því stend ég upp að ég held að það séu tvær hliðar á þessu olíumáli og önnur hefur ekki verið hér til umræðu. Það er nefnilega ekki víst að þessi verðlækkun verði okkur til gagns þegar á allt er litið, a.m.k. ekki til frambúðargagns.

Ég hafði tækifæri til að hlusta á tvo erlenda sérfræðinga flytja erindi um þessa efnahagsþróun og þau áhrif sem olíuverðssveiflurnar hafa á hana. Annar þeirra er Klaus Sahlgren sem er framkvæmdastjóri ECE í Genf og hinn var formælandi vinnuveitendasambandsins í Svíþjóð. Þeir vöruðu við mjög miklum og alvarlegum efnahagslegum örðugleikum sem fylgdu í kjölfar þessarar olíuverðslækkunar og þeir rökstuddu mál sitt báðir tveir með því að aðrar orkulindir yrðu ekki samkeppnisfærar við olíuna meðan svona stæði á. Aðrar orkulindir yrðu sem sagt ekki samkeppnisfærar við olíu, olíuleit mundi stöðvast, beislun nýrra olíulinda mundi stöðvast og það yrði hætt að vinna olíu úr óarðbærari lindunum. Á endanum hættir olíuverðið að lækka, það getum við gefið okkur nú þegar, og þessi deila endar með því að leysast. Þá kemur aftur bakslag sem þessir sérfræðingar spáðu að yrði hrein verðsprenging og groddalegri en hefur nokkurn tíma áður orðið á olíu. Hvenær kemur sú sprenging? kann maður að spyrja. Það er erfitt að sjá fyrir. Kannske er það ár sem er í það, kannske eitthvað skemmra, kannske lengra. Sveiflur á verði þessarar mikilvægu vöru eru óæskilegar, en við verðum að njóta góðs af þessu lága verði meðan það varir.

Það er spursmálið í mínum huga hvort við eigum ekki að reyna að búa okkur undir mögru árin, njóta þess hags sem við komum til með að hafa tímabundið af lækkuninni og búa okkur undir mögru árin þegar olíuverðið hækkar aftur. En ég vara við því að menn séu að ávísa á bata sem muni hljótast á efnahagslífinu af þessum sökum.

En að lokum, herra forseti, ég tel að frjáls innflutningur á olíu sé ekki ráðlegur.