11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2468 í B-deild Alþingistíðinda. (2066)

124. mál, bann við framleiðslu hergagna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég vil taka hér eindregið undir þá þáltill. þm. Kvennalistans sem hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir hefur mælt hér fyrir. Ég geri það með fullri og góðri sannfæringu og ég tel mig mæla þar fyrir hönd míns flokks því að till. efnislega sama eðlis var samþykkt á landsfundi Alþb. í nóvembermánuði s.l. Hér er hreyft mjög stóru máli og þörfu út frá mínum sjónarhóli og ég vænti þess að geta átt hlut að því að þessi till. fái framgang á vettvangi utanrmn.

Flm. eru hér að fjalla um efni sem því miður fær langt frá því alls staðar þær undirtektir sem skyldi. Er þar skemmst að minnast þess óhugnanlega kapphlaups sem gætir í sumum Evrópulöndum um hlutdeild í hinni stóru áætlun Bandaríkjamanna sem gengur undir skammstöfuninni SDI eða geimvopna- eða geimvarnaáætlun eins og hún er stundum kölluð. Þar erum við vitni þess að Þjóðverjar láta draga sig út í hlutdeild í rannsóknum á hernaðarsviði eingöngu verkefnanna vegna eins og orðið hefur reyndin hjá stjórn Bretlands, svo að dæmi sé tekið, og ýtt er mjög á eftir svipaðri niðurstöðu í Vestur-Þýskalandi. Þarna er ekki matið lagt á hvert er verið að halda með framleiðslu sem þessari heldur að eignast hlutdeild í því fjármagni sem þarna er veifað í þessu tilviki af Bandaríkjunum.

Tilefni þessarar þáltill. eru hugmyndir, eins og fram kemur í till. og flm. hefur getið, um að tengja íslenskt hugvit við framleiðslu á hernaðarsviði. Slíkt er hugsunarháttur sem betur væri gleymdur og grafinn og hefði aldrei heyrst hérlendis. Ég vona að þessi till. verði til að stuðla að því að fleiri slíkar raddir vakni ekki á næstunni.