11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2054)

Verðlagning á olíuvörum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er kannske rétt að láta það koma fram að hæstv. ráðh. gerði ekki ráð fyrir því að allir atvinnuvegir hryndu, en hann taldi mikla söluerfiðleika úr landi ef við gripum til þess ráðs að koma okkur upp innflutningsfrelsi í olíuvörum.

En það bættist engu að síður við svartnættishjalið því að ofan á allt annað sem hann var búinn að nefna í fyrri ræðu sinni taldi hann líka samkvæmt hinni seinni að það yrði útstreymi á peningum úr bönkunum svo að þeir mundu væntanlega fara endanlega á hausinn ef þetta yrði gert. Ég hef ekki nokkra trú á því. Ég held að það sé einmitt þetta forsjárkerfi sem við höfum búið við og hv. þm. Valdimar Indriðason var að lýsa sem ræður því að olíufélögin ganga í bankana og ganga fyrir bönkunum og bankarnir eru með þessar byrðar. Ég er alveg sannfærður um að það er ein meginskýringin þannig að þvert á móti því sem hæstv. ráðh. hefur sagt held ég að þetta mundi létta byrðar bankanna.

Hæstv. ráðh. sagði að ég hefði ekkert gert meðan ég var ráðherra. Ég gerði kannske sitt af hverju. En að því er olíumálin varðar vill svo einkennilega til að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson var að kvarta undan því rétt áðan að ég hefði verið með alls konar tillögur og tilraunir meðan ég var ráðherra. Svo kemur hæstv. ráðh. og segir að ég hafi ekkert gert. Ég get kynnt mínar tillögur fyrir ráðherranum, bæði þær sem Hjörleifur var að vitna til og fleiri tillögur í þessum efnum. En það sem skiptir máli er að við lítum á stöðuna eins og hún er í dag.

Herra forseti. Ég skal ljúka máli mínu innan örskammrar stundar. Hæstv. ráðh. talaði um að ég ætlaði að loka á viðskiptin við Rússland. Hvaða þvættingur er þetta? Ég hef aldrei talað um það. Ef viðskiptin við Rússana í olíuvörunum eru jafnhagkvæm og sumir vilja vera láta verður þeim auðvitað haldið áfram. Ég veit ekki betur en það sé fjöldi þjóða sem á viðskipti við Sovétríkin án þess að grípa til hafta og hömlukerfis eins og hér er verið að mæla bót.