11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2476 í B-deild Alþingistíðinda. (2071)

187. mál, frysting kjarnorkuvopna

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ástæðan fyrir þessum tillöguflutningi var sú að við töldum að ekki hafi verið svigrúm til að greiða atkvæði á þann veg sem við töldum rétt á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í vetur er leið. Tillagan sem hv. 2. þm. Norðurl. v. hefur mælt fyrir er beint framhald af tillögunni frá því í maí í fyrra sem var samþykkt einróma hér á Alþingi. Hún er í raun og veru ekkert annað en undirstrikun hennar þar sem segir að Íslendingar skuli eftir megni vinna fyrir því að kjarnorkuvopnum verði útrýmt, að hætt verði tilraunum með kjarnorkuvopn o.s.frv. Það er því meginatriðið í málflutningi okkar flm. till. að við séum að halda áfram, undirstrika og hvessa tillöguna frá því í maí í fyrra.

Varðandi samninga risaveldanna vildi ég aðeins gera örstutta athugasemd við ummæli hæstv. utanrrh. Kjarni málsins er að smáþjóðir og þjóðir heims, þær þjóðir sem ekki ráða yfir kjarnavopnum, þær þjóðir sem standa utan við, telja að þessi vopn séu þess eðlis að það komi hverjum einasta jarðarbúa við. Þær telja að þetta sé ekki mál Gorbatsjoffs eða Reagans. Þetta er mál allrar heimsbyggðarinnar. Og smáum þjóðum sem stórum ber skylda til að þrýsta á þau ríki, þá stjórnmálamenn og þær ríkisstjórnir sem fara með þessi vopn til að gera raunhæfa samninga til útrýmingar þessum stórkostlegu og ægilegu vopnum.

Við getum vafalaust endalaust deilt um hvenær hernaðarlegt jafnvægi er í veröldinni, en það vita allir að það „jafnvægi“ sem talað er um í sambandi við kjarnorkuvopn stafar ekki af því að einhver ákveðin megatonn séu jöfn. Það skiptir engu máli hve mörgum megatonnum meira Sovétmenn hafa eða Bandaríkjamenn hafa. Það sem skiptir máli er að þessum vopnum verði ekki beitt, að það verði dregið úr tilraunum með þau, það verði dregið úr framleiðslu þeirra og smám saman verði þeim útrýmt. Það er kjarni málsins. Allar umræður um jafnvægi eru út í bláinn þegar rætt er um þessa tegund vopna.

Ég tel að það sé einmitt hlutverk smárra þjóða að leggja sitt af mörkum til að knýja á stórveldin að taka af skarið í þessum málum, hætta tilraunum með kjarnorkuvopn, fækka þeim og helst að útrýma þeim. Síðan er það annað mál að hættan af venjulegum vopnum er kannske nokkuð sem hefur gleymst ákaflega oft í þessari umræðu. Fyrir nokkrum mánuðum sat ég einmitt alþjóðlega ráðstefnu um þau efni þar sem rætt var um þá gífurlegu hættu sem stafaði af framleiðslu og verslun með það sem kölluð eru hefðbundin vopn. Ég held að við ættum að fara að athuga hvort ekki sé tími til kominn að einmitt Norðurlöndin fari að ræða þau mál ekki síður en kjarnavopnin.

En núna eru kjarnavopnin það ægilega, sú ógnun sem við viljum draga úr, því það vita allir að verði kjarnavopnin notuð þýðir það útrýmingu menningar á stórum svæðum jarðarinnar. Mannkynið þyrfti raunverulega að byrja upp á nýtt. Við hljótum því að vona að þeim verði aldrei beitt. En bara það að lifa undir þessari ógnun, lifa við það að hugsanlega verði þau notuð, er það ægilegt álag að það er ekki leggjandi á fólkið á þessari jörð.

Ég held að við ættum að íhuga líka annað í þessu sambandi og það er að víða í heiminum eru hópar manna, jafnvel þjóðabrot, sem mundu gefa mikið fyrir að ráða yfir slíkum vopnum og væru tilbúin að beita þeim. Sú hætta er vissulega alltaf fyrir hendi. Við þurfum ekki annað en að minnast á Austurlönd nær. Við getum minnst á Afríkuríki. Jafnvel víðar í veröldinni er hugsanlegt að slíkum vopnum verði beitt. Sumir hafa m.a.s. komið með þá kenningu að stórveldin muni í tímanna rás prófa kjarnavopn eða réttara sagt láta aðra prófa þessi kjarnavopn í litlum mæli. En um leið og kjarnavopnin eru notuð einhvers staðar í veröldinni, hvort sem það gera terroristar eða einhverjir aðrir, er skrefið stutt yfir í það allsherjareyðingarstríð sem núna vofir eins og sverð yfir mannkyninu.

Ég vil þess vegna eindregið hvetja til þess að þessi tillaga verði samþykkt og að Íslendingar láti heyra frá sér í þessu máli annað en það sem stórveldunum þykir gott að heyra.