11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

123. mál, graskögglaverksmiðjan í Flatey

Flm. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. á þskj. 136 um graskögglaverksmiðjuna í Flatey.

Það vakti nokkra eftirtekt á s.l. vori að þegar stuttur tími var til þingloka var útbýtt hér á Alþingi svari við fsp. Salome Þorkelsdóttur um graskögglaverksmiðjur ríkisins. Þar kom m.a. fram að rekstur graskögglaverksmiðjunnar í Flatey hafði staðið traustum fótum. Þar hafði ekki á löngu starfstímabili verið um rekstrarhalla að ræða nema lítillega í tvö ár í upphafi starfsferils verksmiðjunnar. Þar kom líka fram að verksmiðjan hefði nánast greitt stofnkostnaðarskuldir sínar upp.

Það vakti þess vegna líka athygli að í sama tilvitnaða svari var frá því skýrt að tekin hefði verið ákvörðun um að stöðva rekstur þessarar verksmiðju á s.l. sumri. M.ö.o.: Rekstur þeirrar verksmiðju sem bjó við traustastan og bestan fjárhag, verksmiðju sem hafði mesta möguleika á því að framleiða grasköggla við líðanlegu verði og hafði þannig möguleika á því að starfa til frambúðar, var stöðvaður.

Nú þykir mér vert að taka það fram til þess að fleiri hliðar málsins séu rétt skýrðar að verksmiðjan bjó líka við þær sérstæðu aðstæður að birgðasöfnun hafði átt sér stað og tiltölulega þröngt var í birgðaskemmum verksmiðjunnar þannig að erfiðleikum hefði valdið að koma framleiðslu síðasta sumars þar fyrir. Það er svo annað mál, sem ég sé ekki ástæðu til að ræða hér nánar, hver sé ástæða fyrir birgðasöfnun í Flatey og með hvaða hætti má m.a. skýra hana með tilliti til aðgerða í heildarstjórnun á graskögglaverksmiðjunum sem í raun lúta að meira eða minna leyti heildarstjórn sameiginlega.

Verksmiðjan í Flatey hóf starfsemi sína árið 1975. Hún hefur framleitt að meðaltali á þessum tíma 2363 tonn árlega og eru þá talin með fyrstu árin þegar verksmiðjan var að sjálfsögðu í lágmarki, en verksmiðjan býr yfir framleiðslugetu sem er um eða yfir 3000 tonn og hefur ræktunarland til að vinna þá framleiðslu af.

Eins og fram kemur í fskj. með till. eru skuldir verksmiðjunnar 1. nóv. s.l. rétt rúmar 9 millj. kr., þ.e. eftirstöðvar af föstum lánum, sem að sjálfsögðu er tiltölulega mjög lágur kostnaður og þá sérstaklega með tillitt til þess hvaða verðmæti standa þar á bak við. Þar kemur enn fremur fram að ef bornar eru saman birgðir grasköggla og útistandandi skuldir annars vegar og rekstrarskuldir og afborganir vaxta og fastra afurðalána hins vegar nema birgðir og útistandandi skuldir rúmlega 2 millj. kr. hærri tölu. Ef verksmiðjunni hefði auðnast að selja sínar birgðir hefði hún getað greitt upp sínar skuldir og raunar aðeins betur.

Ég hef ekki tölur um þróun þessara mála síðan, en ég óttast hins vegar að sala á graskögglum hafi gengið hægt á þessum vetri. Það er þó ekki fyrir það að synja að út af fyrir sig er það góður kostur ef bændur geta dregið úr kaupum á graskögglum eins og öðrum aðföngum og það á áreiðanlega sinn þátt í samdrættinum á sölu grasköggla í Flatey, þau almennu viðhorf í landbúnaði að leitast við að búa sem allra mest af því sem fæst í búi bóndans sjálfs. En hér kemur það líka til að nokkrar verksmiðjur, hreyfanlegar verksmiðjur, sem hægt er að ferðast með á milli bænda, hafa hafið framleiðslu úr heyi, framleiðslu heyköggla. Það er augljóst að bændur kunna að meta kosti þess að geta skipt þannig við sjálfa sig og af þeirri ástæðu má ætla að sá markaður verði til þess að draga úr sölu á graskögglum.

Þess vegna er eðlilegt að líta til þessara tveggja atriða sérstaklega þegar metin er framtíð verksmiðjunnar í Flatey og með hvaða hætti sé hægt að taka til við störf og framleiðslu að nýju. Í þeim efnum vil ég leggja sérstaka áherslu á að einungis verði miðað við að framleiða þar úrvalsfóður sem verði samkeppnisfært við það sem best gerist hér á markaði, hvort heldur sem um er að ræða innflutt fóður eða þá fóður framleitt annars staðar. Með tilliti til þess hve markaðurinn hefur gengið saman er eðlilegt að hagnýta einungis besta hluta af ræktunarlendum í Flatey, besta hluta túnanna, og til viðbótar við graskögglaframleiðsluna þar verði hafin fjölbreyttari framleiðsla - eins og ég minni á í grg. - og þá sérstaklega tekið til við kornrækt sem yrði ákveðinn hluti af starfseminni þar. Í þessum efnum er rétt að vekja athygli á að Flateyjarverksmiðjan er í fremur lítilli fjarlægð frá mikilli útgerðarstöð á Höfn í Hornafirði og þess vegna auðvelt að fá þar til blöndunar þýðingarmikil fóðurefni til að auka á gæði og fjölbreytni framleiðslu graskögglaverksmiðjunnar í Flatey. Þetta teldi ég að ætti að vera meginmarkmið rekstrarins í Flatey þegar tekið verður til starfa þar á nýjan leik. Ætta mætti að þar væri hentugt að framleiða gras á ca. 250 hekturum. Síðan mætti hugsa sér að framleiða korn á eitthvað svipaðri landstærð og nýta besta og ákjósanlegasta tíma sumarsins til þeirrar framleiðslu.

Í þessu sambandi er eðlilegt að sérstaklega verði metið hvaða rekstrarform hentar best í Flatey, hvort það er áframhaldandi ríkisrekstur eins og verið hefur eða hvort hægt væri að koma þessum rekstri fyrir heima í héraði. Ég má þá kannske minna á það að fyrir nokkrum árum flutti núv. hæstv. menntmrh. þáltill. um það hér á Alþingi að þessari verksmiðju yrði komið í eigu heimamanna. Og ég má kannske líka minna á að heima í héraði hafa komið fram tillögur um að verksmiðjunni yrði komið í hendur heimamanna með einum eða öðrum hætti. Ég geri mér ljóst að við þær aðstæður sem nú eru getur þetta dæmi tæpast gengið upp, m.a. vegna þess að túnin í Flatey voru ekki hirt á s.l. sumri. Án þess að ég fari að ræða það hér fræðilega hlýtur það að valda nokkurri óvissu um það hvernig þau koma út úr slíku hirðuleysi. Þess vegna verður að líta á þessar sérstöku aðstæður þegar tekið verður tillit til frambúðarreksturs graskögglaverksmiðjunnar í Flatey.

Í lok míns máls, herra forseti, minni ég svo á það sem ég sagði áðan, að þessi verksmiðja er afar gott fyrirtæki. Um tæki þar og búnað hefur alla tíð verið afar vel hugsað og mikið til fyrirmyndar sú hirðusemi sem þar hefur jafnan gætt. Að vísu er vélabúnaður farinn að eldast en eigi að síður býr í honum mikil framleiðslugeta. Í Flatey er ágætis starfsmannahús þar sem er aðstaða fyrir fjölskyldu og 12-13 starfsmenn. Þar er líka einbýlishús, sem er nýlega reyndar komið í eigu verksmiðjunnar, en það hafði byggt einn fyrsti starfsmaður verksmiðjunnar, sem þurfti að bregða þar búi og flytja á Höfn vegna þess að starfsemin var lögð niður. Þess vegna kemur ekki annað til mála en að fundnar verði leiðir til þess að koma verksmiðjurekstri í Flatey aftur í eðlilegt horf. Þar verða menn að fara inn á nýjar leiðir og leita nýrra hugmynda og m.a. með tilliti til þess er þessi tillaga fram komin.

Ég vil svo í lok máls míns, herra forseti, gera það að tillögu minni að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til atvmn.