11.02.1986
Sameinað þing: 45. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2492 í B-deild Alþingistíðinda. (2085)

235. mál, loðdýrarækt

Flm. (Björn Dagbjartsson):

Herra forseti. Á þskj. 463 flyt ég till. til þál. um áætlun um skipulag í loðdýrarækt.

Till. fylgir allítarleg grg. sem ég sé ekki ástæðu til að lesa. Ég vildi aðeins fara nokkrum orðum um málið í heild sinni.

Það hefur verið margt og mikið rætt um bjarta framtíð loðdýraræktar. Ýmsum þykir það mál sótt af miklu meira kappi en forsjá og vissulega hafa margir orðið kallaðir en ekki útvaldir. Það eru mörg dæmi um menn sem byrjuðu þegar þeir urðu að hverfa frá búskap af einhverjum orsökum og eru hættir eða farnir á höfuðið nú þegar. Fyrstu árin var lögð höfuðáhersla á loðdýrarækt sem aukabúgrein með u.þ.b. 40 tófum og e.t.v. nokkrum tugum minka. Það þótti engin ástæða til að hugsa sérstaklega fyrir fóðri. Þau svör heyrðust úr landbrn. að það væri nóg að menn ættu hakkavél og frystikistu. Síðan fengu allir lán, alveg burtséð frá því hvort þeir gætu með nokkru móti rekið búskapinn með hagnaði.

Einn tilgangur þessarar till. er að menn staldri nú við og skoði hvernig hægt sé að reka þennan búskap með hagkvæmum hætti og helst hagnaði en ekki af tómu kappi. Það er auðvitað spurning hvort við séum þegar komnir of langt í skipulagsleysinu og hvort ekki verði snúið við nú þegar allir verða að fá sömu fyrirgreiðslu hvort sem þeir eru aleinir í 200 km fjarlægð frá næstu fóðurstöð, eru byrjendur með tvær hendur tómar eða gamlar grónar fóðurstöðvar sem geta skilað hagnaði og hafa þegar sýnt það.

Sú skoðun er býsna ríkjandi að loðdýraræktin eigi að koma í stað hefðbundinna búgreina til sveita. Það virðist gleymast að það gilda allt aðrar forsendur fyrir þessa atvinnu, að gott beitiland eða ræktunarmöguleikar eru einskis virði fyrir loðdýrabúskap, að gömul fjós eða fjárhús eru ekki endilega kjörin loðdýrahús, að fóðurkostnaður er helmingur af veltu og má ekki vera mikið meira, að loðdýraeldi er vandaverk og verður ekki stundað í hjáverkum, að þetta er atvinnurekstur sem getur gefið nokkuð í aðra hönd ef vel er á haldið.

Ævar Hjartarson ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Eyjafjarðar segir í Degi 30. jan. s.l., með leyfi forseta: "„Það er ekki slæmur kostur að fara út í loðdýrarækt, sérstaklega ef birtir til í sambandi við fóðurkostnaðinn. Hann ætti að lækka með auknum fjölda búa.“ Ævar benti á að fóðurstöðvarnar væru raunverulega búnar að fjárfesta meira en þær þyrftu með þann dýrafjölda sem er í búunum í dag. Fjármagnskostnaðurinn væri nokkuð þungur meðan stöðvarnar geta ekki nýtt afkastagetuna að fullu.“

Valgerður Sverrisdóttir frá Lómatjörn segir í erindi sem hún flutti á ráðstefnu Fjórðungssambands Norðurlands s.l. vor, með leyfi forseta:

„Ef fyrirhugað loðdýrabú er á einu af þeim svæðum sem þegar hafa komið sér upp fóðurstöð horfir málið vel við. Ef um byggðarlag er að ræða þar sem loðdýrarækt er ekki hafin er sjálfsagt að setja sig í samband við nágranna og athuga hvort fleiri eru áhugasamir eða jafnvel boða til fundar og fá ráðunauta og bændur með reynslu í þessum efnum til að upplýsa menn. Fóðurframleiðsla fyrir eitt einstakt bú - ég tala nú ekki um ef það er einhvers staðar inn til dala - er ekki raunhæft mál að tala um.“

Hún segir enn fremur um bústærð: „Menn verða að ákveða bústærðina með tilliti til aðstæðna. Ef einn maður er talinn geta sinnt 5-700 minkalæðum eða 150-200 blárefalæðum, ef hann fær fóður heimkeyrt en auk þess einhverja hjálp, t.d. maka eða barna, þegar annir eru mestar, þá er rétt að benda á að það er mikil áhætta fyrir reynslulausan aðila að fara af stað með bú sem er stærra en þetta.“

Aðrir gagnkunnugir heimildarmenn mínir segja að fjölskylda, þ.e.a.s. hjón með tvö börn, geti annast 200- 250 tófur eða 800-1000 minkalæður með því að kaupa ca. 3-4 mannmánaða vinnu. Slíkt bú getur gefið af sér 5-6 millj. kr. eins og nú er og þar af fari u.þ.b. 21/2-3 millj. í fóður. Fjölskylda með aðstoðarfólki geti því haft um 1 millj. kr. í kaup út úr þessu. Menn sjá það í hendi sér að 20% meiri fóðurkostnaður rýrir tekjur eða laun fjölskyldunnar um helming. Búnaðarmálastjóri segir í sínu áramótayfirliti, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld hafa gert marga góða hluti fyrir loðdýraræktina að undanförnu og ekki hvað síst á liðnu ári. Felld hafa verið niður gjöld af byggingarefni, framlög tekin upp til loðdýrabygginga og framlög til búháttabreytinga miða í rétta átt. Stuðningur er nú verulegur til fóðurstöðva og til skinnaverkunarstöðva. Unnið er áfram að skipulagsmálum.“

Það er að sjálfsögðu rétt að stjórnvöld hafa gert margt gott fyrir loðdýraræktina en það er enn þá „unnið áfram að skipulagsmálum“. Það er einmitt þetta, það er „unnið áfram að skipulagsmálum“, en menn veita svo fé út og suður að því er virðist. Ég held því fram að það séu til nægar upplýsingar til að hægt sé að byggja þessa atvinnugrein skipulega upp.

Ég vil ekki að menn, sem kannske þurfa að hætta hefðbundnum búskap af einhverjum orsökum, séu blekktir til að byrja á loðdýrarækt á fölskum forsendum eða með óljósum hugmyndum um ýmsa kostnaðarþætti. Það er tilgangslaust að halda því fram sí og æ að fóður sé svo sérstaklega ódýrt hérlendis að þess vegna hljóti menn að græða mikið á þessum atvinnurekstri. Sannleikurinn er sá að raunkostnaður fóðurs a.m.k. mjög fjarri fóðurstöðvum er orðinn býsna nærri kostnaði við fóðuröflun í nágrannalöndunum, ef ekki hærri en þar, þar sem lengst er. Það er annað mál að hægt er að stofna til jöfnunar á flutningskostnaði og breyta þessu dæmi en það er aftur spurning hvort sá jöfnuður á rétt á sér fyrir atvinnuveginn í heild.

Herra forseti. Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að þessari till. verði vísað til atvmn.