11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2484 í B-deild Alþingistíðinda. (2078)

188. mál, frysting kjarnorkuvopna

Flm. (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 10. landsk. þm. góð orð hennar um þetta mál og tek undir það sem hún sagði.

Í sambandi við fyrirslátt gegn því að samþykkja þessa till. kemur fram að eftirlitið er eitt af vandamálunum. Í þeirri afvopnunartillögu sem samþykkt var á þinginu s.l. vor stendur „undir traustu eftirliti“. Það stendur líka svo ég vitni, með leyfi forseta: „að banninu verði framfylgt á gagnkvæman hátt þannig að málsaðilar uni því og treysti“.

Í þeirri tillögu sem borin er fram af Svíþjóð og Mexíkó og þýdd í utanrrn. stendur, með leyfi forseta: „Hún yrði háð viðeigandi eftirlitsráðstöfunum og reglum svo sem þeim er þegar hefur orðið samkomulag um í SALT I og II samningunum, svo og þeim sem grundvallarsamstaða hefur náðst um í undirbúningsviðræðum þríhliða samninganna um allsherjarbann við tilraunum sem haldnar eru í Genf.

Í tillögum þingflokks Kvennalistans er næstum samhljóða ítrekun á því sem ég áður las og hef reyndar þegar lesið. Þar er enginn merkingarmunur.

Í hverju er það fólgið að þær eftirlitsráðstafanir sem vitnað er til sem dæmis í SALT I og SALT II samningunum eða sú grundvallarsamstaða sem náðist í undirbúningsviðræðum þríhliða samninganna um allsherjarbann við tilraunum, hvers vegna er það ekki nægjanlega traust eftirlit? Þeirri spurningu vil ég beina til hæstv. utanrrh.

Ef ég man rétt var annað atriði. Þetta er talsvert löng setning í afvopnunartillögunni og hún er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj. að styðja og stuðla að allsherjarbanni við tilraunum, framleiðslu og uppsetningu kjarnavopna undir traustu eftirliti, svo og stöðvun á framleiðslu kjarnakleyfra efna í hernaðarskyni, jafnframt því að hvetja til alþjóðlegra samninga um að árlega verði reglubundið dregið úr birgðum kjarnavopna.“

Hvers vegna getum við ekki samþykkt á alþjóðavettvangi tillögu sem er samhljóða fyrri hluta setningarinnar? Af hverju þurfum við að samþykkja alla setninguna í einu? Ef ég man rétt var ein af ástæðunum fyrir því að við gátum ekki samþykkt tillögu Mexíkó og Svíþjóðar sú að það var ekki talað um þar að það yrði árlega reglubundið dregið úr birgðum kjarnavopna. Þetta er óháð hvort öðru í raun og veru. En stöndum við ekki við fyrri hluta setningarinnar alveg eins og við setninguna í heild sinni? Ég skil ekki alveg af hverju við getum ekki samþykkt fyrri hlutann. Hann hlýtur að vera gildur því hann er ekki í neinu sérstöku samhengi við seinni hlutann. Ég skil ekki fyrirsláttinn. Getur það verið að þetta séu einhverjar hártoganir? Getur það verið? Ég get alls ekki skilið að hæstv. utanrrh. sé ekki í raun og veru sammála.

Umr. (atkvgr.) frestað.