11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

Verðlagning á olíuvörum

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Þegar maður hefur hlustað á þessar umræður fær maður það á tilfinninguna að Rússar haldi uppi góðgerðarstarfsemi með því að selja Íslendingum olíu. Ég held því fram að Rússar hafi einhvern hag af því að selja okkur olíu og kaupa af okkur vörur.

Ég held að setningar eins og þær að ríkisstj. beiti sér fyrir að lækka olíuna eigi ekki að heyrast í svona umræðum. Sú setning kom fram hjá hv. málshefjanda Hjörleifi Guttormssyni 5. þm. Austurl. að ríkisstj. beitti sér fyrir lækkun á olíu alveg á næstunni. Ég held að frelsi í þessum viðskiptum sé það sem við þurfum þar sem er samkeppni um að fá olíuna á sem lægstu verði til landsins og að þau olíufélög sem hafa einkaleyfi á sölu á olíuvörum beri ábyrgð á því á hvaða verði þau kaupa inn olíuna. Það er allt of mikil samtrygging á milli þessara olíufélaga. Við þurfum ekki annað en að líta í kringum okkur á þær fjárfestingar sem þessi fyrirtæki hafa lagt í til að sjá að þau virðast hafa þó nokkuð af peningum á milli handanna þrátt fyrir að kerfið sé svo þungt í vöfum að helst ekki fái nokkur maður botnað eitt né neitt í því.

Það er verið að auka útstreymi á olíuinnkaupareikningi - það er mjög títt skipt um nöfn á þessum reikningum - og þar hallar á milli 30 og 40 millj. Hafa þessir menn ekki þrátt fyrir þetta útstreymi nokkuð rúm fjárráð? Er ekki hægt að gera þær kröfur til þessara fyrirtækja að þau kaupi inn olíu á hagstæðu verði? Þrátt fyrir Rússamarkaðinn, en um 66% af allri olíu sem flutt er inn koma frá Rússlandi, hafa þau smásvigrúm en auðvitað ekki meira. Þau virðast vera ansi dugleg að kaupa inn olíu, helst fylla alla sína tanka rétt áður en olía lækkar. Fylgjast þau ekkert með markaðsmálum erlendis?

Það er margt fleira sem mætti koma að í þessari umræðu varðandi olíuverð og fiskverð en, herra forseti, ég skal ljúka máli mínu því það er mjög skammur tími sem maður fær í utandagskrárumræðum.