11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (2073)

187. mál, frysting kjarnorkuvopna

Utanrrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það eru örfá orð út af ræðum þeirra tveggja flm. þessarar tillögu.

Ég vil svara hv. 1. flm. því að ég gerði í ræðu minni grein fyrir sjónarmiðum varðandi þá tillögu sem þeir hér hafa flutt. Ég teldi óskynsamlegt eins og málum er háttað nú að út frá þeirri samþykkt sem Alþingi hefur gert verði brugðið. Í tillögu þeirra er lagt til að ná samstöðu með öðrum ríkjum Norðurlanda. Á móti því hef ég að sjálfsögðu aldrei. En hér er talað um ákveðna aðferð í sambandi við vandamál kjarnorkunnar og þar er ekki samræmi að mínum dómi á milli þeirrar ályktunar sem Alþingi hefur gert og þess sem þarna er farið fram á. Við viljum umfram allt, eins og hv. þm. sagði, varðveita samstöðu í þessu máli og ég efast ekkert um að það verður reynt að gera það eins og mögulegt er.

Varðandi það sem hv. 9. þm. Reykv. sagði er það auðvitað málefni allra, ekki síður þeirra smáu en þeirra stóru. Einmitt það hvernig komið er í sambandi við þessi mál, sem betur fer, að komnar eru af stað viðræður á milli forustumanna stórveldanna um nákvæmlega þau atriði sem samþykkt voru á Alþingi 23. maí 1985, sýnir okkur að sú yfirlýsing var viturlega gerð af Alþingi. við eigum að halda okkar striki og meta að þeir sem fara með yfirráð yfir þessum ógnarvopnum hafa kannske hlustað á það sem hér var samþykkt og gera sér grein fyrir með hvaða hætti þarf að þessum málum að vinna eins og fram hefur komið. Við skulum vona að okkur takist með þeirri stefnu sem Alþingi hefur samþykkt að ná árangri í þessum málum. Það er ævinlega svo að lítil þjóð á að láta til sín heyra í þessum málum. Mér sýnist að það sem hér hefur verið að gerast sé e.t.v. að á það hefur verið hlustað.