11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2464 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

124. mál, bann við framleiðslu hergagna

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem er 124. mál þessa þings á þskj. 137, um bann við hönnun og framleiðslu hergagna eða hluta þeirra hér á landi. Flm. auk mín eru aðrir þm. Kvennalista, hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að lýsa yfir andstöðu við hugmyndir um að íslenskt hugvit verði nýtt til hátækniiðnaðar sem tengist vígbúnaði þannig að Íslendingar gerist þátttakendur í þeim gereyðingaráformum sem vopnaframleiðslu fylgja.

Alþingi ályktar að lýsa yfir því að á Íslandi verði ekki smíðuð kjarnorkuvopn eða svonefnd varnarvopn gegn þeim,

að hérlendis verði hvorki hönnuð né smíðuð nein þau tæki sem eru hluti af kjarnorkuvopnaútbúnaði, kjarnorkuvopnakerfi eða svonefndu varnarkerfi gegn þeim,

að á Íslandi verði hvorki reknar neinar þær rannsóknir sem tengjast hönnun, samsetningu eða smíði kjarnorkuvopna né heldur svonefndra varnarvopna gegn þeim.“

Í nóvember 1983 skipaði félmrh. starfshóp til að kanna áhrif nýrrar tækni á íslenska atvinnuvegi í næstu framtíð. Starfshópurinn skilaði áfangaskýrslu sumarið 1984 en afhenti hæstv. félmrh. skýrslu um niðurstöður sínar 15. maí 1985. Á haustdögum var þessari skýrslu dreift, m.a. til alþm. og hún varð tilefni viðtala í ríkisfjölmiðlum. Í þeim komu fram hugmyndir um að nýta hernaðarlega legu landsins og varnarsamninginn við Bandaríkin til þess að fara fram á hlutdeild Íslendinga í þeim hátækniiðnaði sem varnarliðið notar.

Formaður starfshópsins, Ingvar Ásmundsson, ræddi þar sameiginlegar niðurstöður hópsins en lýsti jafnframt persónulegri skoðun sinni. Hann taldi að við yrðum að nota okkur hernaðarlega legu landsins og varnarsamninginn við Bandaríkin til þess að fara fram á vaxandi hlutdeild íslenskra og erlendra fyrirtækja, sem kynnu að verða staðsett hér, í þeim hátæknibúnaði sem varnarliðið notar. Ingvar taldi rétt að áætlun yrði gerð um þetta sem tryggði það að Íslendingar nái því að verða hátækniiðnaðarþjóð.

Félmrh. hæstv., Alexander Stefánsson, var spurður álits um þessa skoðun Ingvars og taldi að ef við ættum að vera áfram í Atlantshafsbandalaginu þá væri þetta ekki óeðlileg hugmynd, svo fremi sem íslensk tækniþekking kæmist á það stig að hún gæti ráðið við hvaða verkefni sem er á þessu nýja sviði. Félmrh. vildi ekki afskrifa þessa hugmynd þótt hann teldi að málið þyrfti að athuga vandlega. Hann taldi engan vafa á því að þessi tækniþróun gefur tekjur, þetta sé þegar gert meðal annarra þjóða og ef Íslendingar geta notfært sér það á eðlilegan máta, þá því ekki það, sagði hæstv. ráðherra.

Vaxandi fjöldi þjóða tekur nú beint eða óbeint þátt í vopnaframleiðslu. Háþróaður tækniiðnaður gegnir lykilhlutverki í vopnakerfum nútímans og má framleiða hluta úr vopnum eða stoðbúnaði þeirra víðs vegar um heim þótt samsetning fari síðan endanlega fram í því landi sem vopnin á.

Áætlað er að á árinu 1985 verði varið 800-1000 milljörðum dollara til vígbúnaðar. Það er þúsundföld upphæð íslenskra fjárlaga þessa árs. Þessi vígbúnaður er óþarfur vegna þess að stórveldin og bandamenn þeirra - sem eru langstærstu vopnaframleiðendurnir - hafa þegar safnað vopnabirgðum langt umfram varnarþörf sína.

Í Morgunblaðinu þann 10. október á s.l. ári, er greint frá landsþingi breska íhaldsflokksins sem haldið var í Blackpool og ég vitna, með leyfi forseta, í viðtal við Michael Heseltine, sem þá var varnarmálaráðherra Breta, en hefur nú reyndar nýlega sagt af sér embætti. Hann sagði sem svo þegar talað var um viðræður Sovétmanna og Breta um afvopnun:

„SS-20 flaugar Sovétmanna eru aðeins hluti af kjarnorkuvopnabúri þeirra," sagði Heseltine, „en kjarnorkuflaugar Breta eru það eina sem við höfum til að vega upp á móti öllum þeirra kjarnorkuvopnaforða.“ Hin umdeilda ákvörðun Margrétar Thatcher, um að skipta á hinum bresku Polaris-skeytum og bandarískum Trident-kjarnorkuflaugum í kafbáta næsta áratug, var staðfest með yfirgnæfandi meiri hluta á þinginu - þ.e. þessu landsþingi breska íhaldsflokksins.

Á sama tíma fóru á stúfana 3000 læknar, bæði heimilislæknar, sjúkrahúslæknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn í Bretlandi, sem útbýttu bæklingum og miðum meðal sjúklinga sinna um það hvernig væri hægt að nota þær 11 billjónir sterlingspunda sem verja átti í kaup á Trident-eldflaugunum. Þeir bentu á að það mætti fremur nota þessa fjárupphæð til þess að koma í veg fyrir fátækt meðal barna, til þess að kaupa blóðskilunarvélar fyrir nýrnasjúklinga, til þess að bæta umönnun aldraðra og til þess að fjármagna leghálskrabbameinsleit meðal kvenna. Sá sem hóf þessa baráttu var Sir Douglas Black, sem er fyrrum forseti bresku læknasamtakanna. Og ég vil vekja athygli herra forseta og hv. þm. á því að alþjóðleg samtök lækna gegn kjarnorkuvá fengu friðarverðlaun Nóbels á s.l. ári ekki síst fyrir baráttu sem þessa.

Það virðist ekki öllum nægilega ljóst hve skaðvænlegar pólitískar og efnahagslegar afleiðingar hljótast af vaxandi kostnaði við vígbúnaðarkapphlaupið. En hernaðar- og gróðahyggja gagnsýrir pólitíska hugsun um víða veröld í allt of ríkum mæli. Það fé, sem eytt er til vígbúnaðar árlega, jafngildir þjóðarframleiðslu allra þeirra landa þar sem fátækari helmingur jarðarbúa býr. Árleg eyðsla heimsins til vígbúnaðar jafngildir allri skuld hinna fátækari þjóða við hinar efnaðri, en vaxtagreiðslur af þessum skuldum eru að kyrkja efnahagslíf margra fátækra þjóða. Ef 10% af því fé, sem eytt er til vígbúnaðar árlega, yrði varið til að grynnka á þessum skuldum myndu þær hverfa á innan við 20 árum.

Í fréttum í Þjóðviljanum af þeim fundi, sem Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn héldu í Seoul á s.l. ári, kom í ljós að í rómönsku Ameríku einni saman gengu 38% af samanlögðum tekjum þeirrar álfu af útflutningi til þess að greiða vexti á síðasta ári, vexti af erlendum lánum. Og þar kom einnig fram að ótti valdsmanna við skuldakreppuna var ekki einungis pólitískur. Hann var enn fremur tengdur því að skuldheimtan við þessi fátæku lönd, eins og hún hefur verið rekin hingað til, grefur í raun undan því að í framtíðinni geti viðkomandi ríki framleitt sig út úr skuldakreppunni. Allir sjóðir þeirra eru tæmdir og fjárfestingar hafa skroppið saman. Það má taka sem dæmi að lönd eins og Mexíkó, Argentína, Brasilía og Venezúela skulda einum aðila, Chase Manhattan bankanum, 6,1 milljarð dollara. Þetta svarar tvöföldum höfuðstóli þessa bankarisa.

Á þessum fundi í Seoul var spurt að því hvort menn ætluðu að koma í veg fyrir þá öflugu pólitísku sprengju sem skuldakreppan væri og koma í veg fyrir að hún færi í loft upp og rifi e.t.v. með sér fjármálakerfi heimsins. Þeirri spurningu var ekki svarað á þessum fundi og kannske ekki von.

Um 2 milljarðar manna, herra forseti, eiga ekki kost á hreinu drykkjarvatni en mengað drykkjarvatn veldur m.a. þarmasýkingu og niðurgangi sem er tíðasta dánarorsök ungbarna í heiminum. Er talið að tugir milljóna barna látist af þessum sökum árlega. Útgjöld þau, sem til vígbúnaðar er varið í hálfan dag, mundu nægja til að greiða fyrir bólusetningar allra barna heimsins gegn algengum smitsjúkdómum. En, herra forseti, aðra hverja sekúndu deyr barn úr sjúkdómi sem hægt er að koma í veg fyrir. Og aðra hverja sekúndu örkumlast barn líkamlega eða andlega fyrir lífstíð úr sjúkdómi sem líka má koma í veg fyrir. Það er ekki síst vegna þess að á hverri sekúndu, herra forseti, sem líður er eytt sem svarar 25 þús. dollurum til vígbúnaðar í heiminum. 6 mánaða vígbúnaðarkostnaður dygði til að hrinda í framkvæmd 20 ára áætlun sem sjá mundi öllum þróunarlöndum fyrir nauðsynlegri fæðu og heilsugæslu. Samt eyða hin efnaðri lönd heimsins meira en 200 sinnum meira fé til vígbúnaðar en til þróunaraðstoðar. Mig langar til að lesa úr grein sem birtist í Morgunblaðinu 12. nóv. s.l., með leyfi forseta. Þar segir:

„Samanlögð útgjöld allra ríkja til hermála munu á þessu ári verða um 800 milljarðar dollara, 60 milljörðum dollara meiri en á s.l. ári. Hafa þau vaxið árlega allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Bandaríkjamenn og Sovétmenn, sem eru 2% mannkyns, standa undir helmingi heimsútgjaldanna og rúmlega þó. Í Bandaríkjunum og bandalagsríkjum þeirra í Evrópu eru árleg útgjöld til hermála um 45 dollarar á hvert mannsbarn, en til heilsugæslurannsókna fara 2 dollarar. Ef allur heimur er hafður í huga er 450 dollurum að jafnaði varið til að mennta hvert barn, en kostnaðurinn við hvern hermann er aftur á móti 25 600 dollarar.

Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu World Priorities, hagrannsóknastofnunar, sem ýmis samtök eiga aðild að, t.d. Rockerfeller-stofnunin og eru tölurnar sóttar í opinber gögn í Bandaríkjunum og víðar. Tilgangur stofnunarinnar er að draga úr vígbúnaðarkapphlaupinu og vekja athygli á því hve miklu meira fé fer til hermála en til heilbrigðismála, almannatrygginga og menntunar. Þar kemur m.a. fram:

Sovétmenn fara með meira fé til hermála en ríkisstjórnir allra þróunarríkjanna verja til menntunar og heilsugæslu fyrir 3,6 milljarða manna. Fjárlög bandaríska flughersins eru meiri en nemur kostnaði við menntun 1,2 milljarða barna í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu, þar með talið Japan. Iðnríkin fara að jafnaði með 5,4% af þjóðarframleiðslunni til hermála en 0,3% í þróunarhjálp.

Frá 1960 hefur herkostnaður þriðja heims ríkja fimmfaldast og þjóðum, sem herforingjar stjórna, hefur fjölgað úr 22 í 57. Sovétmenn hafa um 778 þús. hermenn í 22 ríkjum utan Sovétríkjanna og Bandaríkjamenn um 479 þús. hermenn í 40 ríkjum utan Bandaríkjanna.“ Ég vil enn vitna í grein úr NT frá 9. okt. 1985. Þar segir:

„1,5 millj. Bandaríkjamanna eru hungraðir. Skv. nýrri bandarískri könnun, sem náði til 36 borga og þéttbýlissvæða, fá a.m.k. 1,5 millj. Bandaríkjamenn ónóga fæðu vegna ófullkominnar fátækrahjálpar stjórnvalda.

Könnunin var skipulögð af kristilegum samtökum sem kalla sig „Brauð handa heiminum“. Skipuleggjendur hennar segja að hungrað fólk, sem hafi ekki nóg að borða, sé örugglega fleira í Bandaríkjunum en könnunin hafi sýnt þar sem hún náði aðeins til 36 svæða og sýndi aðeins hve margir væru svangir á þeim.

Arthur Simon, framkvæmdastjóri „Brauðs handa heiminum“, segir sorglegt að hugsa til þess að á sama tíma og rætt sé um efnahagsbata í Bandaríkjunum fjölgi þeim sem fá ekki fylli sína. Hann sagði að stjórn Reagans hefði aukið hungrið með því að draga úr aðstoð ríkisins við fátæklinga.

Bandaríski þingmaðurinn Mickey Leland, sem er fulltrúi fyrir eitt af svæðunum sem könnunin náði til, sagði þegar niðurstöður hennar lágu fyrir að fátækasta fólkið hefði stöðugt minna að borða. Hann benti á að fyrir peningana, sem ein B-1 sprengjuflugvél kostaði mætti fæða hálfa milljón manna í heilt ár.“

Þann 5. febr. s.l. kom í kvöldfréttum frétt sem barst frá Reuter. Hún kom frá Bandaríkjunum, þessi frétt. Það var talað um að reikna mætti með 4% hagvexti í ár, en s.l. ár hafði hann verið 2,5%. Það var líka talað um það að Bandaríkjastjórn mundi vinna að lækkandi gengi bandaríkjadollars á komandi ári til að verð á útflutningsvörum Bandaríkjanna verði hagstæðara og viðskiptahalli minni.

Það kom líka fram ævintýraleg tala sem tengist því máli sem ég ræði hér. Halli á fjárlögum Bandaríkjanna hefur reyndar farið vaxandi undanfarin ár en áætlaður halli á árinu 1987 er hvorki meira né minna en 143 milljarðar dollara. Á s.l. ári var hallinn nær 200 milljörðum dollara.

En það er ekki einungis fjármagn sem er sólundað í vígbúnað. Margir af afkastamestu vísindamönnum og tæknifræðingum heimsins vinna að rannsóknum, hönnun og framleiðslu vígbúnaðar fremur en að því að bæta lífsgæði og heilbrigði jarðarbúa. Það er áætlað að einn af hverjum fimm vísindamönnum og tæknifræðingum vinni að vígbúnaði. Þetta er ófyrirgefanleg sóun á hugviti. Sagan öll af þeirri forgangsröðun, sem ríkir í þessum efnum, er eins og frásögn af martröð, ekki raunveruleika mannkyns sem annt er um líf sitt og framtíð.

Á þessari öld hefur mönnum orðið það æ ljósara að þjóðir heimsins mynda eina heild. Vígbúnaðarkapphlaupið, mannréttindabrot og gengdarlaus peningahyggja, sem hvarvetna spillir friði, hamingju og framtíð mannkynsins, eru ógn öllu mannkyni. Íslendingar hafa um langan aldur verið fyrst og fremst matvælaframleiðendur og hafa aldrei borið vopn á aðrar þjóðir.

Tillaga þessi er flutt vegna þess að nýlega hafa komið fram hugmyndir um að Íslendingar selji hugvit sitt í þágu vígbúnaðar og gerist þar með þátttakendur í þeim gereyðingaráformum sem vopnaframleiðslu fylgja. Flm. lýsa yfir andstöðu við slíkar hugmyndir og vísa jafnframt til þáltill. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem samþykkt var á Alþingi vorið 1985. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýna nauðsyn beri til að þjóðir heims, ekki síst kjarnorkuveldin, geri með sér samninga um gagnkvæma alhliða afvopnun þar sem framkvæmd verði tryggð með alþjóðlegu eftirliti. Enn fremur telur Alþingi mikilvægt að verulegur hluti þess gífurlega fjármagns, sem nú rennur til herbúnaðar, verði veittur til þess að hjálpa fátækum ríkjum heims þar sem tugir milljóna manna deyja árlega úr hungri og sjúkdómum. Alþingi fagnar hverju því frumkvæði sem fram kemur og stuðlað getur að því að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins.

Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj. að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni jafnframt því að hvetja til alþjóðlegra samninga um að árlega verði reglubundið dregið úr birgðum kjarnavopna. Þessu banni og samningum um niðurskurð kjarnorkuvopna verði framfylgt á gagnkvæman hátt þannig að málsaðilar uni því og treysti, enda verði það gert í samvinnu við alþjóðlega eftirlitsstofnun. Leita verður allra leiða til þess að draga úr spennu og tortryggni milli þjóða heims og þá einkum stórveldanna. Telur Alþingi að Íslendingar hljóti ætíð og hvarvetna að leggja slíkri viðleitni lið.“

Erindi þessarar till., herra forseti, og allur andi hennar er í algerri andstöðu við sérhverja hugmynd sem leitt gæti til þess að íslenskt hugvit væri nýtt til framleiðslu hergagna. Við værum illa stödd ef okkur þætti sæmandi að hafa viðurværi af hátækniiðnaði sem tengdist vígbúnaði.

Að lokinni umræðu um þessa till. vil ég leggja til að henni verði vísað til hv. utanrmn.