11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2470 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

187. mál, frysting kjarnorkuvopna

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um frystingu kjarnorkuvopna á þskj. 223. Flm. auk mín eru hv. þm. Ingvar Gíslason, Stefán Valgeirsson, Haraldur Ólafsson, Þórarinn Sigurjónsson, Guðmundur Bjarnason, Jón Kristjánsson og Davíð Aðalsteinsson. Till. orðast svo:

„Alþingi ályktar að lýsa þeirri skoðun sinni að Ísland eigi að leitast við að ná samstöðu með öðrum ríkjum Norðurlanda um „frystingu“ á framleiðslu kjarnavopna og bann við tilraunum með kjarnavopn. Ísland skal hafa frumkvæði um tillöguflutning á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um þau mál á grundvelli ályktunar Alþingis frá 23. maí 1985.“

Greinargerð hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Í ályktun Alþingis um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum, sem samþykkt var einróma 23. maí 1985, segir m.a.:

„Alþingi fagnar hverju því frumkvæði sem fram kemur og stuðlað getur að því að rjúfa vítahring vígbúnaðarkapphlaupsins.

Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj. að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti, svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni, jafnframt því að hvetja til alþjóðlegra samninga um að árlega verði reglubundið dregið úr birgðum kjarnavopna. Þessu banni og samningum um niðurskurð kjarnavopna verði framfylgt á gagnkvæman hátt þannig að málsaðilar uni því og treysti, enda verði það gert í samvinnu við alþjóðlega eftirlitsstofnun.

Leita verður allra leiða til þess að draga úr spennu og tortryggni milli þjóða heims og þá einkum stórveldanna. Telur Alþingi að Íslendingar hljóti ætíð og hvarvetna að leggja slíkri viðleitni lið.“

Á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna er til umfjöllunar tillaga um „frystingu“ kjarnorkuvígbúnaðar flutt af Mexíkó, Svíþjóð og fleiri ríkjum. Afstaða Íslands var sú að sitja hjá. Þeirri afstöðu viljum við breyta. Þess er rétt að geta að Norðmenn höfðu sömu skoðun en hafa nú breytt afstöðu sinni og styðja tillöguna.

Flm. telja eðlilegt að Íslendingar hafi frumkvæði að sameiginlegri stefnumótun Norðurlanda.“

Fyrr í vetur urðu hér nokkrar umræður um afstöðu Íslands til frystingar kjarnorkuvopna. Umræðan var vakin í sambandi við atkvæðagreiðslu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um tillögu Svíþjóðar, Mexíkó og fleiri ríkja. Þáv. utanrrh. taldi að sú tillaga stangaðist á við ályktun Alþingis frá 23. maí 1985 um afvopnunarmál. Það taldi ég raunar ekki vera.

Í kjölfar umræðna, sem þá urðu, kom í ljós að sumir hv. alþm. litu svo á að það að hafa ekki sömu skoðun og hæstv. utanrrh. um blæbrigði á tillögugrein ætti að skoða sem vantraust á þáv. utanrrh. Þetta var mikill misskilningur vegna þess að þótt ég sé ekki í öllum atriðum ævinlega nákvæmlega sammála hæstv. ráðherrum starfa þeir þó á mína ábyrgð, enn þá a.m.k. Ef ég vil ekki styðja setu þeirra í ráðherrastólum lengur mun ég komast skilmerkilega að orði þar um. Ég get lofað hæstv. ráðherrum að gera þeim það ljóst ef ég uni ekki setu þeirra í ráðherrastólum lengur og þá mun ég segja þeim það alveg umbúðalaust.

Ég vitna til ræðu sem hæstv. þáv. utanrrh. Geir Hallgrímsson hélt í Sþ. 5. des. 1985 og var að svara spurningu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar um það hvers vegna ákvörðun hefði verið tekin um að sitja hjá við atkvæðagreiðslu um frystingartillögu Mexíkó, Svíþjóðar og fleiri ríkja. Ég vitna til 8. heftis Alþingistíðinda, dálks nr. 1183:

„Herra forseti. Ég svara fyrri fsp. á þá leið að það er einmitt afvopnunartillaga sú, sem samþykkt var á Alþingi s.l. vor, sem gerir það að verkum að ákveðið var að atkvæði Íslands skyldi vera óbreytt frá fyrri árum þegar þessi tillaga hefur verið borin undir atkvæði. Að vísu hafa fengist nokkrar endurbætur á þessari tillögu, m.a. vegna tilrauna okkar og Norðmanna, en ekki nægilega miklar til þess að fullnægt yrði skilyrðum till. til þál. um stefnu Íslendinga í afvopnunarmálum sem samþykkt var á Alþingi s.l. vor. Þar eru gerð eftirfarandi skilyrði fyrir því að um bann eða frystingu kjarnavopna sé að ræða:

1. Að traust eftirlit sé fyrir hendi og þetta trausta eftirlit sé á þann veg útbúið að sé í samvinnu við alþjóðlega eftirlitsstofnun, málsaðilar uni því og treysti. Þessu skilyrði var ekki fullnægt.

2. Að jafnframt frystingu kjarnavopna sé reglubundið árlega dregið úr birgðum kjarnavopna. Þessu skilyrði var heldur ekki fullnægt.

3. Það skilyrði var sett að samkomulag kjarnorkuveldanna lægi til grundvallar slíkri frystingu. Þessu skilyrði var heldur ekki fullnægt.

Það var þess vegna ekki ástæða fyrir okkur að breyta atkvæði okkar við þessa tillögu. Ég gerði grein fyrir þessu á fundi utanrmn. s.l. mánudag.“

Þannig hljóðuðu rök þáv. utanrrh. Geirs Hallgrímssonar fyrir því að Ísland tók þá afstöðu sem alkunnugt er. Ég vil varðveita það góða samkomulag sem náðist á Alþingi í fyrravor um afvopnunarmál og þess vegna vil ég að þeir agnúar, sem þáv. hæstv. utanrrh. sá á frystingartillögunni, verði sniðnir af og Ísland taki forustu við mótun samnorrænnar afstöðu og einmitt á grundvelli ályktunarinnar frá 23. maí 1985.

Ég tel mjög mikilvægt að Norðurlönd móti sameiginlega afstöðu út á við þar sem það er unnt. Norðurlönd geta sameiginlega komið ýmsu góðu til leiðar í veröldinni. Þau njóta virðingar annarra þjóða og ég leyfi mér að fullyrða að þegar þau eru samstiga geti þau ýmsu áorkað. Ég tel að okkur Íslendingum ætti að vera það kappsmál að efla þessa samstöðu. Okkar lóð verður ekki þyngra með öðru móti.

Hugmyndin um frystingu kjarnorkuvopna fékk byr undir vængi er bandarísku öldungadeildarþingmennirnir Edward Kennedy og MacHattield kynntu þáltill. 10. mars 1982 með svofelldum texta:

„Þar sem mikilvægasta verkefni okkar í dag er að koma í veg fyrir að kjarnorkustyrjöld brjótist út hvort sem er fyrir slysni eða af ásettu ráði, þar sem kjarnorkuvopnakapphlaupið eykur háskalega hættuna á gereyðingu, sem yrði hinsta styrjöld mannkyns, og þar sem þörf er stöðvunar, sem fylgt væri eftir með verulegri fækkun kjarnaodda, eldflauga og annarra árásartækja til að stöðva kjarnorkuvopnakapphlaupið og draga úr hættunni á kjarnorkustríði, álykta öldungadeild og fulltrúadeild Bandaríkjanna á sameinuðu þjóðþingi:

1. að í þágu eftirlits með langdrægum vopnum skuli Bandaríkin og Sovétríkin nú þegar:

a) stöðva kjarnorkuvopnakapphlaupið algjörlega,

b) ákvarða hvenær og hvernig framkvæmd skuli gagnkvæm og sannanleg stöðvun er nái til tilrauna, framleiðslu og frekari dreifingar kjarnaodda, eldflauga og annarra árásartækja og

c) athuga sérstaklega þá gerð vopna sem fyrir hefur verið komið og ætla mætti að gerðu stöðvun erfiðari en ella.

2. Í kjölfar þessarar stöðvunar skulu Bandaríkin og Sovétríkin gagnkvæmt og sannanlega fækka verulega kjarnaoddum, eldflaugum og öðrum árásartækjum. Miðað skal við árlegan hundraðshluta eða aðra árangursríka tilhögun þannig að stöðugleiki aukist. Þeir Kennedy og Hatfield gáfu út bók til kynningar á hugmyndum sínum. Formála bókarinnar ritaði Averell Harriman, fornfrægur bandarískur stjórnmálaskörungur. Þar segir hann m.a.:

„Þegar rætt er um kjarnorkuvopn og hvað af þeim getur hlotist skiptir ekki máli hvar í flokki menn standa. Því ber að fagna því að annar höfunda þessarar bókar, Kennedy öldungadeildarþingmaður, er demókrati og hinn, Hatfield öldungadeildarþingmaður, er repúblikani. Slík samvinna frammámanna í báðum flokkum er nauðsynleg því andspænis þessu máli erum við umfram allt Bandaríkjamenn og framtíð Bandaríkjanna er órjúfanlega tengd því hvernig vopnaeftirlit mun þróast. Og umfram allt erum við öll mannverur og viljum vernda þessa plánetu og það líf sem þar getur þrifist.

Siðmenning á sér u.þ.b. tíu þúsund ára sögu. Á þeim stutta tíma sem við lifum hér á jörðu fáum við að ráða nokkru um það hvernig heim við látum afkomendum okkar í té. Tilvist kjarnorkuvopna leggur þeim sem nú byggja þessa jörð þungar skyldur á herðar. Ef við bregðumst verður enginn sagnfræðingur til að festa það á spjald.“

Þetta voru orð Averell Harrimans. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Hugmyndin hefur þróast og henni hefur vaxið fylgi. Nú síðast er kominn miklu jákvæðari og raunhæfari tónn í Mikhail Gorbatsjoff og talsvert mikils að vænta af þeim viðræðum sem nú standa yfir. Það er sennilega ekki ástæða til að glata voninni um að þessi hugmynd geti náð fram að ganga.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Ég legg til að tillögu okkar verði vísað til utanrmn. til athugunar. Ég treysti formanni nefndarinnar til þess að afgreiða tillöguna jákvætt og án langrar tafar. Ég tel enn fremur að núverandi utanrrh. sé rétti maðurinn til að hafa forustu um framkvæmd ályktunar þeirrar sem ég vonast til að Alþingi geri. Hæstv. utanrrh. Matthías Á. Mathiesen er reyndur og mikils metinn forustumaður í norrænu samstarfi og nýtur þar hins mesta trausts. Hann hefur í tvígang verið forseti Norðurlandaráðs og þar að auki verið foringi ráðherranefndarinnar. Þess vegna er mjög vel til fundið að hann fái það hlutverk að samræma afstöðu Norðurlanda til frystingar kjarnorkuvopna.