11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2456 í B-deild Alþingistíðinda. (2052)

Verðlagning á olíuvörum

Samgrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Ég ráðlegg hv. 3. þm. Reykn. að vera mun heiðarlegri í málflutningi en hann er. Ég sagði áðan að ég bæri kvíðboga fyrir því hvað yrði um sölu á afurðum til Sovétríkjanna, m.a. síldinni, sérstaklega síldinni, en þá segir hv. þm. að ég hafi sagt að það mundi ekki vera hægt að selja sporð ef olían væri gefin frjáls. Þetta er málflutningur í lagi. En hann kom sér undan að svara því að hann hefði ekkert gert meðan hann var ráðherra og engar tillögur lagt fram. Þetta er ábyrgðarlaust hjal hjá þm. og honum til mikillar minnkunar.

Kerfið í olíuinnflutningi þarf sannarlega athugunar við, en við gerum það ekki með því að auka útstreymi bankakerfisins á innkaupajöfnunarreikningi. Sami þm. er alltaf að tala um of mikil útlán til einstakra fyrirtækja. Það gerði hann í gær í Nd. En það er sjálfsagt að auka þetta útstreymi þegar hann kemur í Sþ. Hvað verður á morgun?