11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (2051)

Verðlagning á olíuvörum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég veit ekki hvort er svartara, svartnætti Páls Péturssonar eða Matthíasar Bjarnasonar.

Páll Pétursson hefur boðað okkur að verðlækkun á olíu muni þýða hörmungar. Ég veit ekki nema heimsbyggðin líði jafnvel undir lok vegna þess að verðlækkun á olíu sé eitthvað það hættulegasta sem geti komið fyrir okkur. Hæstv. viðskrh. Matthías Bjarnason boðar það í rauninni að ef við tökum upp viðskiptafrelsi á þessu sviði muni líða yfir okkur ægilegt svartnætti. Það verði birgðaskortur, það muni ekki seljast sporður af fiski úr landi og verðlag muni að öllum líkindum fara upp úr öllu valdi. Þetta er myndin sem mennirnir draga af framtíð okkar. (Samgrh.: Ég nefndi ekki viðskiptasamning.) Ég skal segja hæstv. ráðh. að þegar hann hafði yfir svartagallsraus sitt áðan minnti hann mig á umræðuna sem fór fram þegar viðreisnarstjórnin ákvað að taka upp nokkurt frelsi í viðskiptum. Þá héldu sumir því fram að það yrði matarlaust meira og minna á Íslandi vegna þess að forsjáin mundi ekki vera fyrir hendi til að sjá til þess að cornflakes og kornmeti og ýmsar aðrar innfluttar vörur kæmu til landsins. Þetta er argasti útúrsnúningur. Svona gerist þetta ekki og það veit hæstv. viðskrh. Olían mun halda áfram að berast til landsins þó viðskiptafrelsi væri tekið upp á þessu sviði.

En hæstv. ráðh. vék sér undan því að ræða hvernig það kerfi hefði gefist sem við erum með, hvers konar olíuverð við hefðum fengið, hvernig sjóðsbókhaldið út og suður hefði leikið okkur. Hv. þm. Páll Pétursson hafði þó vit á því að segja að sér fyndist erfitt að skilja þessa verðlagningu og ég er hræddur um að almenningur á Íslandi sé sammála því.

Ég held að hæstv. ráðh. ætti að taka sig til og líta á galla þess kerfis sem við búum við og hann ætti að líta til þess fordæmis sem við höfum haft af því að taka upp frelsi í viðskiptum. Það er það sem við getum litið á, annars vegar hvernig þetta kerfi hefur reynst okkur og hins vegar hvernig það hefur reynst okkur að taka upp frelsi í viðskiptunum. Þá er ég sannfærður um að hæstv. ráðh. tekur sinnaskiptum.